*

mánudagur, 27. september 2021
Óli Björn Kárason
7. desember 2019 13:43

Þriðja stoð eignamyndunar launafólks

Skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa hvetur einstaklinga til þátttöku í atvinnurekstri og tvinnar því saman hagsmuni þeirra og atvinnulífs.

Kauphöll Íslands.

Eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda í lýðfrjálsum ríkjum er að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga – ekki aðeins þeirra sem efnaðir eru heldur alls launafólks. Ég dreg ekki í efa að mörgum þyki draumur minn um að allir verði eignamenn óraunhæfur – útópísk hugmynd sem hægt sé að skemmta sér við á síðkvöldum. Við efasemdamennina segir ég: Við höfum í höndunum öflugt verkfæri – ekki gallalaust – til að láta drauma rætast. Með því að nýta krafta markaðshagkerfisins getum við lagt grunn að því að gera alla að eignafólki – að kapítalistum.

Eignamyndun millistéttarinnar og þeirra sem hafa lægri laun stendur á tveimur meginstoðum. Annars vegar á lífeyrisréttindum og hins vegar á verðmæti eigin húsnæðis. Þess vegna er mikilvægt að gera sem flestum kleift að eignast eigið húsnæði. Við hægri menn höfum kallað þetta séreignarstefnu og bent á að hún sé einn af hornsteinum borgaralegs samfélags. Séreignarstefnan er í sinni einföldu mynd frelsisstefna – leið að því markmiði að launafólk búi við fjárhagslegt sjálfstæði.

Þriðja stoðin

Auðvitað hafa ekki allir áhuga á því að stuðla að eignamyndun almennings. Í hugum þeirra er slíkt merki um smáborgarahátt. Ég næ aldrei að sannfæra þá um nauðsyn þess að skjóta þriðju stoðinni undir eignamyndun launafólks. Þeir munu reyna að leggja steina í götur allra þeirra breytinga sem gera almenningi kleift að taka með beinum hætti þátt í atvinnulífinu. Aðrir ættu að gerast samherjar okkar sjálfstæðismanna sem höfum lagt frumvarp um að innleiða sérstakan skattaafslátt vegna hlutabréfakaupa.

Í greinargerð með frumvarpi okkar er bent á hið augljósa: Hlutabréfamarkaðurinn er mikilvæg uppspretta fjármagns og gerir fyrirtækjum kleift að afla sér viðbótarfjármagns í formi nýs hlutafjár. Markaðurinn veitir skráðum félögum aðhald þar sem þau búa við mikla upplýsingaskyldu sem leiðir að öðru óbreyttu til aukins aga, vandaðra stjórnarhátta, gagnsæis, trúverðugleika og ekki síst skilvirkni í rekstri. Skilvirkur hlutabréfamarkaður er óaðskiljanlegur frá öflugu efnahagslífi og hagvexti þróaðra þjóða. Sterkur markaður þar sem fyrirtæki hafa greiðan aðgang að fjármagni sem nýta má til fjárfestingar og vaxtar er þjóð allri til hagsbóta.

Skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa, hvort heldur sem er í sjóðum eða stökum hlutabréfum, hvetur til aukins sparnaðar af hálfu heimila ásamt því að stuðla að meiri dýpt á markaði með fjölgun þátttakenda og því fjármagni sem þeim fylgir. Slík fjölgun getur liðkað fyrir viðskiptum með því að auka seljanleika og þannig dregið úr flökti á markaði ásamt því að auka möguleika fyrirtækja til fjármögnunar. Skattafslátturinn hvetur einstaklinga til þátttöku í atvinnurekstri og tvinnar því saman hagsmuni þeirra og atvinnulífs, sem leitt getur til meiri meðvitundar meðal almennings um stöðu hagkerfisins og þeirra afleiðinga sem breytingar í rekstrarumhverfi fyrirtækja, t.d. skattbreytingar eða almenn launaþróun, kunna að hafa í för með sér.

„Auðræði almennings“

Með því að virkja launafólk og gera því kleift að skjóta þriðju stoðinni undir eignamyndun sína með því að fjárfesta í atvinnulífinu, getur draumur Eykons – Eyjólfs Konráðs Jónssonar – fengið að rætast. Hann barðist fyrir því að til yrðu öflug almenningshlutafélög. Hann kallaði drauminn „auðræði almennings“. Í bókinni „Alþýða og athafnalíf“, sem kom út árið 1968, skrifaði Eykon meðal annars:

„Almenningshlutafélög eru ekki einungis mikilvæg af efnahagsástæðum, heldur eru þau e.t.v. þýðingarmesti þátturinn í því þjóðfélagskerfi, sem nefna mætti auðstjórn almennings eða fjárstjórn fjöldans. Er þar átt við mikilvægi þess, að sem mestur hluti þjóðarauðsins dreifist meðal sem allra flestra borgara landsins, að auðlegð þjóðfélagsins safnist hvorki saman á hendur fárra einstaklinga né heldur ríkis og opinberra aðila. Þeir, sem þessa stefnu aðhyllast, telja þá þjóðfélagsþróun æskilegasta, að valdið, sem fylgir yfirráðum yfir fjármagni, dreifist sem mest á meðal landsmanna allra.“ Það var sannfæring Eykons að heilbrigð, lýðræðisleg þróun yrði aðeins ef sem allra „flestir einstaklingar séu fjárhagslega sjálfstæðir; þeir eigi hlutdeild í þjóðarauðnum, en séu ekki einungis leiguliðar eða starfsmenn ríkisins“:

„Þá muni sjálfstæði manna, öryggi, þroski, ábyrgðartilfinning og lífshamingja aukast, og þá muni framleiðsla og auðæfaöflun þjóðfélagsins einnig verða mest.“ Frumvarp okkar sjálfstæðismanna um skattaafslátt vegna kaupa á hlutabréfum getur orðið áfangi í að styrkja fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga og auka drifkraft atvinnulífsins. Hvort til séu þingmenn sem vilja koma í veg fyrir það, á eftir að koma í ljós. En varla eru þeir margir.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.