Ekkert er öruggt í þessum heimi, nema auðvitað skattar og dauðinn. Þótt liðin séu hartnær 233 ár síðan Benjamin Franklin lét þessi orð falla eru þau að minnsta kosti jafn sönn nú og þá, enda lifum við sögulega tíma í síbreytilegum heimi. Vinnumarkaðurinn er þar engin undantekning og því ekki úr lausu lofti gripið að yfirskrift Viðskiptaþings í ár sé Tímarnir breytast og vinnan með – Vatnaskil á vinnumarkaði.

Hvers kyns breytingum fylgja nær alltaf áskoranir en auk þess tækifæri sé vel haldið á spöðunum. Augljóst dæmi er tölvan en með tilkomu hennar hurfu um 3,5 milljónir starfa á heimsvísu. Þrátt fyrir mikið brottfall starfa, og sennilega töluverða aðlögun í kjölfarið, sköpuðust 19 milljónir nýrra starfa vegna tölvunnar einnar. Annað dæmi er tækni- og sjálfvirknivæðing landbúnaðarins. Eitt sinn störfuðu átta af hverjum tíu við landbúnað en nú aðeins um 2% starfandi fólks, þó svo að landbúnaðarframleiðsla hafi stóraukist á sama tíma.

Á þessum umbrotatímum, í hringiðu fjórðu iðnbyltingarinnar og við lok heimsfaraldurs með tilheyrandi umróti, stöndum við frammi fyrir nýjum áskorunum. Í dag ríkir sögulegur skortur á starfsfólki og tæplega helmingur fyrirtækja telur sig búa við manneklu. Á sama tíma hefur umrót á íslenskum vinnumarkaði aukist til muna og vísbendingar er um að einstaklingar hugsi sér enn frekar til hreyfings. Þannig leiddi nýleg könnun Gallup til dæmis í ljós að um helmingur einstaklinga sé annað hvort í leit að starfi eða opinn fyrir tækifærum, skyldu þau bjóðast. Þá er ástandið ekki staðbundið við Ísland eins og niðurstöður erlendra rannsókna og kannana sýna. Með óljósari landamærum vinnumarkaðarins vegna aukinnar samtengingar og alþjóðavæðingar er Ísland í vaxandi alþjóðlegri samkeppni um vinnuafl.

Ísland, besti vinnustaður í heimi?

Uppbygging öflugra vinnustaða og samkeppnishæfs vinnumarkaðar mun leika lykilhlutverk í samkeppnishæfni Íslands. Það er því töluvert áhyggjuefni hve illa Ísland stendur í þeim efnum en samkvæmt IMD sitjum við í 33. sæti af 63 þjóðum á lista yfir samkeppnishæfni vinnumarkaða, síðust Norðurlandanna. Þar að auki hefur dregið hratt úr samkeppnishæfni markaðarins en fyrir rúmum áratug sátum við 13 sætum ofar og trónuðum á toppnum meðal Norðurlandaþjóða.

Margt kemur til en meðal annars ber að nefna takmarkaðan áhuga erlendra sérfræðinga á að flytjast til landsins og hefja hér störf. Auk þess hefur ítrekað verið bent á hve flókið það getur reynst sérfræðingum að setjast hér að. Í þessu samhengi hefur meðal annars verið vísað til takmarkaðs aðgengis barna erlendra sérfræðinga að alþjóðlegri menntun en hér á landi starfa aðeins tveir alþjóðlegir grunnskólar sem anna ekki eftirspurn. Þá býður einungis einn framhaldsskóli upp á nám á alþjóðlegri braut. Þessi staða endurspeglast í niðurstöðum kannana sem sýna að erlendir sérfræðingar laðist síður að íslensku viðskiptaumhverfi samanborið við það umhverfi sem þeim stendur til boða annars staðar, til að mynda á Norðurlöndunum.

Samtímis blasa nú við töluverðar áskoranir fyrir fyrirtækin í landinu og atvinnulífið í heild, en laða þarf að nýtt starfsfólk sem þó er af skornum skammti. Það er því afar mikilvægt að álitlegt sé fyrir erlenda sérfræðinga að búa og starfa hér á landi en sökum smæðar landsins getur reynst torvelt að byggja upp sterkar atvinnugreinar, svo sem hugvitsgeirann, án aðkomu þeirra. Er því ljóst að liðka þurfi fyrir aðkomu erlendra sérfræðinga með einföldun regluverks og umsóknarferlis. Um leið þarf að hlúa að þeim sérfræðingum sem þegar eru starfandi hér á landi í þeirri viðleitni að missa þá ekki úr landi.

Eitt sinn störfuðu átta af hverjum tíu við landbúnað en nú aðeins um 2% starfandi fólks, þó svo að landbúnaðarframleiðsla hafi stóraukist á sama tíma.
Eitt sinn störfuðu átta af hverjum tíu við landbúnað en nú aðeins um 2% starfandi fólks, þó svo að landbúnaðarframleiðsla hafi stóraukist á sama tíma.

Vandinn á vinnumarkaði verður þó ekki aðeins leystur með aukinni aðkomu erlendra sérfræðinga. Til viðbótar þarf að búa í haginn fyrir breyttan veruleika þar sem um helmingur starfa er í dag berskjaldaður fyrir sjálfvirknivæðingu. Á sama tíma verður til fjöldi nýrra starfa ár hvert í krafti tækniframfara. Af þeim sökum hefur eftirspurn eftir einstaklingum með menntun á sviði vísinda, tækni, verkfræði og stærðfræði (svokölluð STEM-menntun) aukist til muna undanfarin ár. Raunar er þörfin orðin svo mikil að hlutfall þeirra sem sækja sér slíka menntun er orðið einn helsti vísir á samkeppnishæfni ríkja. Ísland hefur verið eftirbátur annarra Evrópuþjóða en um 20% háskólamenntaðra einstaklinga hér á landi eru STEM-menntaðir samanborið við 25% hlutfall að meðaltali á Norðurlöndunum. Vert er að taka fram að undanfarið hefur STEM víða verið endurskilgreint sem STEAM þar sem viðbótin vísar til listsköpunar (e. arts) sem getur skipt sköpum fyrir nýsköpun í tæknigeirum.

