*

fimmtudagur, 24. september 2020
Pétur Blöndal
28. júní 2020 13:29

Tímamót í álframleiðslu

Ef óvirk skaut verða innleidd í íslenskum álverum, þá verður losun hér á landi hverfandi af álframleiðslu.

Haraldur Guðjónsson

Það markaði tímamót í álframleiðslu á Íslandi þegar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tók á móti fyrstu álstönginni sem framleidd er með óvirkum rafskautum í Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Notuð eru rafskaut úr málmblöndum og keramiki í stað kolefnisskauta og yrði það bylting ef tækist að innleiða slíka tækni á stærri skala, því að þá losnar súrefni en ekki koltvísýringur við álframleiðsluna. Að verkefninu standa Arctus Metals, sem Jón Hjaltalín Magnússon er í forsvari fyrir, og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, en það hefur notið rannsóknarstyrks frá Tækniþróunarsjóði frá 2016.

Hugsað í lausnum

Í ávarpi sínu af þessu tilefni minnti Guðni á mikilvægi nýsköpunar, ekki síst nauðsyn þess að leita umhverfisvænni leiða í framleiðslu og vöruþróun. Þar liggja tækifærin. Ál yrði áfram mikilvægur efniviður í daglegt líf fólks, en með því að hugsa í lausnum við framleiðslu þess mætti draga úr umhverfisáhrifum. Þá nefndi Guðni í gamansömum tón að þótt brautryðjandinn Jón Hjaltalín Magnússon hjá Arctus Metals væri kominn af léttasta skeiði, þá væri hann í fararbroddi framsýnna frumkvöðla; í heimi nýsköpunar ætti kynslóðabil ekki heima.

Víst er það að Jón Hjaltalín hefur lyft grettistaki í áliðnaði og komið að nýsköpun og innleiðingu nýrrar tækni í álverum um allan heim. Vakti hann athygli á því í sínu erindi að ef óvirk skaut væru tekin í notkun í álverinu í Straumsvík, þá myndi það framleiða súrefni til jafns við 500 ferkílómetra skóg.

Þá ítrekaði hann það sem áður hefur komið fram að álframleiðsla losar hvergi minna en á Íslandi. Munar þar mestu um að álver á Íslandi eru knúin með sjálfbærum og endurnýjanlegum orkugjöfum, en á heimsvísu er það orka úr jarðefnaeldsneyti á borð við kol og gas sem losar mest við álframleiðslu. Þess vegna er kolefnisfótspor álframleiðslu margfalt hærra í löndum á borð við Kína, þar sem 90% af orkunni er sótt til kolaorkuvera.

Það er raunar áhugaverð staðreynd að ef óvirk skaut verða innleidd í íslenskum álverum, þá verður losun hér á landi hverfandi af álframleiðslu. En slík tæknibylting dregur einungis úr losun um 15% í álverum sem knúin eru með kolum.

Þekking og sérhæfing hér á landi

Enn eru ljón í veginum í frekari tækniþróun, einkum við að skala upp framleiðsluna. Nú þegar hefur verið lagður grunnur að samstarfi Arctus og NMÍ við álfyrirtækið Trimet um að keyra tilraunaker í fullri stærð í einu af álverum þess í Þýskalandi. Fáist íslenskt fjármagn að verkefninu verður hönnun og framleiðsla á kerjum og stjórnbúnaði unnin á Íslandi.

Er það til marks um þá þekkingu og sérhæfingu sem skapast hefur í klasanum í kringum íslenska álframleiðslu í áratugi, en skemmst er að minnast þess að tvær íslenskar verkfræðistofur, Verkís og Mannvit, komu að uppsetningu nýrrar kerlínu í Karmøy í Noregi, sem er sögð sú umhverfis- og orkuvænsta í heiminum.

Það er svo ánægjulegt að tvö álfyrirtæki á Íslandi, Rio Tinto og Alcoa, hleyptu af stokkunum verkefninu Elysis í samstarfi við Apple og kanadísk stjórnvöld árið 2018, þar sem stefnt er að því að setja á markað nýja tækni til að framleiða ál með óvirkum skautum árið 2024. Veitti Apple viðtöku fyrsta álinu sem framleitt er með þeim hætti í desember síðastliðnum. Það væri verðugt verkefni fyrir íslensk stjórnvöld að stimpla sig inn í það samstarf með einhverjum hætti til að efla enn frekar sérhæfingu á þessu sviði hér á landi.

Gas í grjót

Þá fjallaði BBC nýverið um samstarf íslenskra stjórnvalda og stóriðju á Íslandi um þróun nýrrar tækni til að dæla niður kolefni sem myndast við málmframleiðslu. Ætli besta lýsingin á því ferli sé ekki „gas í grjót“. Undirstrikað er í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum að til standi að gera það verkefni að veruleika.

Engum blöðum er um það að fletta að tækifærin eru fyrir hendi til að breyta ógnunum í tækifæri í loftslagsmálum og þar hefur Ísland hlutverki að gegna. Til þess að vera í forystu á þessu sviði þarf innviði og fjármagn. Jón Hjaltalín sagði nauðsynlegt að fyrirtæki með brautryðjandi viðskiptahugmyndir hefðu aðgang að sérfræðingum rannsóknarstofnunar á borð við Nýsköpunarmiðstöð og tækjabúnaði á borð við rafeindasmásjá, frumgerðasmíði og tilraunastofu. Annars væri hætta á að hátækninýsköpun leitaði úr landi.

Forsendan er auðvitað gróskumikið atvinnulíf. Öflugir grunnatvinnuvegir eru næringarríkasta gróðurmoldin fyrir nýsköpun. En til þess að þeir haldi áfram að fjárfesta og taka virkan þátt í fjórðu iðnbyltingunni, þá þarf rekstrarumhverfið að vera sjálfbært og samkeppnishæft. Þar er verk að vinna. 

Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls, Samtaka álframleiðenda.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.