*

föstudagur, 18. júní 2021
Óðinn
26. ágúst 2020 07:20

Þórdís Kolbrún, Rio Tinto og samkeppnisstofnunin

Ríkisstjórnarútvarp Jóhönnu og Steingríms þrá að gera úlfalda úr mýflugu um ráðherrann sem stóð í lappirnar gegn Rio Tinto.

Jean-Sébastien Jacques forstjóri Rio Tinto, Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Nokkrir íslenskir fjölmiðlar lögðust á hliðina í byrjun vikunnar vegna þess að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hitti vinkonur sínar. Þrátt fyrir að sóttvarnalæknir hafi skorið úr um að ráðherrann hafi ekki brotið reglur og Þórdís beðist afsökunar sem og upplýst að hún hafi sjálf greitt fyrir alla þá þjónustu og veitingar sem hún neytti, þá krafðist Ríkisstjórnarútvarp Jóhönnu og Steingríms hana um kvittanir.

                                                              ***

Ekki einungis sagði sóttvarnalæknir að ráðherrann hefði ekki gerst brotlegur við reglur heldur viðurkenndi hann að þær væru óskýrar. Málið sýndi að skerpa þyrfti á þeim. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefði þarna átt að setja punktinn við fréttaflutning af þessu máli en það var nú aldeilis ekki.

Reynt er að finna nýja vinkla á þessu einfalda máli í þeim tilgangi að þjóna pólitískum lífsskoðunum þeirra sem eru mótfallnir núverandi ríkisstjórn. Sumir íslenskir fjölmiðlar eru á stundum brandari. Afar lélegur brandari. Þeir virðast hreinlega þrá að gera úlfalda úr mýflugu undir því heilaga yfirskini að verið sé að leita sannleikans.

                                                              ***

Fyrr í sumar kom upp stórt mál sem varðaði hagsmuni almennings. Ríkissjóður á Landsvirkjun og einn af viðskiptavinum orkufyrirtækisins, Rio Tinto Alcan, taldi að ríkisorkufyrirtækið hefði brotið samkeppnislög. Óskandi hefði verið að fyrrgreindir miðlar hefðu sýnt þessu máli jafnmikla athygli og vinkonuhittingnum.

Ráðherra stóðst prófið

Óðni fannst viðbrögð Þórdísar Kolbrúnar til fyrirmyndar í kjölfar þessarar skyndiárásar (d. Blitzkrieg) af hálfu erlenda námu- og álfyrirtækisins.

Ráðherrann benti á í aðsendri grein í Morgunblaðinu sem birtist 26. júlí að ekki kæmi til greina að setja sameiginlegar auðlindir á útsölu. Einnig sagði hún:

Ástæða er til að ætla að umhverfisvænar orkulindir Íslands verði áfram eftirsóttar. Við viljum bjóða upp á samkeppnishæft umhverfi en við gerum að sjálfsögðu líka kröfu um að sala á orkuafurðum úr sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar sé arðbær.

Það er gríðarlega mikilvægt að ráðamenn standi í lappirnar í málum sem þessum. Allir gera sér grein fyrir mikilvægi álvera fyrir íslenskan efnahag og Þórdísi er mikilvægið fullkomlega ljóst.

                                                              ***

Verðlaun fyrir risafjárfestingu

Risafjárfesting þess í Straumsvík fyrir nokkrum árum, sem nam um 50-60 milljörðum króna til breytinga á steypuskála og kerskálum, kom á góðum tíma fyrir Ísland í kjölfar bankahrunsins og hafði töluverða þýðingu fyrir efnahagslíf okkar.

Ákvörðun Rio Tinto um fjárfestinguna sýnir þá trú sem fyrirtækið hafði á starfsskilyrðum á Íslandi. Á sama tíma gerði Rio Tinto nýjan langtíma-orkusamning við Landsvirkjun sem gildir frá árinu 2010 til ársins 2036.

