Drífa Snædal dró ekki fjöður yfir ástæður afsagnar sinnar sem forseta Alþýðusambands Íslands þann 10. ágúst. Sagði hún að blokkamyndun og samskipti við ýmsa kjörna fulltrúa innan ASÍ gerðu henni ókleift að starfa áfram — átökin hefðu verið óbærileg.

Eftir að hafa hrakið Drífu á brott hyggst sósíalistaarmur verkalýðshreyfingarinnar, nýja þríeykið, nú taka sambandið yfir. Í síðust viku tilkynnti Ragnar Þór Ingólfsson að hann myndi bjóða sig fram til forseta ASÍ, Sólveig Anna Jónsdóttir hefur tilkynnt framboð til 1. varaforseta og Vilhjálmur Birgisson vill verða 3. varaforseti. Nái Ragnar Þór kjöri hyggst hann stíga til hliðar sem starfandi formaður VR en samt leiða kjaraviðræður félagsins þar til í mars, þegar kosið verður um nýja stjórn VR.

Nái Ragnar Þór kjöri hjá ASÍ munu mánaðarlaun hans lækka úr tæplega 1,8 milljón á mánuði í tæpar 1,2 milljónir. Það er samt ekki stóra málið, stóra spurningin er hver muni taka við VR í mars. Mun sósíalistaarmurinn missa tökin á stærsta stéttarfélagi landsins.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 22. september 2022