*

sunnudagur, 20. júní 2021
Örn Arnarson
22. mars 2021 07:05

Þvottagrind í Bryggjuhverfinu ohf.

Í kvöldfréttatíma útvarpsins var sagt frá því að „þvottagrind í Bryggjuhverfi hafi ruggað vel og lengi" þegar stór skjálfti reið yfir.

Þvottagrind í Bryggjuhverfinu.

Ekki er ástæða til þess að rekja deilur stjórnar Íslandspósts og Birgis Jónssonar, fyrrverandi forstjóra félagsins, á þessum vettvangi. Þeim hafa verið gerð skil á síðum Morgunblaðsins að undanförnu en Viðskiptablaðið greindi fyrst frá málinu á forsíðu 22. desember. Hins vegar er full ástæða til að vekja athygli á merkilegu viðtali sem birtist við Birgi í Morgunblaðinu um fyrri helgi. Ræddi hann ásakanir um að hann hafi tekið ákvarðanir um breytingu á gjaldskrá félagsins án þess að bera það undir stjórn þess.

Birgir vísar þessu alfarið á bug og segir gögn málsins sýna að allar ákvarðanir um gjaldskrárbreytingar hafi ratað á borð stjórnar Íslandspósts. Í viðtalinu segir: Spurður hvort ohf-rekstrarformið hafi verið óheppilegt í þessu ljósi segir Birgir að þetta form geti reynst vel ef allir stjórnarmenn eru hæfir og ef ríkið er leiðandi í stjórnarháttum. Það eigi augljóslega ekki við í þessu tilviki. „Fundargerðirnar eru gerðar eftir dúk og disk og þær eru þunnar og skrifaðar með einhvers konar almannatengslasjónarmið í huga. Það var sagt að ef eitthvað færi í fundargerð myndi viðkomandi lesa um það í Fréttablaðinu. Þau vilja það náttúrulega alls ekki. Nú hefur verið fjallað um þá bókun [stjórnarmannsins] Thomasar Möller að hann hafi ekki stutt breytingarnar. Ég er hins vegar með mörg smáskilaboð frá honum þar sem hann hvetur mig til að halda dagbók af því að endurskipulagning Póstsins verði kennslubókardæmi í háskólunum. Nú þykist hann vera ósáttur við stefnuna til að þjóna pólitískum hagsmunum, enda lagði hvorki Thomas né nokkur annar stjórnarmaður fram sérbókun, eða lýsti óánægju sinni í fundargerð, þar til mánuði eftir að ég hætti. Þá er hægt að kenna mér um allt saman. Þetta dæmir sig sjálft."

Og enn fremur:

„Ég er fullkominn blóraböggull. Fundarritari skrifar ítarlega fundargerð. Hún fer svo til stjórnarformanns Póstsins sem býr hana þannig úr garði að hún geti farið í fundargerðabók og verið undirrituð af stjórn," segir Birgir sem telur fullvíst að Bjarni Jónsson hafi undirritað fundargerðina 7. desember í fyrra, en þar var Birgir sakaður um samráðsleysi.

„Samkvæmt hlutafélagalögum eiga stjórnarhættir stjórnar og fundargerðir að stýra öllu í fyrirtækjum. En ef aðrir hagsmunir stýra stjórnunum en hagsmunir fyrirtækisins veit ég ekki hvaða orð er hægt að nota yfir það - einhver myndi segja umboðssvik - en það eru alla vega aðrir hagsmunir en hagsmunir fyrirtækisins. Það er því ekki hægt að verjast því sem stjórnandi ef stjórnin leikur þann leik að geta síðan sagt að eitthvað hafi ekki verið í fundargerðum," segir Birgir. Ef fundargerðir Póstsins hefðu endurspeglað fundarefnið hefðu þær verið margfalt lengri en fundargerðirnar sem rata í fjölmiðla.

Þessi lýsing forstjórans fyrrverandi vekur upp margar áleitnar spurningar og vekur það furðu að fjölmiðlar hafi ekki gengið hart eftir svörum frá stjórnarmönnum Íslandspóst í kjölfarið svo ekki sé minnst á stjórnmálamennina sem hafa látið málefni félagsins sig varða.

* * *

Birgir nefnir þann umboðsvanda sem kann að skapast í stjórnum opinberra hlutafélaga. Mörg dæmi eru um að fjölmiðlar hafi fjallað um slíkan vanda en að sama skapi rekist á vegg leyndarhyggju sem er óásættanlegur þegar um er að ræða fyrirtæki sem er í opinberri eigu - gildir þá einu um hvort er að ræða um opinbert hlutafélag eða annað rekstrarform í eigu hins opinberra. Vangoldin lendingargjöld Wow við Isavia ohf. er ágætt dæmi um þetta. Það einkennir oft umfjöllun um mál opinberra hlutafélaga að fjölmiðlar láta oft vera að óska eftir svörum frá þeim sem skipa stjórnir slíkra félaga. Það eru jú þeir sem bera ábyrgð á stjórn félagsins og þiggja oftar en ekki fyrir það ríflegar greiðslur vegna skyldna sem á þeim hvílir.

* * *

Talandi um opinber hlutafélög. Eins og fram hefur komið í þessu blaði þá hafa fundargerðir annars opinbers hlutafélags - ríkismiðilsins - ekki verið aðgengilegar á vef RÚV frá því í haust. Að sögn Stefán Eiríkssonar er ástæðan sú að útvarpsráð hefur einungis hist á fjarfundum vegna farsóttarinnar og kostnaðurinn við rafrænar undirskriftir fundargerða er RÚV ofviða. Rétt er að benda útvarpsstjóra á að mörg íslensk fyrirtæki bjóða upp á skilvirkar leiðir til rafrænna undirskrifta skjala sem standast lög og reglur og sum þeirra veita aðgang að kerfum sínu án kostnaðar um tíma.

