*

laugardagur, 29. janúar 2022
Óðinn
21. apríl 2020 07:14

Þríeykið og þingræðið, umræða og uppeldi

Ríkisstjórnin er búin að koma sér í erfiða stöðu með óformlegu valdaframsali til þríeykisins ókjörna og ábyrgðarlausa.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir og Alma Möllur landlæknir.

Margt er farið að minna á lífið fyrir 100 árum síðan og ekki aðeins vegna þess að gengið hefur á með plágum. Efnahagsástandið er um margt svipað og þá, að sögn hagfræðinga. Og fyrir hundrað árum voru ráðherrarnir þrír, Jón forsætisráðherra, Magnús fjármálaráðherra og Pétur atvinnumálaráðherra.

                                                                        ***

Búið er að ryðja ríkisstjórnina, afnema þingræðið og aftur orðnir þrír ráðherrar. Ráðherrarnir heita Alma, Þórólfur og Víðir. Þetta fékkst endanlega staðfest á þriðjudag þegar fyrrverandi forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra voru spurðir af mbl.is út í tillögur sóttvarnalæknis um afléttingu hafta á lífi fólks.

                                                                        ***

Á leið inn á ríkisstjórnarfund var heilbrigðisráðherrann fyrrverandi spurður hvort einhverjar breytingar yrðu gerðar á því sem sóttvarnalæknir hefur lagt til og Svandís svaraði: „Ég býst ekki við því." Forsætisráðherrann fyrrverandi sagði að hún hefði ekki sjálf séð minnisblað heilbrigðisráðherra um málið, en að hún þekkti efni tillagna sóttvarnalæknis og gerði ráð fyrir að þetta yrði „í sama dúr".

                                                                        ***

Óðinn setur þetta fram bæði í gamni og alvöru. Auðvitað eru ráðherrarnir enn ellefu. En ríkisstjórnin er búin að koma sér í erfiða stöðu með óformlegu valdaframsali til þremenninganna. Það þarf enginn að efast um að það að margir alþingismenn efast nú um að hraðinn á afléttingu aðgerðanna frá því í síðasta mánuði verði nægilega mikill.

                                                                        ***

Vandi embættismannsins

Óðinn telur reyndar að bæði sóttvarnalæknirinn og landlæknirinn hafi almennt staðið sig vel til þessa, þó auðvitað megi finna að einu og öðru eins og gengur. Þetta eru viðamikil og vandasöm verkefni, sum á jaðri eða handan sérþekkingar þeirra. Við bætist að þar fást menn við vanda sem um margt er enn óþekktur, en ekki síst átti það við fyrstu vikurnar þegar undirstöðuatriði eins og smitleiðir vöfðust fyrir mönnum (að ógleymdum ófyrirgefanlegum undanbrögðum og falsi kommúnistastjórnarinnar í Kína).

                                                                        ***

Vandi embættismanna er ekki minni fyrir það, að almenningsálitið er fljótt að snúast ef minnsti vafi leikur á því hvort ákvarðanir þeirra eru réttar. Því er yfirleitt öruggara að fara sér hægar en hraðar, eins og raunin er um embættismannakerfi hvar sem er í heiminum. Slík varfærni á oft við, ekki síst þegar mannslíf eru í húfi. En ekki alltaf. Of mikil varfærni, of mikill hægagangur, getur haft skelfilegar afleiðingar fyrir íslenska hagkerfið.

                                                                        ***

Það þýðir ekki að stilla því upp með þeim hætti, að þar vegist á mannslíf og hagsæld. Þetta tvennt tengist og enginn skyldi ímynda sér að djúp og langvinn efnahagsniðursveifla geti ekki kostað mannslíf. Það getur hæglega gerst með beinum hætti, bæði vegna líkamlegra og andlegra afleiðinga efnalegra þrenginga, en einnig óbeinna, því þegar sverfur að verður einnig erfiðara að fjármagna heilbrigðis- og félagskerfið, sem þá reynir þó meira á en endranær.

                                                                        ***

En eitt er það, sem hafa má sérstakar áhyggjur af þegar landstjórnin er að miklu leyti komin í hendur þríeykisins ókjörna (og ábyrgðarlausa). Það er að ákvarðanirnar fái ekki nægilega umræðu, tilsjón og aðhald. Því verður auðvitað ekki alltaf við komið á fordæmislausum tímum eða í miðju neyðarástandi. Stundum skiptir meiru máli að taka einhverja ákvörðun strax en að taka réttustu ákvörðunina með langri umþóttun.

                                                                        ***

Það þýðir þó ekki að menn eigi að leiða andstæð sjónarmið hjá sér, kveða aðfinnslur í kútinn eða gera lítið úr þeim, sem hafa uppi einhver mótmæli. Þvert á móti er ástæða til þess að fagna fjörlegri umræðu og frumlegum hugmyndum um viðbrögð og næstu skref. Ekki veitir af...  á þessum fordæmalausu tímum.

Þess vegna varð Óðinn hálfleiður þegar hann sá hvernig margir veittust að Frosta Sigurjónssyni á dögunum - alveg burtséð frá því hversu gildar skoðanir hans, rök og spádómar voru. Hann sýndi þó kærkomið hugrekki við að lýsa öðrum skoðunum en viðteknum sannindum dagsins, sem fleiri hefðu mátt gera, því ekki veitti af frjórri umræðu um þessi mál. Fyrir það eitt mætti gefa Frosta fálkaorðu, svona fyrir að vera fremsti fálki landsins.

                                                                        ***

Að meðaltali deyja sex einstaklingar á hverjum degi á Íslandi. Blessunarlega hefur læknavísindum fleygt svo fram að flestir þeir sem deyja eru aldraðir og saddir lífdaga.

