*

sunnudagur, 13. júní 2021
Örn Arnarson
26. október 2020 07:46

Þrotlaus þróunarvinna

Erfitt er að sjá hvernig svona fjármálafimleikar rími við áherslur borgarmeirihlutans um að gera bókhald borgarinnar opið og aðgengilegt.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heldur á ketti.
Haraldur Guðjónsson

Þann 16. október sagði fréttastofa Ríkisútvarpsins frá ungri konu sem starfaði í bakvarðarsveit heilbrigðisþjónustunnar í vor. Konan er menntaður sjúkraliði en leggur stund á nám í lögfræði í Háskólanum í Reykjavík. Fréttin snerist um það að laun hennar ásamt álagsgreiðslum fyrir störf í bakvarðarsveitinni urðu til þess að námslánin hennar skertust um helming. Fréttaflutningurinn var settur í samhengi við þá staðreynd að erfiðlega hefur gengið að manna bakvarðarsveitina nú í haust.

Í sjálfu sér hefði það ekki átt að koma bakverðinum unga í opna skjöldu að tekjur yfir frítekjumarkinu leiddu til skerðingar á námsláni. Fram kom í fréttinni að bakvörðurinn hefði fengið bréf frá Menntasjóði námsmanna þar sem fram kom að stofnunin hefur enga heimildir til þess að víkja frá þessum reglum. Á sunnudeginum birtist svo Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra í kvöldfréttum sömu fréttastofu. Ráðherrann tók undir það sjónarmið að skerðing námslána vegna starfa fyrir bakvarðarsveitina væri ótæk og lofaði að þessu yrði kippt í liðinn. Orðrétt sagði ráðherrann:

„Stjórn menntasjóðsins er að vinna að því, það verður tekið tillit til þessa og þeirra óska sem viðkomandi námsmenn eru að fara fram á, það er að segja að það verði tekið tillit til þessara tekna."

Við þetta er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi mætti benda menntamálaráðherra á að það verður ekki kosið til Alþingis á næstu vikum heldur haustið 2021. Í öðru lagi vekur þessi framganga upp áleitnar spurningar um jafnræði á milli námsmanna í háskólanámi. Vissulega á heilbrigðisstarfsfólk samúð okkar allra á þessum viðsjárverðu tímum. En það breytir ekki að sömu reglur verða að gilda fyrir alla þá sem sækjast eftir fyrirgreiðslu hjá Menntasjóði námsmanna. Hætt er við því að þetta inngrip ráðherra eigi eftir að draga dilk á eftir sér og það verði uppspretta frekari fréttaflutnings.

Ef reglubreytingin sem menntamálaráðherra bókstaflega lofaði í fréttatímanum á sunnudag nær fram að ganga má til að mynda spyrja hver staðan sé hjá þeim námsmönnum sem uppfylltu kröfur sem gerðar eru til starfsmanna bakvarðasveitarinnar en sóttu ekki um að ganga til liðs við sveitina þar sem þeir höfðu kynnt sér reglur Menntasjóðsins um skerðingu lána og frítekjumark. Erum við ekki komin út á hálan ís ef menntamálaráðherra er farinn að taka ákveðin störf út fyrir sviga þegar kemur að frítekjumarki og skerðingu námslána? Ekki er erfitt að koma auga á fjölmörg göfug störf sem háskólanemar geta sinnt til að drýgja tekjur sínar - störf á borð við umönnun langveikra eða stoðkennslu þeirra sem eiga erfitt uppdráttar í grunnskólum svo einhver dæmi séu tekin. Með hvaða rökum ætti að hafna óskum þeirra sem slíkum störfum sinna um að laun þeirra skerði ekki námslán? Í þriðja lagi verður að teljast ákaflega sérstakt að menntamálaráðherra kynni í sjónvarpsfréttum niðurstöðu í máli sem stofnun sem heyrir undir hans ráðuneyti án þess að stofnunin hafi tekið það til umfjöllunar.

                                                              ***

Bryndís Sigurðardóttir, sóttvarnalæknir á Landsspítalanum, kom með ferskan blæ inn í umræðuna um sóttvarnamál. Í kjölfar þess að almannavarnayfirvöld hvöttu borgarbúa til að halda sig heima um komandi helgi sem markast meðal annars af vetrarfríum í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Í viðtali sem birtist á vefsvæði RÚV á þriðjudag, en tilefni þess voru skrif Bryndísar á Facebook-síðu sinni, benti hún á þá staðreynd að minna álag væri nú á Landspítalanum en í venjulegu árferði og lítið álag væri á vegakerfinu sökum þess að ferðamönnum er gert nánast ómögulegt að heimsækja landið. Þá benti Bryndís á að lýðheilsusjónarmið sýndu að fólki væri hollt að breyta um umhverfi eftir því sem aðstæður leyfa - ekki síst á þessu erfiðu tímum.

Hægt er að taka undir hvert orð Bryndísar. En það vekur eigi síður furðu að það sé sóttvarnalæknir sem bendir á þessi augljósu sannindi á skrifum á Facebook-síðu en ekki blaðamenn sem spyrja sóttvarnaþríeykið út í þetta á reglubundnum blaðamannafundum Almannavarna. Fjölmiðlaumfjöllun um sóttvarnaaðgerðir hefur því miður verið því marki brennd að kallað er eftir áliti frekar fámenns hóps. Í raun og veru hefur umfjöllun fjölmiðla allt oft einkennst að því að þeir spyrja Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, hvort það hefði ekki verið rétt að grípa til enn harðari aðgerða í kjölfar tillagna sóttvarnalæknis. Það er löngu tímabært að fleiri raddir heyrist í þessari umræðu. Það er stundum fullt tilefni til að spyrja af hverju við eigum að hlýða Víði.

