Viðskipti og íþróttir fara gjarnan saman. Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja og stuðningur við afreksfólk fer gjarnan saman. Á liðnu ári var gerður tímamótasamningur hérlendis á vegum KPMG þegar fyrirtækið endurnýjaði samstarfssamning sinn við Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur, afreksíþróttakonu í golfi. Á þeim tíma var hún ólétt og henni því sýndur mikill stuðningur á mikilvægum tímapunkti. Miðað við sögulega mikilvægt samhengi, fór lítið fyrir þeirri frétt. Þegar litið er um öxl, er það þess virði að draga slíkt fram í dagsljósið í upphafi nýs árs.

Kostunarsamningum breytt

Árið 2019 skrifaði bandaríska hlaupakonan  Alysia Montano grein í The New York Times sem bar yfirskriftina „ Nike told me to dream crazy until í wanted a Baby ." Alysia hefur verið einn besti hlaupari heims síðustu ár. Áhrif þessara kjörkuðu skrifa urðu til þess að hún skipti um kostanda og Nike ásamt fleiri fyrirtækjum breyttu kostunarsamningi sínu við afrekskonur í 18 mánaða tímabili í kringum óléttu. Með öðrum orðum. Þeir hættu að líta á óléttu sem tímabundið veikindaástand og tóku heildræna sýn og mannlega nálgun. Gáfu rými í það að konur fengju að sinna barneignum meðfram framanum. Raunverulegur stuðningur í lífi og starfi. Þetta sama ár auglýsti Nike á mæðradaginn að þeir valdefldu konur og stæðu sig vel í jafnréttismálum. Fallegar myndir óléttu birtust af Alysiu Sumum.

Keppnir tryggðu greiðslurnar

Sumum þótti þetta of auglýsingaleg nálgun á máli sem hafði verið í ólestri og var farið að anda köldu á milli Alysiu og íþróttarisans og skipti hún um kostunaraðila eftir þessa rimmu og myndbirtingu. Hún sagðist hafa bugast algerlega á öllum samskiptunum og lýsti hún því hversu átakanlegt fæðingarárið hafði verið samhliða kostunarsamningnum vegna krafna um árangur. Hún taldi sig tilneydda til að upplýsa um sannleikann og sína hlið málsins þegar þrýstingurinn var orðinn óbærilegur og ómanneskjulegur.

Hún eignaðist fyrsta barn sitt árið 2014 og þurfti að halda því leyndu framan af til að missa ekki samninginn og standa við þær keppnir sem tryggðu áframhaldandi greiðslur. Þannig tók hún þátt í bandaríska meistaramótinu sama ár komin átta mánuði á leið. Henni var síðar skikkað til að æfa og gera sig klára í hálfmaraþon þremur vikum eftir fæðingu barns síns. Á þeim tíma var barn hennar ekki bara nýfætt, heldur hafði það veikst og háði lífsbaráttu á spítala. Það breytti því ekki að hún varð að yfirgefa spítalann og ná hlaupastundum í kroppinn. Síðar meir sagði hún þetta hafa ýtt verulega undir mjaðmameiðsl sem hafa hrjáð hana allar götur síðar, enda er konum ráðlagt að leyfa grindinni að ganga saman á ný eftir barnsburð áður en átök hefjast. Og hér má lesa á milli línanna um það andlega álag sem Alysia var að takast á við með tilheyrandi kvíða yfir að missa greiðslurnar og lífsviðurværið, samhliða einni mestu hamingjustund lífs síns við að eignast barn.

Fyrstu mánuðirnir í lífi hverrar óléttrar konu geta verið erfiðir yfir höfuð meðan óléttu er haldið leyndri og lystarleysi getur gert vart við sig vegna ógleði. Íslenska Crossfit stjarnan Annie Mist hefur verið heiðarleg og opnað sig með það, þrátt fyrir að vera komin aftur í fremstu röð kvenna í sinni íþrótt. Næringarinntakan getur farið úr skorðum, þyngdarpunkturinn breytist, þú vilt ekki lyfta jafn þungu í ákveðnum æfingum, andlegt álag eykst og fleira sem þjálfarar þurfa að taka með í myndina.

Stuðningur fyrirtækja skiptir sköpum

Þó að það séu fluttar frægðarsögur af stórstjörnum með háa kostun þá er staðreyndin oftast nær sú að afreksfólkið þarf á meiri fjárhagsstuðningi að halda en ríki, íþróttasambönd og sjóðir geta látið renna til einstaklings. Stuðningur fyrirtækja skiptir því hreinlega sköpum.

TEAM Visa er eitt áhugaverðasta kostunarverkefni sem ég hef kynnst þar sem fjárfest er í ungu fólki, sem enn hefur ekki sannað sig á stóra sviðinu en er efnilegt. Fjölbreyttur stuðningur er veittur, ekki bara líkamleg þjálfun og peningagreiðsla. Visa hefur stutt yfir 500 unga íþróttamenn og konur frá því að sú kostunarleið var sett á laggirnar árið 2000. Sem dæmi um umfang þá var þeim íþróttamönnum sem stefndu á vetrarólympíuleikana í Torino flogið til fundar við helstu skíðakempur þess tíma. Meðal annars Björn Dæhlie, Deborah Compagnoni, og Alberto Tomba.

Íþróttakrakkar þess tíma voru valdir með tilliti til árangurs en einnig karakters og persónulegrar vegferðar. Þannig rammaði fyrirtækið inn nálgun sína á gildum og forgangsröðun í markaðs-, kynningar- og kostunarmálum er eiga að ganga út á jafnrétti og samfélagsábyrgð.

Gildi og menning samstarfsaðila þarf að fara saman

Það jákvæða við alla umræðu er að hún dýpkar að lokum skilning um hvernig gildi og menning í samstarfi þarf að samræmast báðum aðilum. Þannig skapast virðingin fyrir góðu samstarfi. Þegar upp koma skandalar og krísur þarf að yfirfara þá þætti. Og sömuleiðis þegar vel gengur eða allt er á eðlilegu róli, að valdeflingin sé raunveruleg. Ekki bara markaðsherferð heldur stuðningur sem skiptir raunverulega máli í orði og framkvæmd.

Höfundur er forseti Golfsambands Íslands.