Týr er hlynntur alþjóðastarfi en ekki bruðli á skattfé. Á vef Alþingis má finna greinargóðar upplýsingar um ferðalög þingmanna á erlendri grundu. Þannig má sjá að þingmenn fóru á fimmta tug ferða til útlanda í fyrra í ýmsum erindagjörðum.
Vafalaust var erindið brýnt í sumum tilfellum en þegar lesnar eru frásagnir um ferðalögin á vef Alþingis kemur í ljós að sumar þessara ferða eru fullkomlega tilgangslausar og einungis til þess að fallnar að sóa skattfé almennings og færa þingmönnum ókeypis ferðapunkta.

Þannig má lesa um „fræðsluferð“ Allsherjar- og menntamálanefndar til Noregs og Danmerkur dagana 27.-30. september í fyrra. Í ferðina fóru þau Bryndís Haraldsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Birgir Þórarinsson, Helga Vala Helgadóttir, Jódís Skúladóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigmar Guðmundsson ásamt nefndarritara og lögfræðingi nefndarinnar.
***
Og hver var tilgangur ferðarinnar? Jú, hann var að nefndarmenn fengju kynningu á „rekstrar- og starfsumhverfi fjölmiðla í Noregi og Danmörku og innsýn í helstu álitaefni sem tengdust málefnum þeirra“. Með öðrum orðum var ríkið að borga utanlandsferð og uppihald tíu þingmanna ásamt tveimur starfsmönnum Alþingis svo að þeir gætu fræðst um starfsumhverfi fjölmiðla í Danmörku og Noregi! Fræðsluefni sem er öllum aðgengilegt á Netinu og séu menn sérlega fróðleiksfúsir er hægt að senda tölvupóst eða hringja í einhverja sem þekkja til fjölmiðla á Norðurlöndum. Týr telur nærtækast að benda á Boga Ágústsson í þessum efnum.

Það er nánast óborganlegt að lesa um þessar fræðslunefndir þingnefnda. Þannig fór sami fjöldi fyrir hönd umhverfis- og samgöngunefndar til Bretlands í janúar á þessu ári með það brýna erindi að kynna sér nýtingu vindorku og almenningssamgöngur!
***
Týr telur tímabært að alvarleg umræða fari fram um tilgang og kostnað við slíkar ferðir. Fyrirtæki í einkaeigu eru ekki að senda starfsmenn sína í tilgangslausar ferðir mörgum sinnum á ári. Það er að segja ekkert fyrirtæki sem er í ábyrgri eigu. Það sama á að gilda um Alþingi og aðrar stofnanir ríkisins.

Týr er einn af reglulegum pistlum Viðskiptablaðsins, en þessi birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 5 apríl.