*

föstudagur, 21. febrúar 2020
Leiðari
31. maí 2018 09:19

Til hvers var kosið í Reykjavík?

Samfylkingin missti mikið fylgi og meirihlutinn féll. Dagur bað kjósendur að taka afstöðu til sín og var hafnað.

Haraldur Guðjónsson

Kosningabaráttan í Reykjavík var stutt og snörp, þó raunar hafi hún að mestu leyti verið málefnaleg og með prúðmannlegasta móti. Flokkarnir hófu raunar flestir kosningabaráttuna snemma og settu sín mál fram með ýtarlegum hætti, en kjósendur bitu ekki á agnið. Sennilega hafa þeir ekki viljað verja meiri tíma í enn einar kosningarnar en bráðnauðsynlegt var, en skoðanakannanir benda til þess að þeir hafi flestir í raun ekki tekið afstöðu fyrr en á lokasprettinum, en þá gerðu þeir það líka með nokkuð afdráttarlausum hætti. Þrátt fyrir allar áherslur flokkanna virðist óhætt að fullyrða að í raun hafi aðeins tveir þættir ráðið mestu hjá flestum: Húsnæðismálin og borgarstjóraefnin sjálf.

Það var í sjálfu sér ekki skrýtið, húsnæðiskreppuna verða allir varir við með einum eða öðrum hætti, en eins og sjá má af flóknum samstarfsviðræðum nú er það eitt helsta mál borgarstjórnarkosninga hver verður borgarstjóri. Þessu gerðu framboðin sér misvel grein fyrir, en er nær dró kosningum tók Samfylkingin af skarið um forystumálin og gerði persónu borgarstjórans að aðalatriði kosningabaráttu sinnar. Svo mjög að aðrir frambjóðendur flokksins voru nánast hafðir í felum og málefnin voru meira til skrauts. Það getur verið áhrifamikil kosningabarátta, en hún er líka áhættusöm, því með því móti stillti borgarstjórinn kjósendum upp við vegg, gerði þeim að taka afstöðu til sín og lagði höfuð sitt að veði.

Úrslitin voru afgerandi. Samfylkingin missti mikið fylgi og meirihlutinn féll. Dagur bað kjósendur að taka afstöðu til sín og var hafnað. Ekki bætti úr skák að samverkamennirnir í Vinstrigrænum guldu afhroð og Píratar juku fylgi sitt aðeins lítillega.

Ástæðurnar eru auðvitað margvíslegar, en varla leikur vafi á að efasemdir um forystu Dags, efndir á kosningaloforðum hans og verkstjórn skiptu miklu máli. Ekki síst þó í ljósi húsnæðiskreppunnar, sem voru flestum kjósendum efst í huga, en svar Dags var eitthvað á þessa leið: „kreppa, hvaða kreppa?“

Í ljósi alls þessa var því furðulegt að fylgjast með viðbrögðum borgarstjórans morguninn eftir kosningarnar, þar sem hann hélt því fram fullum fetum að vilji borgarbúa sneri til óbreytts ástands, þeir hefðu fallist á framtíðarsýn sína og því riði á að halda áfram núverandi meirihlutasamstarfi hins fallna meirihluta með því að skipta um varadekk. Halda svo bara áfram ótrauð eins og ekkert hefði í skorist. Ekki virðist annað en að samstarfsflokkarnir auk Viðreisnar (sem borgarstjóri talar opinskátt um sem Bjartrar framtíðarígildi) telji það vel færa leið.

En til hvers var þá kosið í Reykjavík ef úrslitin hafa engin áhrif? Ef meirihlutinn stendur þó hann hafi fallið og borgarstjórinn situr áfram praktuglega þó honum hafi verið hafnað? Það er ekki klókt fyrir einstaka flokka, sem kjósendur hafa nýverið sýnt gula spjaldið, og slík klækjastjórnmál eru ekki holl fyrir stjórnmálalífið, sem er enn að miklu leyti á skilorði. Nei, það er vanvirðing við hin framboðin, það er vanvirða við kjósendur og það er vanvirða við lýðræðið sjálft.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.