Í hinum síbreytilega heimi er þó ekki síður mikilvægt að huga að þeim sem eiga á hættu að missa störf sín vegna tækniframfara og sjálfvirknivæðingar. Augljóst úrræði er aukið vægi viðeigandi sí- og endurmenntunar. Þrátt fyrir vaxandi þörf fækkaði þeim sem sækja slíka menntun hér á landi um 40% á árunum 2015-2020 og hafa ekki verið færri síðan 2009. Aukin sí- og endurmenntun er ein af forsendum aukinnar samkeppnishæfni en í ljósi þess skorts sem ríkir á vinnuafli þarf að huga að því að nýta starfskrafta vinnuaflsins í heild sinni með sem bestum hætti. Takist það ekki er hætt við því að tækniframfarir og aukin sjálfvirknivæðing skili sér ekki í viðunandi framleiðni- og velsældaraukningu sem krefst þess að viðeigandi vinnuafl sé til staðar.

Hvernig sköpum við eftirsóknarverða vinnustaði?

Það er ekkert launungarmál að þegar kemur að samkeppnishæfni stendur íslenskur vinnumarkaður í heild vinnumarkaði annarra þjóða að baki. Leiðin til aukinnar samkeppnishæfni er margslungin og ýmsar leiðir til úrbóta færar. Það er þó jafnframt fyrirtækjanna að bera sig eftir björginni til að verða eftirsóknarverðir vinnustaðir, bæði innanlands og á alþjóðlegum vettvangi.

Það er gömul saga og ný að há laun og ríkulegar launahækkanir þyki eftirsóknarverðar meðal starfsfólks. Ekki þarf að leita langt til að finna dæmi þess efnis en tæplega 40% aðildarfélaga Viðskiptaráðs hafa misst starfsfólks til hins opinbera á síðustu tveimur árum og 83% þeirra telja að launaskrið hins opinbera hafi vegið þyngst við ákvörðun um þau starfaskipti. Aukin umsvif hins opinbera, sem hefur vaxið hratt og á skjön við þróun einkageirans, renna stoðum undir þá kenningu en á síðustu tveimur árum hefur þeim sem starfa hjá hinu opinbera fjölgað um 7% samhliða 8% fækkun í einkageiranum. Þótt skýra megi hluta þess misvægis með heimsfaraldrinum, var sú þróun hafin fyrir faraldurinn. Launahækkanir umfram framleiðnivöxt grafa undan verðstöðugleika og því er það einnig hagsmunamál launafólks að launaþróun styðji við stöðugleika og kyndi ekki undir verðbólgu.

Uppbygging öflugra vinnustaða og samkeppnishæfs vinnumarkaðar mun leika lykilhlutverk í samkeppnishæfni Íslands.
Uppbygging öflugra vinnustaða og samkeppnishæfs vinnumarkaðar mun leika lykilhlutverk í samkeppnishæfni Íslands.

Vísbendingar eru um að starfsfólk geri aðrar kröfur til vinnunnar og starfsumhverfis síns en áður. Sem dæmi má nefna að sveigjanleiki í starfi, líkt og val um fjarvinnu, hefur orðið sífellt verðmætari, ekki síst vegna reynslu af breyttu vinnulagi í heimsfaraldrinum. Niðurstöður erlendra rannsókna gefa til kynna að rúmlega 60% launþega sem hafa val um fjarvinnu myndu íhuga annað starf ef þeim stæði fjarvinna ekki til boða en hlutfallið er enn hærra, eða ríflega 70%, meðal fólks á aldrinum 18-24 ára. Tækifæri til starfsþróunar og að nýta styrkleika í starfi vega einnig þungt. Nýlegar niðurstöður könnunar Gallup sýna að einungis 3% starfsfólks hjá fyrirtækjum sem byggja upp styrkleika starfsfólks séu í leit að nýju starfi. Til samanburðar er tæplega fjórði hver starfsmaður í starfsleit hjá fyrirtækjum sem leggja ekki áherslu á þennan þátt. Það ætti því að vera keppikefli vinnuveitenda að byggja upp og nýta styrkleika hvers og eins starfsmanns.

Fjölbreytt og heilbrigt viðskiptalíf er forsenda velferðar og lífsgæða hér á landi líkt og annars staðar. Þetta hefur Viðskiptaráð bent á allt frá stofnun en þau atriði sem skipta höfuðmáli hverju sinni eru breytingum háð. Vatnaskilin á vinnumarkaði eru augljós, hérlendis sem erlendis. Þessu fylgja ýmsar áskoranir en svo íslenskt viðskiptalíf megi áfram dafna er mikilvægt að grípa tækifærin sem til dæmis felast í því að efla menntakerfið og tengja það betur þörfum atvinnulífsins, laða hingað erlenda sérfræðinga og aðstoða þá við að setjast hér að en um leið að styðja þau sem eiga á hættu að missa störf sín vegna sjálfvirknivæðingar. Á sama tíma teljum við íslensk fyrirtæki hafa dýrmæt tækifæri til að skapa sér sérstöðu með sveigjanleika og persónulega nálgun að leiðarljósi, því tímarnir breytast og vinnan með.

Höfundar eru hagfræðingar Viðskiptaráðs.