*

þriðjudagur, 15. október 2019
Huginn og muninn
5. júlí 2019 15:02

Tía á línuna

Valið á eftirmanni Más Guðmundssonar er farið að taka á sig farsakennda mynd og hefur vakið kátínu Hrafnanna.

Haraldur Guðjónsson

Valið á eftirmanni Más Guðmundssonar í stól seðlabankastjóra er farið að taka á sig farsakennda mynd og hefur vakið kátínu Hrafnanna. Sjö af þeim átta sem ekki voru metnir „mjög vel hæfir“ til að gegna stöðunni hafa kvartað yfir málsmeðferð nefndarinnar sem metur hæfni umsækjenda. Umkvörtunarefnið virðist ekki úr lausu lofti gripið og ábendingar um að jafnræðis hafi ekki verið gætt og rannsóknarskylda verið vanrækt góðra gjalda verðar.

Hins vegar á hæfisnefndin, sem Sigríður Benediktsdóttir leiðir, samúð Hrafnanna hvað önnur atriði varðar. Þannig er til dæmis í umsóknarskilyrðunum kveðið á um hæfni í mannlegum samskiptum án þess að útlistað sé hvernig meta beri hæfni í mannlegum samskiptum. Nefndin leysti þetta atriði með því að meta mannlega samskiptahæfni allra umsækjanda upp á 10 af 10 mögulegum. „Í viðtölum komu allir umsækjendur vel fyrir og er á grundvelli þeirra ekki forsenda til að gera upp á milli þeirra með hliðsjón af þessum efnisþætti,“ skrifar nefndin og fær prik frá Hröfnunum fyrir nettan útúrsnúning í erfiðri stöðu.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.