*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Týr
13. nóvember 2021 16:01

Tímabundnar heillaóskir Týs

Það eiga nær örugglega eftir að koma tilefni á komandi kjörtímabili þar sem Týr telur sig þurfa að leiðrétta kúrs nýrrar ríkisstjórnar.

Eyþór Árnason

Týr hefur fylgst nokkuð náið með viðræðum sem standa á milli Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna um nýja ríkisstjórn, sem nú er á lokametrunum. Formenn flokkanna hafa, eðlilega, haldið spilunum nokkuð nálægt sér - en þó ekki meira en svo að Týr veit að viðræðurnar hafa á köflum verið erfiðar og flóknar. Það tók langan tíma að fara yfir flókin deilumál sem þegar lágu fyrir og önnur sem hafa komið upp í viðræðunum.

Eins og Týr hefur þegar rifjað upp hafa viðræðurnar þó haldið áfram undir þeim forsendum að Katrín Jakobsdóttir veit sem er að vinstri stjórn er ekki raunhæf. Það er vissulega hægt ef eingöngu er horft til þingmannafjölda en í raunheimum er ekki hægt að vinna með hverjum sem er.

* * *

Það má eflaust hafa margar skoðanir á ríkisstjórnarsamstarfi flokkanna. Samstarfið fer afskaplega í taugarnar á þeim sem öllu jafna myndu flokkast í hópi góða fólksins, svokölluð grasrót í VG grætur gamlar kenningar um sósíalisma (en grætur þó í hljóði á meðan Eflingarskandallinn gengur yfir) og hægri menn pirra sig háum sköttum og á hruni heilbrigðiskerfisins á vakt Sjálfstæðisflokksins. Týr sér ekki fyrir sér að þetta muni breytast á komandi kjörtímabili.

* * *

Týr, og vinur hans Óðinn, hafa stundum hér á síðum Viðskiptablaðsins gagnrýnt ríkisstjórnina á liðnu kjörtímabili. Að sjálfsögðu hafa þeir báðir verið málefnalegir í gagnrýni sinni og eftir því sem Týr kemst næst getur enginn stjórnmálamaður kvartað undan óréttmætri gagnrýni þeirra félaga.

Það eiga eflaust - og nær örugglega - eftir að koma tilefni á komandi kjörtímabili þar sem Týr telur sig þurfa að leiðrétta kúrsinn. Hann ætlar þó í bili að óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar. Týr veit að síðari hluti viðræðnanna hefur snúist um raunhæf framtíðarmarkmið, uppbyggingu atvinnulífs og nýsköpunar, breytingar á vinnumarkaði, kerfisbreytingum í velferðarmálum og uppbyggingu innviða í víðu samhengi.

Viðreisn og Samfylkingin geta þá bara ein átt þessa stjórnarskrá, innköllun aflaheimilda og einhver önnur mál sem hafa ekkert gildi.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.