                                                                        ***

Laxness sagði í upphafi Brekkukotsannáls: „Vitur maður hefur sagt að næst því að missa móður sína sé fátt hollara úngum börnum en að missa föður sinn." Þetta er í besta falli umdeilanleg staðhæfing. En það er hins vegar óumdeilt að líf foreldra verður aldrei samt eftir barnsmissi.

                                                                        ***

Alls hafa 8 látist vegna COVID-19 hér á landi. Allir utan eins voru nær sjötugu eða eldri. Þetta er til marks um að heilbrigðisstarfsmenn hafa staðið sig vel. En mikilvægast er að veiran sækir ekki á börn og yngra fólk. Hún hefur haft mikil og þungbær áhrif á Íslandi, hvað þá í löndum eins og Ítalíu og Spáni, en lesandinn getur rétt ímyndað sér hversu óbærilegur harmurinn og kvíðinn væri ef hún legðist sérstaklega á ungviðið.

                                                                        ***

Nauðsynlegt er fyrir stjórnvöld að taka með í reikninginn óbeinar afleiðingar þess að lama atvinnulífið og þann skaða sem af því hlýst. Það er auðvitað ekki auðvelt reikningsdæmi og þar geta kjörnir fulltrúar ekki varpað ákvörðuninni og ábyrgðinni á embættismennina eina.

                                                                        ***

Frekari aðgerðir

Ríkisstjórnin hefur boðað frekari aðgerðir. Óðinn hefur áhyggjur af því að þar verði meira um sértækar aðgerðir en almennar.

                                                                        ***

Heiðar Guðjónsson fjárfestir og forstjóri Sýnar, skrifaði aðsenda grein í nýjasta tölublað Frjálsrar verslunar. Þar bendir hann á hvers vegna við erum komin á þann stað, að ríkissjóður er farinn að bjarga fyrirtækjum í einkaeigu. Í dag er verið að öskra á aðgerðir vegna efnahagsáfalla. Hvort sem það er hér á landi eða annars staðar er leitað beint til ríkisins. Á Íslandi er það kannski óumflýjanlegt.

Ástæðan er sú að hið opinbera er orðið langstærsti gerandinn í hagkerfinu. Langstærsti launagreiðandinn og borgar hæstu launin. Ríkið á nær alla innviði. Sparnaður almennings er svo bundinn í lífeyrissjóðum en hvergi í heiminum fer jafn hátt hlutfall sparnaðar í lífeyriskerfið. Einkasparnaður verður því mjög lítill á meðan svo er. Þannig að það eru í raun ekki margir sem geta gripið til aðgerða fyrir utan ríkið.

                                                                        ***

Ísland hefur færst hratt í áttina að því að verða sósíalistaríki. Það hefur ekki aðeins gerst síðustu vikur. Ríkið borgar ekki aðeins hæstu launin, heldur leiddi ríkið launahækkanir eftir hrunið, sem mun, ef fer fram sem horfir, valda gríðarlegum skaða í íslensku efnahagslífi. Engin mótstaða var hjá Samtökum atvinnulífsins á þessum árum.

Annars vegar var framkvæmdastjóri þeirra samtaka afar máttlaus. Hins vegar var formaðurinn jafnframt forstjóri Icelandair og reglulega í gíslingu flugmanna, flugfreyja og flugvirkja. Hann losnaði úr prísundinni með því að hækka launin í hvert sinn um tugi prósenta og fékk það svo í andlitið við samningaborðið.

                                                                        ***

Svo má efast um það hvort Ísland sé lengur það virka réttarríki og við viljum. Þegar fjármálaráðherra (og formaður eina svokallaða hægriflokksins í landinu), heldur því fram að ef fyrirtæki sækja bætur til ríksins á grundvelli dóms Hæstaréttar, þar sem viðurkennt er að ráðherra hafi brotið lög, muni þau einfaldlega greiða sjálf bæturnar með sköttum, erum við komin á hálan ís. Þrígreining ríkisvaldsins óljós, en ríkisvaldið varar þegnana við því að leita réttar síns!

                                                                        ***

Í frétt um grein Heiðars var dreginn fram grundvallarmunur á hugmyndum austurrísku hagfræðinganna og Keynesistanna.

„Austurrískir hagfræðingar guldu því varhug við hvers konar sveiflujöfnun af hálfu ríkisins. Hagfræðingar skólans sögðu að ef seðlabankar færu að reyna að stýra hagkerfinu í gegnum stýrivexti og peningamagn í umferð þá myndi það brengla skilaboð markaða um verð og þar með leiða til þess að rangar ákvarðanir yrðu teknar um fjárfestingar. Þeir bjuggu til hugtakið „malinvestment" yfir það sem má kalla á íslensku fjárfestingarmistök. Við höfum mörg dæmi um fjárfestingamistök, bólur í kringum verðbréf tæknifyrirtækja, húsnæðisbólur, hrávörubólur og svo framvegis," segir Heiðar sem segir skólann hafa tapað pólítískt enda hugnist það stjórnmálamönnum betur að beita inngripum.

                                                                        ***

Heiðar minnir á að í pólitískum skilningi hafi austurríski skólinn tapað fyrir Keynesistum. Enda er miklu líklegra að það hugnist stjórnmálamönnum að beita inngripum, sýna mátt sinn og megin, en að sitja hjá og bíða þess að sveiflurnar gangi yfir.

                                                                        ***

Óðinn er í öllum aðalatriðum sammála Heiðari Guðjónssyni. En það verður erfitt að snúa blaðinu við. Þá má líkja þessu við uppeldið. Foreldrar sem láta allt eftir barninu geta ekki í einu vetfangi horfið frá hinni misheppnuðu uppeldisaðferð. Það tekur tíma og hugsanlega er stríðið tapað.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.