* * *

Meira af Ríkisútvarpinu: Fjölmiðlamönnum er ákveðinn vorkunn að reyna sífellt að finna nýja fréttafleti á tíðindum á borð við landskjálftana á Reykjanesi sem dynja frá degi til dags í bókstaflegri merkingu. Fréttastofa RÚV setti í þeim efnum ný viðmið á sunnudaginn fyrir rúmri viku. Í kvöldfréttatíma útvarpsins var sagt frá því að „þvottagrind í Bryggjuhverfi hafi ruggað vel og lengi" þegar stór skjálfti reið yfir upp úr hádegi sama dag og að „strákur sem var staddur á salerni í Staðarskála hafi þurft að styðja sig við vegg þegar skjálftinn reið yfir".

* * *

Forsíðufrétt Fréttablaðsins miðvikudaginn 11. mars gaf æsilegum fréttum Ríkisútvarpsins af ruggandi þvottagrindum ekkert eftir þegar kom að því hinu óvænta og ófyrirséða. Enda dugði ekkert minna en fimm dálka fyrirsögn til þess að undirstrika mikilvægi fréttarinnar sem fjallaði um að deilt væri í dómsal um lögmæti skjals í málaferlum sem hafa staðið yfir um árabil milli tveggja félaga sem eru á hvers manns vörum: Þúfubjargs og Lyfjablóms.

* * *

Þegar Samkeppniseftirlitið samþykkti samruna N1 og Festi sumarið 2018 setti stofnunin meðal annars það skilyrði að sameinað félag myndi annaðhvort selja kjörbúð sína á Hellu eða þá á Hvolsvelli. Samkeppniseftirlitið gerði þetta að skilyrði svo að tryggja mætti að samruninn drægi ekki úr virkri samkeppni í verslun á Hellu og Hvolsvelli. Illa hefur gengið að selja aðra verslunina til að uppfylla skilyrði Samkeppniseftirlitsins og var þeirri sögu gerð ágæt skil í Morgunblaðinu síðastliðinn mánudag.

En í fréttaskýringunni er samt ekki leitað svara við einni grundvallarspurningu: Hvernig má það vera að það „raski samkeppni í verslun" að sami aðili reki kjörbúð bæði á Hellu og á Hvolsvelli? Lítur Samkeppniseftirlitið á þessi tvö bæjarfélög sem aðskilda og sjálfstæða markaði og útilokað sé að íbúar þeirra versli í matinn annars staðar en í heimabyggð? Telur Samkeppniseftirlitið að ef einn lögaðili rekur verslun bæði á Hellu og á Hvolsvelli öðlist hann þá einokunarstöðu í sölu á dagvöru? Er útilokað að íbúar í Rangárþingi brjótist undan klafa einokunarinnar og skreppi til nærliggjandi bæjarfélaga og geri innkaup sín þar? Komast íbúar þessara byggðarfélaga ekki í netverslanir?

Svona skilmálar að hálfu Samkeppniseftirlitsins eru ekkert einsdæmi. Sumarið 2019 úrskurðaði eftirlitið að Samkaup, sem reka sem rekur fimmtíu verslanir um land allt, mættu ekki festa kaup á einni verslun Iceland í Keflavík. Ástæðan var að eftirlitið taldi að kaupin hefðu „raskað verulega samkeppni" á Suðurnesjum. Fjallað var um þennan úrskurð í fjölmiðlum án þess að nokkur leitaði eftir rökstuðningi hjá þessari valdamiklu stofnun fyrir úrskurðinum.

* * *

Morgunblaðið setti fyrir tveimur vikum þann fyrirvara að óheimilt væri að birta efni úr minningargreinum blaðsins í öðrum miðlum án samþykkis. Fjallað var um málið á síðum Fréttablaðsins og haft eftir Andrési Magnússyni, fulltrúa ritstjóra, að fyrirvarinn væri viðleitni til að stemma stigu við endurbirtingar og endursagnir á minningargreinum sem birtast í Morgunblaðinu en þær hafi verið nokkuð tíðar á sumum vefmiðlum. Andrés benti einnig á að minningargreinar eru eðli málsins sérstaklega viðkvæmt efni og höfundar þeirra oft í sárum að takast á við mikinn missi og nærgætni því nauðsynleg.

Vefsíðan Mannlíf var ekki nefnd í umfjölluninni og hvað þá í fyrirvara Morgunblaðsins. Ritstjóri vefsíðunnar, Reynir Traustason, tók þetta eigi að síður til sín og setti inn á síðuna stuttan pistil þar sem var farið ófögrum orðum um ritstjórn Morgunblaðsins og hluta eigenda blaðsins. Rétt er að taka fram að helsta lífið á vef Mannlífs eru endursagnir úr minningargreinum aðstandenda látinna ástvina sem birst hafa áður á síðum Morgunblaðsins.

* * *

Ríkisstjórnin kynnti fyrir tveimur vikum aðgerðir sem er ætlað að fjölga störfum um sjö þúsund. Athygli vakti að aðgerðirnar gera ekki ráð fyrir að þetta verði gert með fjölgun aðstoðarmanna ráðherra og fjölgun stöðugilda á samskiptasviði Reykjavíkurborgar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.