                                                              ***

RÚV minnti á sitt mikilvæga almannavarnahlutverk á þriðjudag. Útsending þáttarins Popplands var rofin í kjölfar þess að stór jarðskjálfti skók Reykjanesið og nærsveitir. Skilaboð fréttamannsins voru að jörð hefði skolfið - eins og hvert mannsbarn á Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu hefur væntanlega fundið fyrir - en að RÚV hefði ekki frekari upplýsingar um málið en væri aftur á móti að hringja í Veðurstofuna.

Skjálftavirknin varð hins vegar til þess að krafan um nýju símaskrána með nákvæmum leiðbeiningum um hvernig skuli bregðast við landskjálftum varð enn háværari á samfélagsmiðum.

                                                              ***

Fréttablaðið greindi frá því á föstudaginn að starfsmenn Reykjavíkurborgar hefðu látið borgarbúa greiða fyrir kaup á áfengi fyrir um 650 þúsund krónur á nokkrum mánuðum í félagsheimilinu Vinnustofa Kjarvals í miðbæ Reykjavíkur. Áður hafði komið fram að útsvarsgreiðendur Reykjavíkur hafi greitt 821.088 krónur fyrir veitingar nokkurra starfsmanna í yfirstjórn borgarinnar á tímabilinu 1. nóvember í fyrra til 31. ágúst síðastliðins. Auk þessa hefur borgin greitt 1,6 milljónir króna í aðildargjöld fyrir þessa starfsmenn að Vinnustofunni. Verður þetta að teljast undarleg forgangsröðun hjá borginni sem er eins og kunnugt er í miklum rekstrarvanda. Það er til marks um þann mikla vanda sem borgin stendur frammi fyrir að hún hefur óskað eftir 50 milljarða fjárhagsaðstoð frá ríkinu vegna ástandsins.

Þrátt fyrir umfjöllun fjölmiðla um málið er mörgum spurningum enn ósvarað. Fyrirtæki og einstaklingar semja um aðgang að vinnustofunni, og greiða ársgjald gegn því að geta nýtt hana til fundarhalda og afþreyingar. Eins og fram kom í umfjöllun Fréttablaðsins í sumar þá er borgin með ellefu aðgangskort, eitt fyrir hvert svið og hverja skrifstofu sem ákvað að taka þátt, en þau veita aðgang að vinnustofunni og veitingaaðstöðu alla daga vikunnar. Hvert aðgangskort kostar 120 þúsund krónur auk virðisaukaskatts og gildir til 1. nóvember 2020. Hvert og eitt kort gildir fyrir fimm manns hverju sinni en ekki er gerð athugasemd ef þeir eru fleiri þannig að umtalsverður fjöldi borgarstarfsmanna hefur aðgengi að Vinnustofunni. Fjölmiðlar hafa ekki leitað svara við þeirri spurningu hvaða starfsmenn borgarinnar hafi nýtt sér þennan aðgang og notið veitinga á kostnað útsvarsgreiðenda. Þannig væri mjög áhugavert að fá upplýsingar um hvort kjörnir fulltrúar hafi sótt staðinn á kostnað borgarbúa. Hvaða fundarhöld fóru þarna fram á vegum borgarinnar? Er skortur á fundar- og vinnuaðstöðu fyrir starfsmenn borgarinnar?

Á laugardag var svo viðtal við Dag B. Eggertsson borgarstjóra í Fréttablaðinu um málið. Gerði hann lítið úr málinu og sagði áfengiskaup starfsmanna borgarinnar á heilu ári vera til marks um „ábyrgð og hófsemi". Ekki er víst að allir séu sammála því. En blaðamaður benti Degi ekki á að um er að ræða mun styttra tímabil en heilt ár þar sem miklar takmarkanir hafa verið á afgreiðslutíma veitingastaða og annarri atvinnustarfsemi vegna samkomutakmarkana og annarra sóttvarnaaðgerða vegna kórónuveirufaraldursins.

                                                              ***

Eins og fram hefur komið í fréttum af þessu máli þá komust borgarfulltrúar minnihlutans á snoðir um þetta mál fyrir tilviljun. Kostnaðurinn við hvert aðgangskort var skráð á hvert svið þeirra embættismanna sem fengu kortin í hendurnar og þar af leiðandi komu kaupin ekki fyrir innkaupasvið borgarinnar. Erfitt er að sjá hvernig svona fjármálafimleikar rími við áherslur borgarmeirihlutans um að gera bókhald borgarinnar opið og aðgengilegt. Þannig segir í meirihlutasáttmála Viðreisnar, Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna fyrir kjörtímabilið 2018-2022:

„Ljúka þarf opnun bókhalds á kjörtímabilinu og stuðla að því að upplýsingar um öll útgjöld borgarinnar, dótturfyrirtækja hennar og byggðasamlaga séu eins gagnsæ og opin og kostur er og upplýsingar um ráðstöfun styrkja sem borgin veitir séu aðgengilegar. Uppfærsla upplýsinganna skal gerast eins nálægt rauntíma og hægt er."

                                                              ***

En það sem er kostulegast við þetta mál er að þær skýringar fengust úr ráðhúsinu að þessi aðgangur starfsmanna borgarinnar að Vinnustofu Kjarvals væri „þróunarverkefni". Eins og Andrés Magnússon, ritstjórnarfulltrúi Morgunblaðsins, benti á í pistli um helgina þá hljóta borgarbúar að bíða í ofvæni eftir að þróunarvinnunni ljúki og borgarstarfsmenn taki til við að drekka á fullum afköstum. Þá hlýtur Sundabrautin að falla að himnum ofan, hengibrú verður lögð til Bessastaða, vindmyllur rísa við Óðinstorg og gatnaframkvæmdum við Suðurgötuna lýkur loks.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.