*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Týr
14. maí 2021 12:48

Þrír ríkisstarfsmenn gengu inn á bar…

Í ríkisreknu leikhúsi fáranleikans standa starfsmenn ríkisstofnana vaktina alla virka daga.

Í vikunni sátu þrír ríkisstarfsmenn saman í Kastljósi Ríkissjónvarpsins og ræddu um mikilvægi þess að hið opinbera setji lög til að takmarka aðgengi almennings að svokölluðum nikótínpúðum. Fjölmargir, þá sérstaklega þeir sem yngri eru, hafa hætt notkun á íslenska neftóbakinu, sem framleitt er af ríkinu, og nota þess í stað nikótínpúða sem valda mun minni skaða. Sú neyslubreyting kom til án afskipta ríkisins, sem er nú, tveimur árum eftir að púðarnir komu á markað, að bregðast við - með lagasetningu.

 ***

Í vikunni var jafnframt greint frá því að lögreglan hefði nú til rannsóknar hvort íslenskir aðilar hefðu gerst brotlegir við lög við meinta framleiðslu á klámi, með því að deila frjálslegu efni af sér á lokaðan áskriftarvef í útlöndum. Það eru ekki liðnir nema nokkrir dagar síðan kvartað var undan því á Alþingi að lögreglan hefði hvorki mannskap né fjárráð til að sinna skipulagðri glæpastarfsemi, en mögulega má finna svigrúm til þess á milli þess sem lögreglumenn hanga á erótískum netsíðum næstu vikurnar.

 ***

Eins og Týr hefur áður bent á, þá er löglegt að panta áfengi í erlendum vefverslunum og fá sent heim að dyrum. Aftur á móti er ólöglegt að reka íslenska vefverslun með sömu vörur. Það hefur nú verið leyst þar sem búið er að opna erlenda vefverslun með vörulager á Íslandi. Það er aðeins dagaspursmál hvenær embættismenn íslenska ríkisins reyna að stöðva þau viðskipti.

 ***

Yfir helmingur allra umsagna um frumvörp á Alþingi kom frá opinberum stofnunum. Í einföldu máli eru þær þrenns konar; frumvarpi er fagnað, lagt er til að nýjum ákvæðum sé bætt við eða varað við þeim afleiðingum sem aukið svigrúm kanna að valda þá sjaldan sem eitthvað slíkt kemur fram.

***

Í ríkisreknu leikhúsi fáránleikans standa starfsmenn Samkeppniseftirlitsins, Fjölmiðlanefndar, Neytendastofu, Póst- og fjarskiptastofnunar, Vinnumálastofnunar, Umhverfisstofnunar, Seðlabankans, Skattsins, Samgöngustofu, Mannvirkjastofnunar og fleiri ríkisstofnana vaktina - alla virka daga.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.