Í ár eru 50 ár liðin frá undirritun Evrópska einkaleyfasamningsins (e. EPC) sem er grunnur þess kerfis sem við þekkjum í dag fyrir veitingu evrópskra einkaleyfa (e. European Patent).

Evrópsk einkaleyfi eru veitt af Evrópsku einkaleyfastofunni (e. European Patent Office EPO) og hefur Ísland verið aðili að því kerfi frá árinu 2006. EPO veitir í einu lagi einkaleyfi fyrir öll aðildarríkin 39 en til þess að einkaleyfi öðlist endanlega gildi þarf að staðfesta einkaleyfið (e. validation) í hverju ríki fyrir sig innan tiltekins frests. Frá og með 1. júní 2023 verður aftur á móti kerfi fyrir eitt evrópskt einkaleyfi (e. Unitary Patent) að veruleika.

Eitt einkaleyfi – 25 ríki

Hið nýja kerfi er aðeins byggt upp af ríkjum Evrópusambandsins (ESB). Ísland stendur því utan við það ásamt öðrum EES/EFTA ríkjum og fleiri aðildarríkjum EPO þótt allir geti nýtt sér kerfið. Tvær evrópskar reglugerðir, reglugerð um málsmeðferð nr. 1257/2012 og reglugerð um þýðingar nr. 1260/2012 eru grunnur kerfisins ásamt samningi um sameiginlegan einkaleyfadómstól (e. Unified Patent Court Agreement - UPCA).

Gerðirnar tvær tóku gildi árið 2013 með þeim fyrirvara að dómstólasamningurinn væri fullgiltur af að lágmarki 13 ríkjum, þar á meðal Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi. Þýskaland var 17. ríkið til þess að ljúka fullgildingu í febrúar sl.

Áhugavert verður að sjá hvaða áhrif nýtt kerfi mun hafa á vernd einkaleyfa í Evrópu í framtíðinni og þá sérstaklega á Ísland.

Ferli við málsmeðferð og veitingu evrópskra einkaleyfa mun haldast óbreytt. Eftir veitingu verður hægt að fá eitt evrópskt einkaleyfi, staðfest í einu lagi, í þeim ríkjum ESB sem taka þátt í samstarfinu, þ.e. allt að 25. Áfram verður hægt að velja stök ríki eða óska eftir staðfestingu einkaleyfisins einnig í þeim EPO ríkjum sem ekki eru hluti af þessu kerfi. EPO mun fyrir málsmeðferð eins evrópsks einkaleyfis taka yfir hlutverk hugverkastofa í þeim ríkjum sem einkaleyfið nær til og halda utan um einkaleyfaskrá og árgjöld.

Undirbúningur – „sunrise period“

Þann 1. janúar 2023 hófst undirbúningsferli hjá EPO að innleiðingu kerfisins og frá þeim tíma má velja eitt evrópskt einkaleyfi á grundvelli þeirra umsókna sem þegar eru í ferli hjá EPO eða óska eftir því að veitingu einkaleyfis verði frestað fram yfir gildistöku á nýju kerfi. Eftir 1. júní 2023 verður frestur til að óska eftir gildistöku fyrir eitt evrópskt einkaleyfi einn mánuður frá veitingu. Frestur til að óska eftir gildi þess í einstökum ríkjum helst óbreyttur en hann er almennt þrír mánuðir.

Einn dómstóll – ein málsmeðferð

Hlutverk dómstólsins verður að fjalla um ágreiningsmál um gildi einkaleyfa og brota á þeim, bæði þeirra sem gefin eru út sem eitt evrópskt einkaleyfi og þeirra sem gildi hafa í einstökum ríkjum. Ekki þarf því að reka mál vegna evrópskra einkaleyfa í mörgum ríkjum samtímis með hugsanlega ólíkum niðurstöðum og þá nær lögsaga dómstólsins einnig til viðbótarvottorða (e. Supplementary Protection Certificate – SPC) sem byggja á evrópskum einkaleyfum. Starfsstöðvar dómstólsins verða dreifðar um aðildarríkin en meginaðsetur hans (e. Central Division) verður í París, fyrsta dómstig (e. Local division) verður m.a. í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn og áfrýjunardómstóll (e. Court of Appeal) í Lúxemborg. Þá verður á tveimur stöðum hægt að fara með mál í samningaferli hjá Patent Mediation and Arbitration Centre.

Aðlögun – „opt-out“

Dómstóllinn tekur til starfa 1. júní 2023 en eftir 1. mars 2023 er hægt að undanskilja evrópsk einkaleyfi, þ.e. umsóknir, veitt einkaleyfi og viðbótarvottorð sem byggja á þeim, frá lögsögu dómstólsins (e. opt-out). Óska verður eftir því sérstaklega og áður en til málshöfðunar gegn einkaleyfinu kemur. Ekki er hægt að komast hjá lögsögu dómstólsins eftir málshöfðun.

Áhugavert verður að sjá hvaða áhrif nýtt kerfi mun hafa á vernd einkaleyfa í Evrópu í framtíðinni og þá sérstaklega á Ísland – mun staðfestum einkaleyfum fjölga hér eða verður okkur einfaldlega sleppt?

Nánari upplýsingar um eitt evrópskt einkaleyfi má nálgast á þeim vefsíðum sem aðgengilegar eru í pistlinum eða hjá Hugverkastofunni.