*

fimmtudagur, 28. maí 2020
Heiðrún Lind Marteinsdót
3. apríl 2020 06:55

Tillitssemi

Fátt er það sem þjappar fólki eins mikið saman og sameiginlegur óvinur. Sigrar geta gert slíkt hið sama.

Haraldur Guðjónsson

Fátt er það sem þjappar fólki eins mikið saman og sameiginlegur óvinur. Sigrar geta gert slíkt hið sama. Ég minnist þess að þegar EM í fótbolta fór fram árið 2016 stóð þjóðin sameinuð á bak við liðið. Nú er það heilbrigðiskerfið okkar og andstæðingurinn er veira. Þetta er slagur. Allir eru að leggja sig fram, þótt á köflum geti það verið strembið; að hliðra lífi sínu úr daglegri þrautæfðri rútínu í það að mega varla fara úr húsi.

Ég ætla ekki að minnast á handaband og faðmlag, það er hreinlega eins og það hafi bara aldrei viðgengist, sé gleymt eins og hver annar ósiður. Og alltaf tveir metrar á milli, hið minnsta.

Ég hef að undanförnu verið að skottast um í Fossvoginum, enda búin að gefa það út opinberlega að ég ætla að hlaupa 100 kílómetra á fjórum vikum og skrá það allt skilmerkilega á vefsíðunni bjortuhlidarnar.is. Til að forðast fordæmingu vina hyggst ég standa við þetta.

Merkilegt má það heita, að svigrúmið á hlaupastígnum virðist hafa aukist og það á sama tíma og fólki fjölgar sem fer út að ganga eða hlaupa. Það sést á því hvernig fólk horfir og hagar sér á stígnum að það eru skringilegir tímar.

Ekki má skjótast framhjá fólki sem á sér einskis ills von, þótt maður telji sig vera þarna í göfugum tilgangi. Þá er lykilatriði að horfa vel fram fyrir sig og gera ráðstafanir ef einhver nálgast, færa sig tímanlega út í kant og gefa þannig í skyn með öruggum og ábyrgum hætti að maður sé meðvitaður um ástandið. Og umfram allt, að maður sé tilbúinn til að haga breytni sinni í samræmi við það. Taka tillit til annarra. Kannski að okkur takist að viðhalda því til frambúðar. 

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.