Viðskiptablaðið veitti Rannveigu Rist og álverinu í Straumsvík Viðskiptaverðlaun ársins 2010 vegna þessarar fjárfestingar sem sýndi ekki bara trú fyrirtækisins á starfsskilyrði fyrirtækisins á Íslandi, heldur einnig á framtíð Íslands. Það hefur breyst og hefur það líklega meira með þróun álverðs að gera en starfsskilyrði á Íslandi, þó vissulega hafi þau versnað vegna mikilla almennra launahækkana.

                                                              ***

Á þessum tíma höfðu sárafáir trú á framtíð Íslands. Skiljanlega. Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms átti eftir að halda aftur af efnahagsbatanum næstu árin eða fram til 2013, meðal annars með því að standa ekki með eigin þjóð í Icesave-málinu auk fjölmargra tilrauna til að umbylta íslensku efnahagslífi sem hefði aðeins leitt til hörmunga fyrir almenning.

                                                              ***

Samkeppnisstofnunin

Það er ljóst að álverinu í Straumsvík er ekki lengur stjórnað á Íslandi heldur frá Melbourne eða Lundúnum. Hvernig merkir Óðinn það? Jú, það er ljóst að þeir í útlandinu þekkja ekki vinnubrögð Samkeppniseftirlitsins því annars hefðu þeir aldrei farið þá leið að kæra Landsvirkjun til eftirlitsins, sem réttast væri að kalla stofnun.

                                                              ***

En Óðinn veit að þeir ágætu herramenn sem stýra Rio Tinto á Íslandi hf. lesa pistla Óðins og ætlar því til upplýsinga að fjalla um nýlegt mál í störfum samkeppnisstofnunarinnar.

Gosverksmiðjan Klettur

Í lok ársins 2010 hóf Gosverksmiðjan Klettur starfsemi. Hálfu ári eftir að fyrirtækið hóf starfsemi gerði Samkeppniseftirlitið húsleit hjá Coca Cola á Íslandi (CCEP) og Ölgerðinni, helstu samkeppnisaðilum Kletts. Var húsleitin gerð í kjölfar kvörtunar frá Kletti. Gosverksmiðjan taldi sig eiga erfitt með að koma á framfæri vörum í verslunum vegna ákvæða um hillupláss og framstillingarhlutföll í viðskiptasamningum við keppninautana tvo.

                                                              ***

Það tók samkeppnisstofnunina aðeins níu ár að komast að niðurstöðu í þessu afar einfalda máli þar sem Coca Cola á Íslandi og Ölgerðin sýndu bæði mikinn samstarfsvilja og gengust við brotum sínum, eins og kemur fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Nú hljóta allir sanngjarnir menn að fagna. Réttlætið sigraði að lokum þó svo það hefði tekið langan tíma.

                                                              ***

En málið er aðeins snúnara. Rétt rúmu ári eftir að Klettur hóf starfsemi var gosverksmiðjan tekin til gjaldþrotaskipta. Töpuðust um 330 milljónir króna í gjaldþrotinu ef marka má tilkynningu í Lögbirtingablaðinu.

                                                              ***

Gagnslaus stofnun

Óðinn hefur ítrekað bent á að samkeppnisstofnunin á Íslandi sé gagnslaus þegar kemur að samkeppni í rekstri venjulegra fyrirtækja. Það er árviss viðburður að stofnunin ráðist inn í stórfyrirtæki með húsleitarheimild að vopni frá héraðsdómi. Að jafnaði eru þeir með ríkisfjölmiðilinn með í för. Þeir sem verða fyrir þessum húsleitum eru að jafnaði bankar, tryggingarfélög, olíufélög og önnur félög sem starfa á fákeppnismarkaði.

                                                              ***

Niðurstaða í máli Gosverksmiðjunnar Kletts er ekki til hagsbóta fyrir neinn. Klettur var löngu farinn á hausinn. Hvers eru hluthafar Kletts bættir sem voru beittir órétti samkvæmt samkeppnisstofnuninni? Einskis. Ekki verður séð að nýtt fyrirtæki hafi bæst í hóp þeirra tveggja risa sem voru og eru á gosdrykkjamarkaðnum. Hver mun greiða þessa 37 milljóna króna málamyndasekt frá samkeppnisstofnuninni? Auðvitað neytendur.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.