*

þriðjudagur, 28. september 2021
Steinar Þór Ólafsson
25. júní 2021 10:52

Þröngar gallabuxur

ÁTVR þarf ekki að standa vörð um lýðheilsu ungs fólks, það hefur upp á sitt eindæmi tekið það skrefinu lengra

epa

Ég er enginn tískufrömuður en taldi mig bera ágætt skynbragð á hvað er kúl og hvað lummó. Það kom því ansi flatt upp á mig að læra að Z-kynslóðin er búin að slaufa þröngu gallabuxunum. Ekkert er víst meira merki um að vera taktlaus og miðaldra eins og skinny jeans. Eitt var að komast að þessu í Wall Street Journal, sem hlýtur að vera síðasti bærinn í dalnum til að fá einhverjar tískuráðleggingar, en verra fannst mér að hingað til hef ég almennt borið skynbragð á tíðarandann, en ekki núna. 

Þetta taktleysi mitt minnir mig á fíaskóið tengt smásölu áfengis í vefverslunum. Einokunarverslun ríkisins er nefnilega þröngu gallabuxur matarmenningarinnar en fréttirnar virðast berast seint og illa til sumra. Ungt fólk deilir ekki um frjálsa sölu áfengis, það þykir bara sjálfsagt. Það er ekki bara í víðum buxum heldur einnig víðsýnna því á sama tíma og netverslanir hafa aukið aðgengi allra að áfengi hefur eftirspurn og framboð af óáfengum drykkjum stóraukist. Nú finnur þú t.d. ekki lengur bara Egils Pilsner í Krónunni heldur 40 tegundir af óáfengum bjór, búbblum og mock-tails. Fjörutíu, takk fyrir. 

Unga fólkið vill geta fengið sér í glas og tekið leigubíl heim en stundum líka fengið sér í glas, keyrt heim og farið út að hlaupa morguninn eftir. ÁTVR þarf ekki að standa vörð um lýðheilsu þess, það hefur upp á sitt eindæmi tekið það skrefinu lengra. Ég ber ómælda virðingu fyrir unga fólkinu, það er alveg með þetta. Þess vegna ætla ég ekkert að streitast á móti. Búinn að kaupa mér víðar móðins flauelsbuxur og legg til að ÁTVR hætti að streitast á móti og fylgi straumnum líka

Pistlahöfundur er samskiptasérfræðingur

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.