Á undanförnum árum hafa flest þeirra félaga sem skráð eru á skipulagðan verðbréfamarkað hér á landi komið á fót tilnefningarnefnd. Markmið stofnunar tilnefningarnefnda er að koma á skýru og gagnsæju ferli við tilnefningar stjórnarmanna sem gerir hluthöfum auðveldara að taka upplýsta ákvörðun við stjórnarkjör.

Tilnefningarnefnd hefur það hlutverk að meta hæfni einstaklinga sem sækjast eftir því að komast í stjórn félagsins. Nefndin hefur það að markmiði að velja hæfustu einstaklingana út frá hæfni hvers og eins einstaklings, reynslu, þekkingar sem og bestu samsetningu stjórnarinnar í heild. Skyldur tilnefningarnefndar skulu vera tilgreindar í starfsreglum nefndarinnar.

Í grein þessari verður fjallað um hvort rétt væri að félög í eigu ríkisins komi á fót tilnefningarnefnd, en það málefni hefur fengið litla sem enga athygli. Þegar um er að ræða hlutafélög í eigu hins opinbera er mikilvægt að forsendur séu fyrir upplýstri ákvarðanatöku auk þess að ferlið sé gagnsætt.

Skipan í stjórnir félaga í eigu ríkisins

Ríkið á ráðandi eignarhlut í tugum fyrirtækja á Íslandi, en þar er að mestu leyti að ræða hlutafélög, opinber hlutafélög og sameignarfélög. Sem dæmi um opinber hlutafélög má nefna Íslandspóst, RÚV og Isavia. Fjármála- og efnahagsráðherra fer með eignarhlut í félögunum fyrir hönd ríkisins og skipar í stjórn félaganna að RÚV undanskildu, en mennta- og menningarmálaráðherra skipar í stjórn RÚV.

Skipun stjórnarmanna í RÚV fer fram með þeim hætti að níu einstaklingar ásamt jafn mörgum til vara eru kosnir með hlutbundinni kosningu á Alþingi. Þeir einstaklingar sem kosnir eru af Alþingi eru svo skipaðir í stjórn af mennta- og menningarmálaráðherra á aðalfundi félagsins.

Stjórnarkjör alfarið pólitískt?

Stjórnarkjör Isavia hefur farið fram með þeim hætti að þeir stjórnmálaflokkar sem eru í ríkisstjórn velja meirihluta stjórnarmanna. Flokkar í stjórnarandstöðunni tilnefna svo minnihluta stjórnar. Stjórnarkjörið er því alfarið í höndum formanna stjórnmálaflokkanna og stjórn Isavia er þar með pólitísk kjörin.

Framkvæmd sem þessi verður að teljast séríslensk og þekkist varla í nágrannalöndum okkar. Í Svíþjóð er t.a.m. sérstök nefnd sem skilgreinir þau hæfnisskilyrði sem gera skal til þeirra sem sitja í stjórnum ríkisfyrirtækja, þ.e. félaga þar sem ríkið fer með ráðandi eignarhlut.

Ekki er auglýst opinberlega eftir framboðum til setu í stjórn félaga í eigu ríkisins

Ekki hefur tíðkast að auglýst sé opinberlega eftir framboðum einstaklinga um sæti í stjórnir fyrir hönd íslenska ríkisins ólíkt starfi innan stofnanna ríkisins eða skipan dómara. Er það almennt í höndum ráðuneytisins og ráðherra að velja einstaklinga sem svo eru skipaðir í stjórn þessara félaga. Annað gildir þó um  stjórnir fjármálafyrirtækja en stjórn Bankasýslu ríkisins skipar sérstaka valnefnd sem tilnefnir einstaklinga fyrir hönd ríkisins.

Það sem einkennir þessa kosningu er því ekki endilega hæfi einstaklinga á viðkomandi sviði heldur geta önnur atriði skipt máli eins og tengsl við viðkomandi stjórnmálaflokka hverju sinni. Með þessu fyrirkomulagi geta stjórnir félaga í eigu ríkisins orðið of einsleitar varðandi þekkingu og reynslu stjórnarmanna.

Ríkisendurskoðandi hefur til að mynda gert athugasemd við þessa framkvæmd og talið að tryggja þurfi með betri hætti að a.m.k. hluti stjórnarmanna í RÚV hafi sérþekkingu á fjármálum.

Gætu tilnefningarnefndir í félögum í eigu ríkisins bætt framkvæmdina?

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur gefið út að hlutverk stjórnar í félögum í eigu ríkisins sé að gæta hagsmuna félags í hvívetna. Samkvæmt eigandastefnu ríkisins skal velja einstaklinga í stjórn félags með fjölbreytta, víðtæka og góða þekkingu og reynslu af rekstri sem hæfir starfssviði félagsins. Velta má upp hvernig sé unnt að stuðla að því að einstaklingar með fjölbreytta, víðtæka og góða þekkingu, o.fl. taki sæti í stjórn félaga í eigu ríkisins?

Framboð til stjórnarsetu og hæfisnefnd í formi tilnefningarnefndar

Vissulega geta starfsmenn ráðuneyta lagt mat á slíka hæfni en höfundar telja þó að framboð til stjórnarsetu og hæfisnefnd í formi tilnefningarnefndar myndi vinna betur að því markmiði að tryggja óhæði stjórnarmanna og koma í veg fyrir pólitískar ráðningar. Ættu aðilar sem eru til þess hæfir að eiga rétt á að sækjast eftir því að komast í slíka stjórn? Eða ætti frumkvæðið að stjórnarsetu alfarið að vera hjá ráðuneytunum?

Að þessu sögðu, telja höfundar að sjónarmiðin að baki tilnefningarnefndum séu ekki svo ólík þeim sjónarmiðum sem eru við lýði varðandi skipan dómara og opinberra starfsmanna. Við skipan dómara er hæfisnefnd sem metur umsækjendur og ráðherra skipar í samræmi við hæfismatið. Hið sama á við um skipan annarra opinberra starfsmanna, s.s. forstjóra og framkvæmdastjóra opinberra félaga og ríkisstofnana, þar sem umsækjendur geta sótt um auglýstar stöður. Í framhaldinu eru umsækjendur metnir og ráðherra skipar í stöðuna.

Tilnefningarnefndir ættu að koma í veg fyrir pólitískar ráðningar og stuðla að því að hæfasti einstaklingurinn njóti brautargengis til stjórnarkjörs. Tilnefningarnefnd stuðlar jafnframt að gagnsæju og skýru fyrirkomulagi við tilnefningu stjórnarmanna. Mikilvægt er að auglýsa opinberlega eftir hæfum stjórnarmönnum, þar sem einstaklingum gefst kostur á að bjóða sig fram til stjórnarsetu. Það væri svo undir tilnefningarnefndinni komið að meta hæfi þeirra.

Er það ekki vilji allra landsmanna að stjórnir félaga í eigu ríkisins séu skipaðar hæfustu einstaklingunum óháð því hvaða stjórnarmálaflokkar eru við völd hverju sinni?

Diljá Helgadóttir er lögfræðingur og Bjarki Már Magnússon er laganemi.