*

miðvikudagur, 20. október 2021
Týr
24. ágúst 2018 11:49

Þöggun

Píratar og Samfylking hafa gert þá kröfu til andstæðinga sinna að þeir „axli ábyrgð“ jafnvel þótt ekki sé önnur ástæða til staðar en ágreiningur um túlkun á matskenndum reglum.

Dóra Björt Guðjónsdóttir
Haraldur Guðjónsson

Vandi fylgir vegsemd hverri. Píratinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var á dögunum valin af systurflokkum Samfylkingarinnar sem formaður mannréttindanefndar Evrópuráðsins. Flokkssystir hennar, Dóra Björt Guðjónsdóttir, er formaður mannréttindaráðs Reykjavíkur, sem nýlega samþykkti postulínslögbrot á náðhúsum ráðhússins.

***

Á dögunum skilaði umboðsmaður Alþingis því áliti að málsmeðferð Reykjavíkurborgar á utangarðsfólki og heimilislausum í borginni væri brot á stjórnsýslulögum: „Þegar þessi atriði og umgjörð við úrlausn á húsnæðisvanda utangarðsfólks hjá Reykjavíkurborg séu virt heildstætt skorti á að Reykjavíkurborg tryggi utangarðsfólki, svo fullnægjandi sé, aðstoð við lausn á bráðum húsnæðisvanda í samræmi við ákvæði laga nr. 40/1991, eins og þau verða túlkuð í ljósi 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og fjölþjóðlegra mannréttindareglna.“

***

Samkvæmt áliti umboðsmanns er því ekki aðeins um brot á reglum stjórnsýsluréttarins að ræða, heldur almennum lögum, stjórnarskrá og fjölþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum.

***

Píratar hafa setið í meirihluta borgarstjórnar undanfarin fjögur ár og þeirra maður, Halldór Auðar Svansson, farið fyrir stjórnkerfis- og lýðræðisráði borgarinnar, sem ætlað var að bæta stjórnsýslu borgarinnar. Raðáfellisdómar umboðsmanns, héraðsdóms og kærunefndar jafnréttismála að undanförnu yfir stjórnendum borgarinnar hljóta að vekja upp spurningar um hvað Halldór og nefndin, sem stofnuð var undir hann sérstaklega, voru eiginlega að sýsla undanfarin fjögur ár.

***

Píratar og Samfylking hafa gert þá kröfu til andstæðinga sinna að þeir „axli ábyrgð“ jafnvel þótt ekki sé önnur ástæða til staðar en ágreiningur um túlkun á matskenndum reglum. Nú bregður hins vegar svo við að þrátt fyrir að Píratar og Samfylkingarfólk í borgarstjórn hafi brotið stjórnsýslureglur, almenn lög, stjórnarskrá og mannréttindasáttmála á þeim, sem minnst mega sín í samfélaginu, heyrast engar kröfur um að menn axli ábyrgðina.

***

Enn verra er þó að horfa upp á að mannréttindafrömuðir Pírata láta sig engu varða þótt þeirra fólk í valdastöðum hafi traðkað á rétti utangarðsfólks. Er þöggun hið eina sem Þórhildur Sunna og Dóra Björt hafa fram að færa?

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.