*

mánudagur, 18. janúar 2021
Guðmundur Þ. & Ágústa Á.
30. nóvember 2020 13:47

Þurfum við að hlaupa hraðar?

Stytting vinnuvikunnar má ekki verða til þess að auka álag í vinnunni heldur þarf hún að nýtast til að fyrirbyggja kulnun í starfi.

epa

Byggt á reynslu okkar af því að vinna með fyrirtækjum af ólíkum stærðum og gerðum þá er mikið vinnuálag á starfsfólki frekar regla en undantekning. Í kjölfarið á Covid faraldrinum hefur þetta frekar versnað þar sem óljósari skil verða á milli vinnu og einkalífs þar sem fólk vinnur heima og fyrirtæki eiga erfiðara með að dreifa vinnuálagi jafnt í fjarvinnu.

Á síðustu árum hefur orðið vitundarvakning þar sem mikið vinnuálag og áreiti er talin ein af megin ástæðum kulnunar í starfi. Mörg fyrirtæki hafa brugðist við með því að bjóða starfsfólki meðferðarúrræði en sjaldgæfara er að fyrirtæki ráðist í markvissar aðgerðir til að ráðast að rótum vandans. Á sama tíma er krafa í samfélaginu um styttingu vinnuvikunnar og verið er að stiga markvissa skrefið í þá átt.

En hvað gerist ef við styttum vinnuvikuna? Bíða þá ekki verkefnin bara næsta dags, hlaðast upp eða verða unnin utan hefðbundins vinnutíma?

Breytt vinnuskipulag og innleiðing lean vinnukerfis geta verið gagnlegar leiðir við styttingu vinnuvikunnar. Dreifing og forgangsröðun daglegra verkefna er miklu skilvirkari með lean verklagi og styður teymi og deildir við að halda betur utan um sína vinnu og deila upplýsingum. Einnig er gagnlegt að skoða fyrirtækið í heild sinni þar sem óskilvirk ferli milli deilda skapa oft óþarfa en um leið ósýnilega vinnu.

Mörg fyrirtæki og stofnanir hafa verið að útfæra styttingu vinnuvikunnar en samhliða því er mikilvægt að skoða verklag og dreifingu verkefna. Stytting vinnuvikunnar má ekki verða til þess að auka álag í vinnunni með því að fólk þurfi að hlaupa hraðar.

Ávinningurinn þarf að skila sér að fullu og styðja við frekari styttingu vinnuvikunnar og fyrirbyggja kulnun á komandi árum. Því hvetjum við vinnuveitendur til að nota tækifærið og taka skrefið í átt að bættu vinnuskipulag með það að markmiði að jafna og minnka vinnuálag til að stytting vinnuvikunnar skili tilætluðum árangri.

Guðmundur Ingi Þorsteinsson er eigandi Lean ráðgjafar og Ágústa Sigrún Ágústsdóttir ACC markþjálfi og mannauðsráðgjafi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.