Klassísku samfélagsmiðlarnir eru farnir að súrna. Um nokkurt skeið höfum við talað af léttúð um hóp fólks í miklu metum hjá mjög fáum, svokallaða „virka í athugasemdum“. Í alvöruleysi okkar gagnvart þessum hóp hefur hann óáreitt fengið að taðreykja alla vitræna umræðu samfélagsmiðla.

Botninum var svo líklega náð 6. janúar þegar hópur fólks úr átthaga virkra í athugasemdum réðst inn í bandaríska þinghúsið með þeim afleiðingum að fjórir létust. „Posterboy“ þessarar þróunar, þeirra sviðakjammi, var í kjölfarið dæmdur í útlegð af nokkrum miðlanna.

Það er ekki nýtt að við séum ósammála og eigum í skoðanaskiptum. En einu sinni voru fjölmiðlar stoðirnar í að teikna upp sviðsmyndina fyrir okkur, einhvers konar sameiginlegan útgangspunkt sem við gátum síðan átt í skoðanaskiptum út frá.

Samfélagsmiðlavæðingin hefur hins vegar gert það að verkum að þessi sameiginlegi útgangspunktur er farinn. Við horfum ekki lengur á sama kortið og deilum um réttu leiðina. 5G nöttararnir horfa bara á sitt kort, við á okkar og líkurnar á að eiga vitræna umræðu um efnið eftir því.

Allir hafa fengið nóg af þessu kæsta og súra hlaðborði virkra í athugasemdum sem þorri samfélagsmiðla býður okkur upp á. Verst er þó að fólkið sem hefur eitthvað til málanna að leggja nennir ekki lengur að deila þekkingu sinni og reynslu á þessum opnu miðlum því einhver mun af ásetningi mistúlka það.

Svo að þótt við höfum áhyggjur af falsfréttunum er jafnvel stærra áhyggjuefni allur sannleikurinn sem fólk er hætt að nenna að segja. Þeim röddum þurfum við að finna farveg í umræðunni aftur.

Höfundur er sérfræðingur hjá Viðskiptaráði.