*

þriðjudagur, 28. september 2021
Týr
6. september 2020 11:02

Tilgangslausar siðareglur?

Rúv, sem hefur yfirburðastöðu í þjóðfélagsumræðu landsins, þarf nú með hraði að skipa í siðanefnd sem staðið hefur auð í ár.

Aðsend mynd

Komið hefur í ljós að vart stóð steinn yfir steini um meinta undirverðlagningu Samherja sem fjallað var um í Kastljósi í mars árið 2012.

                                                          ***

Samherji hefur nú kært hluta starfsmanna RÚV til siðanefndar stofnunarinnar fyrir þátttöku þeirra í umræðum um málefni Samherja á samfélagsmiðlum. Siðareglurnar eru skýrar:

„Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ. á m. á samfélagsmiðlum."

                                                          ***

Nú er það svo að engin siðanefnd hefur verið skipuð í rúmt ár enda eru siðareglurnar, að sögn útvarpsstjóra, til endurskoðunar. Týr veit ekki hversu mikils virði siðareglurnar eru í hugum starfsmanna RÚV en hann efast þó ekki um að nokkrir vel valdir einstaklingar verði skipaðir með hraði og vísi kvörtun Samherja frá.

                                                          ***

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur sagt að Samherji eigi engan möguleika á því að fá hlutlausa umfjöllun hjá Ríkisútvarpinu. Áhyggjur hans eru að mörgu leyti skiljanlegar þar sem hópur starfsmanna RÚV hefur lýst yfir vanþóknun sinni og fyrirlitningu á honum og fyrirtækinu á samfélagsmiðlum.

                                                          ***

RÚV hefur yfirburðastöðu þegar kemur að þjóðfélagsumræðu í landinu. Það er því full ástæða til að velta fyrir sér þátttöku starfsmanna RÚV á samfélagsmiðlum. Þetta er ekki áhrifalaust fólk út í bæ, heldur fólk sem í boði skattgreiðenda flytur þjóðinni fréttir, stjórnar helstu umræðuþáttum landsins og ræður því hverjir aðrir fá að taka þátt í þjóðfélagsumræðunni. Það skýtur því skökku við að þeir sömu starfsmenn gagnrýni fólk eða fyrirtæki sem fjallað er um í fréttum á samfélagsmiðlum.

                                                          ***

Þegar kemur að þjóðfélagsumræðu má með einföldum hætti líkja sumum starfsmönnum RÚV við krakkana í skólanum sem hafa vald til að ákveða hverjir fá að taka þátt og hverjir ekki. Þegar farið er yfir gesti í helstu umræðuþáttum RÚV kemur bersýnilega í ljós hverjir eru starfsmönnum fjölmiðlarisans þóknanlegir og hverjir ekki.

Þeir sem hafa áhuga á því að taka þátt í umræðu á ríkismiðlunum þurfa því að gæta sín á því að lenda ekki upp á kant við starfsmenn hans á samfélagsmiðlum. Þar eru þeir eins og krakkarnir á skólalóðinni, tilbúnir að tuska hvern þann til sem ekki eru í réttu liði.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.