*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Leiðari
4. desember 2020 12:19

Til þess eru vítin að varast þau

Full ástæða er til að hafa áhyggjur af þeirri opinberri stefnu borgaryfirvalda að steypa sér í skuldir.

Fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur.
Haraldur Guðjónsson

Borgaryfirvöld gera ráð fyrir 11,3 milljarða króna halla á borgarsjóði (A-hluti) á næsta ári. Þá gera þau ráð fyrir 2,7 milljarða króna halla af rekstri samstæðunnar, A- og B-hluta. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021 og fimm ára áætlun 2021-2025, sem voru til umræðu í borgarstjórn í vikunni.

Til þess að setja þessar tölur í eitthvert samhengi þá var fyrir nákvæmlega ári síðan lögð fram fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020- 2024. Samkvæmt henni var gert ráð fyrir því að rekstrarniðurstaða borgarsjóðs á árinu 2021 yrði jákvæð um 1,9 milljarða króna og að tæplega 14 milljarða króna afgangur yrði af rekstri samstæðunnar.

Meirihluti Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna í borgarstjórn sendi í fyrradag frá sér tilkynningu með yfirskriftinni „Sóknaráætlun í Reykjavík í skugga heimsfaraldurs“. Í tilkynningunni segir að Reykjavíkurborg ætli að snúa vörn í sókn með „Græna planinu“ sem er viðbragðsáætlun borgarinnar gegn kórónuveirufaraldrinum. Kostnaður áætlunarinnar nemur 175 milljörðum króna.

Það er vissulega hægt að hafa skilning á erfiðri stöðu sveitarfélaga í kjölfar heimsfaraldursins. Þegar öllu er á botninn hvolft þá verður samt ekki horft framhjá þeirri staðreynd að Reykjavíkurborg hefur verið illa rekin og það þrátt fyrir að bæði útsvar og fasteignaskattar hafi verið í botni í um áratug. Reyndar hyggst borgin lækka fasteignaskatta núna og er það vel. Á uppgangstímum síðustu ára hefur borgaryfirvöldum því miður ekki hugkvæmst að leggja fyrir til mögru áranna, svona eins og uppgangurinn myndi vara til eilífðarnóns.

Til þess að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins var lögum breytt þannig að allt til ársins 2025 mega sveitarfélög víkja frá 150% skuldaviðmiðunarreglu og það ætlar meirihlutinn í borginni einmitt að gera. Ráðgert er að skuldaviðmiðið fari á næstu árum hátt í 170%. Viðskiptablaðið hefur áhyggjur af því að beinlínis sé stefnt að aukinni skuldsetningu. Rekstur borgarinnar og framkvæmdir, eins og áætlanir um endurgerðir bragga og ýmsar aðrar framkvæmdir, gefa ekki góð fyrirheit um að þessi áætlun standist. Full ástæða til að hafa áhyggjur af þessari opinberu stefnu meirihlutans að steypa sér í skuldir. Til þess eru vítin að varast þau.

Ýmislegt er gott í tillögum meirihlutans og má þá sérstaklega nefna áhersluna á byggingu nýrra skóla og fjölgun íbúða. Það er enda meginhlutverk sveitarfélaga að þjóna íbúum sínum og með því að fjölga þeim aukast tekjurnar einnig. Síðan er annað sem Viðskiptablaðið setur stórt spurningarmerki við og er þá nauðsynlegt að taka Borgarlínuna og fjársvelti umferðarmannvirkja út fyrir sviga. Þó að grænar áherslur í rekstri séu nauðsynlegar þá hefur Borgarlínudæmið því miður ekki verið reiknað til enda.

Ragnar Árnason, prófessor emeritus, skrifaði fyrir um mánuði síðan tvær mjög merkar greinar um Borgarlínuna, sem birtar voru í Morgunblaðinu. Þar gagnrýndi hann forsendur og útreikninga sem lögð voru til grundvallar nýlegrar skýrslu um þjóðhagslegt gildi Borgarlínu. „Borgarlínan kostar stórfé. Hún gagnast tiltölulega fáum, 4% sé miðað við núverandi ferðir með strætisvögnum en e.t.v. 12% ef miðað er við mestu bjartsýnisforsendur talsmanna borgarlínunnar. Hún veldur hins vegar frekari umferðartöfum fyrir hin 88-96% vegfarenda. Augljóst er að meta þarf ábata hinna fáu mjög hátt til að vega upp á móti tapi hinna mörgu og greiða þar að auki fjárfestingar- og rekstrarkostnað borgarlínunnar,“ skrifar Ragnar og bætir því við að afar langsótt sé að slíkt sé raunsætt. „Því eru yfirgnæfandi líkur á að núvirði borgarlínu sé neikvætt.“

Ragnar bendir á að umferðartafir hafi farið mjög vaxandi á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár. Ástæðan sé að fjölgun íbúa hafi verið langt umfram fjárfestingu í vegakerfinu. Í stað þess að fjárfesta í vegakerfinu hafi vegakerfið skipulega verið gert ógreiðfært með ærnum tilkostnaði. Segir hann að miðað við opinber gögn um umferð á höfuðborgarsvæðinu sé þjóðhagslegur kostnaður vegna þessa yfir 30 milljarðar króna á ári. Við það bætist aukin loftmengun er bifreiðar mjakast í lágum gír í gegnum umferðarteppu. Óskandi væri að borgaryfirvöld myndu bregðast við skrifum Ragnars.

Sjálfstæðisflokkurinn brást við fjárhagsáætlun meirihlutans og sóknaráætlun hans með eigin tillögum. Leggur flokkurinn m.a. til að arðgreiðslur OR verði nýttar til þess að lækka skatta á íbúa. Það er góð hugmynd sem nýtist borgarbúum vel á þessum erfiðu tímum. Önnur áhugaverð tillaga er að Gagnaveita Reykjavíkur verði seld. Gagnaveitan starfar á samkeppnismarkaði, þar sem fyrir eru fullburða fjarskiptafyrirtæki í einkaeigu. Borgin á ekki að standa í slíkum rekstri. Viðskiptablaðið telur reyndar að nákvæmlega núna sé rétti tíminn til selja Gagnaveituna, ekki síst vegna þess að tækninni fleygir fram.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.