*

mánudagur, 3. ágúst 2020
Katrín Júlíusdóttir
2. mars 2017 12:22

Til móts við stafrænar kynslóðir

„Ólíklegt er að þessi kynslóð muni sætta sig við stöðuna eins og hún er í dag og mun gera allt aðrar kröfur en við sem upplifðum geisladiskana sem tæknibyltingu,“ skrifar Katrín Júlíusdóttir.

vb.is

Úr grasi vex nú kynslóð sem nýtir sér upplýsingatæknina til flestra hluta og kýs helst að eiga í rafrænum viðskiptum. Þessi kynslóð er vön að skipta við alþjóðleg fyrirtæki á borð við Amazon, Apple og Spotify á netinu og „splitta reikningum“ og greiða smáskuldir við vini með smáforritum fjármálafyrirtækja. Þessi kynslóð er nú að fá fjárráð og mun innan skamms standa frammi fyrir stóru viðburðunum í lífshlaupinu. Ólíklegt verður að telja að hún verði undir það búin að fara í fjölmargar ferðir í fjármálafyrirtæki með stresstösku undir hendi þegar kemur að íbúðar- og bílakaupum eða því sem snýr að hinu opinbera. Það eru því ekki bara verslanir og afþreyingarfyrirtæki sem þurfa að vera tilbúnar fyrir fólk sem er með tæknina þrædda inn í allan sinn hugmyndaheim, alls óhrætt við að nýta sér hana, heldur allir sem veita einhverja þjónustu

Ólíklegt er að þessi kynslóð muni sætta sig við stöðuna eins og hún er í dag og mun gera allt aðrar kröfur en við sem upplifðum geisladiskana sem tæknibyltingu. Þessi kynslóð mun ekki bara gera ríkari kröfur til rafræns aðgengis þegar kemur að því að sinna einkaerindum því hún mun taka við stjórn fyrirtækja og stofnana. Í því ljósi er vert að leiða hugann að því hvaða árangri íslenskt samfélag hefur náð þegar kemur að rafrænum viðskiptum stjórnsýslu og öðrum þáttum.

Pappírslaus viðskipti

Miðað við væntingarnar, sem voru uppi fyrir tæpum þremur áratugum, er árangurinn ekki viðunandi. Við byrjun síðasta áratugar liðinnar aldar bjuggumst menn við að innan fárra yrðu öll viðskipti pappírslaus. Þetta hefur augljóslega ekki gengið eftir.

Árangurinn hefur vissulega verið mikill þegar kemur að hagnýtingu upplýsingatækni til þess að styrkja rekstrarinnviði og efla þjónustu við viðskiptavini. Þar hafa fjármálafyrirtæki allar götur verið í fararbroddi og notið öflugra innviða eins og greiðslumiðlunarinnar, og net- og fjarskiptakerfisins.

Samt sem áður er enn langt í land við hagnýtingu upplýsingatækni til þess að auka rafræn viðskipti og minnka skrifræði og flækjustig í samskiptum einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. Í þeim efnum eru tækifærin fjölmörg, en það þarf samstillt átak einkageirans, löggjafans og opinberra stofnana til þess að nýta þau.

Rafræn skilríki

Ákveðin þáttaskil urðu sumarið 2014. Þá skrifuðu Samtök fjármálafyrirtækja og þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra undir viljayfirlýsingu um stóraukna notkun rafrænna skilríkja. Í dag eru um 100 þúsund Íslendingar með slík skilríki og tæplega 200 fyrirtæki, ríkisstofnanir og félagasamtök taka við þeim. Af þessu er mikið hagræði, enda bjóða rafræn skilríki upp á örugga og nútímalega leið til komast að læstum notendasvæðum á borð við heimabanka, þjónustusvæði skatta- og tollayfirvalda eða vátryggingafélaga.

Mestu straumhvörfin við rafrænu skilríkin felast þó í að þau gefa færi á rafrænni undirskrift. Undirritun með rafrænum skilríkjum jafngildir því að pappírsgögn séu undirrituð eigin hendi og gerir það óþarft að fara á milli kontóra til þess að undirrita skjöl vegna viðskipta eða stjórnsýslu.

Rafrænar undirskriftir

Fá en mikilvæg skref hafa verið stigin til þess að fullnýta kosti rafrænna skilríkja. Rafrænu undirskriftirnar voru þannig forsenda áforma um að gera t.d. þinglýsingar rafrænar. Það er komið vel á veg, en hefði vafalaust mátt vinnast hraðar. Ekki síst í ljósi þess mikla ávinnings og hagræðis sem sú breyting mun hafa í för með sér, en stjórnvöld telja að sparnaður vegna rafrænna þinglýsinga geti numið tæpum 300 milljónum króna á ári hverju.

Rafrænar undirskriftir geta skilað miklu hagræði á sviði fjármálaþjónustu í þágu heimila og fyrirtækja. Það sama á við um fleiri svið samfélagsins. Í einhverjum tilfellum mun fullnýting möguleika þeirra kalla á breytingar á laga- og regluverki. Því er mikilvægt að stjórnvöld leggist á árar með einkageiranum að því marki að auka hagræði og skilvirkni. Það er öllum til hagsbóta og skiptir sköpum við að búa til umhverfi stjórnsýslu og viðskipta sem komandi kynslóðir munu sætta sig við.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.