Ég er ekki mjög íhaldssöm manneskja. Allt er breytingum háð og það er mikilvægt að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og breyttum heimi. Hafandi sagt þetta og skrifað, þá er ég líklega nokkuð íhaldssöm þegar kemur að grundvallarréttindum. Ég er ötull talsmaður stjórnarskrárinnar – þeirrar gömlu, sem blessunarlega er enn í gildi. Þessi skrá um mikilvæg réttindi okkar verður að standast dægurþras og þjark.

Að þessu sögðu hef ég áhyggjur að friðhelgi einkalífs, sem stjórnarskráin tryggir. Ég hef síður áhyggjur af ríkisvaldinu í þeim efnum, enn sem komið er. Áhyggjurnar lúta fremur að skeytingarleysi okkar borgaranna fyrir eigin réttindum.

Í friðhelgi einkalífs felst réttur hvers manns til að ráða lífi sínu og líkama og njóta friðar um lífshætti sína, einkahagi, auðkenni og samskipti við aðra. Líklega hafa samskiptaforrit ýmis konar og ný miðlun gert það að verkum að fólk hleypir náunganum í ríkari mæli inn í friðhelgi sína. Opnar sig um örlög, ást og jafnvel svokallaða fjölást. Myndir eru opinberaðar og mætt er í persónuleg podköst. Þar tjáir fólk sig opinskátt um persónuleg málefni, heilsuhagi, kynhegðun og lyfjanotkun, svo dæmi séu nefnd.

Allt kann þetta að þykja einstaklega nútímalegt, opið og frjálst. Allt kann þetta að þykja í lagi þegar einstaklingur ákveður sjálfur að aflétta friðhelgi af einkalífi sínu. En verður friðhelginni þá einhvern tíma aftur komið á? Eru fjölmiðlum þá einhver takmörk sett í umfjöllun um þá sem sjálfir hafa aflétt friðhelgi með tjáningu um einkahagi? Verður allt lagafarganið um persónuvernd kannski óþarft? Og getur ríkisvaldið þá í tímans rás farið að líta svo á að rétturinn til friðar um einkalíf hafi verið yfirgefinn í fortíð?

Miðaldra húsmóðir í Kópavogi, sem þetta ritar, gerir kannski nýmóðins myllumerki eða hugguleg TikTok skilaboð í baráttu gegn þessu skeytingarleysi.

Pistillinn birtist fyrst í Viðskiptablaðinu, sem kom út 3. nóvember.