Að ætla að fara í samkeppni við Baader er eins og ef lítill bílaframleiðandi ætlaði að fara að berjast við Mercedes Benz. Slíkt þætti bjartsýni.“ Þetta sagði Ulrich Marth, stofnandi og aðaleigandi Baader Ísland hf. í viðtali við Ægi í september 1999. Og bætti við „Fiskvinnsla án Baader véla er óhugsandi.“ Svo mörg voru þau orð. En í dögun nýrrar aldar voru breytingar við sjónarrönd. Samkeppnin kom frá Íslandi.

Á dögunum var svo greint frá því að Baader í Þýskalandi hefði keypt meirihluta í hátæknifyrirtækinu Skaginn 3X. Bæði þessi fyrirtæki eru á meðal þeirra fremstu í heiminum í framleiðslu á tækjum fyrir vinnslu á sjávarafurðum. Kaup Baader verða að skoðast sem meiriháttar viðurkenning á því frábæra starfi sem Skaginn 3X hefur unnið á undanförnum árum.

Það er ekki síst að þakka íslensku hand- og hugverki og djörfum frumkvöðlum, að fyrirtæki eins og Skaginn 3X verður að veruleika. Fyrirtækið er þó ekki eina glæsilega tæknifyrirtækið á sínu sviði á Íslandi. Þau eru mörg fyrirtækin sem hafa þjónustað íslenskan sjávarútveg á undanförnum árum og það er sérstakt samband á milli framgangs þeirra og sjávarútvegs.

Samstarf og nálægð við sterkan sjávarútveg

Rætt var við upphafsmann, eiganda og framkvæmdastjóra Skagans 3X í Fréttablaðinu í fyrrasumar. Þar er farið yfir sögu fyrirtækisins og ævintýralegan vöxt. Eitt af því sem kemur fram er að reksturinn hafi byggst upp í gegnum náið samstarf við sterka útgerð.

Ómetanleg samvinna við sjávarútveg

Í nýjasta tölublaði Ægis er viðtal við Guðbjörgu Heiðu Guðmundsdóttur, sem er framkvæmdastjóri fiskiðnaðar hjá Marel. Hún fullyrðir, sem rétt er, að á Íslandi séu flottustu fiskvinnslur í heimi: „… og það er engin íslensk skreytni heldur staðreynd. Fyrir okkur í Marel hefur það reynst ómetanlegt að vinna með þessum flottu og framsæknu íslensku sjávarútvegsfyrirtækjum við að þróa lausnir morgundagsins.“ Og bætir við: „… þetta samstarf hefur í gegnum tíðina getið af sér hátæknilausnir sem hafa svo farið út um allan heim og umbylt matvælavinnslu á heimsvísu“.

Fullt aðgengi að sjávarútvegi

Eitt fyrirtæki má nefna til viðbótar, en það er Valka. Það var stofnað af Helga Hjálmarssyni verkfræðingi í bílskúr í Kópavogi fyrir 17 árum. Tekjurnar námu rúmlega þremur milljörðum í fyrra. Helgi sagði í samtali við Viðskiptamoggann í fyrra mánuði að starfsemi fyrirtækisins hefði ekki farið almennilega af stað fyrr en með samstarfi við sjávarútvegsfyrirtæki. Og að starfsemi Völku og annarra íslenskra fyrirtækja á sama sviði: „… eigi árangur sinn ekki síst að þakka metnaði og áhuga íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja“: Og það hafi verið: „… bæði sprotum og stærri fyrirtækjunum ómetanlegt – og í raun alveg einstakt – að vera gefið fullt aðgengi að vinnslurýmum til að athafna sig, þróa lausnir og gera prófanir á þeim“.

Auðlind vex af auðlind

Fyrir þá sem starfa í sjávarútvegi eru það ekki ný tíðindi að náið samstarf skuli vera á milli þeirra sem nota tæknina og þeirra sem framleiða hana. Það samstarf varð þó ekki til út í bláinn. Það sem ávallt hefur knúið íslensk sjávarútvegsfyrirtæki til að fjárfesta í nýjustu tækni er nauðsyn. Sú nauðsyn á rætur að rekja til samkeppni á alþjóðlegum markaði, þar sem 98% af íslensku sjávarfangi eru seld. Þetta samhengi auðlindanýtingar og framgangs margra glæsilegra íslenskra tæknifyrirtækja sem selja tæknilausnir fyrir matvælaframleiðslu um allan heim er mörgum hulið. En að sama skapi er það afskaplega gefandi og hefur borið ríkulegan ávöxt. Hér vex því auðlind af auðlind. Það má svo geta þess að þótt Mercedes Bens séu prýðisbílar, þá er Tesla Model 3 mest seldi bíllinn á Íslandi í ár samkvæmt vef Samgöngustofu. Tímarnir breytast jú og mennirnir með.

Höfundur er framkvæmdastjóri SFS.