Það var líklega um það leyti sem ég var hálfnaður með frétt á Vísi.is um dularfull­an dauðdaga klámdvergs tvífara Gordon Ramsay sem ég áttaði mig á að ég þurfti að svara nokkrum skilaboðum á Gmail chattinu frá vini mínum um það hversu miklu máli það skiptir að Paul Simon gefi af sér svona „soft gay vibe“ þegar maður hlustar á tónlist hans. Þá þurfti ég reyndar að kanna á hvaða plötu „You can call me Al“ var á (Graceland) og horfa á svona hálfa mínútu af tónlistarmyndbandinu við lagið.

Að því loknu var komið að því að halda áfram að vinna en ekki fyrr en ég var búinn að klára umfjöllun um lend­ingu vélmennis á hala­stjörnunni 67C/C­G en áður en ég næ að klára greinina fer ég að hugsa um svarthol og skoða því næst dóma um kvikmyndina Interstellar sem ég sá kvöldið áður og furða mig á því af hverju gagn­rýnendum finnst hún ekki jafn til­komumikil og mér þótt ég hafi ekki beinlínis tíma til að kynna mér rök­stuðning þeirra ítarlega. Ég þarf nefnilega að halda áfram að vinna en það eru nokkrir tölvupóstar sem ég þarf að svara áður en ég get hald­ið áfram með smjörið.

OK, það er samt einn flipi á vafr­anum sem er búinn að vera þarna of lengi og ég verð að klára. Ég er ekki enn búinn að lesa áhugaverða 3.308 orða grein í London Review of Books um hryðjuverkasamtökin Isis en ég skimaði yfir helminginn af henni í gærkvöldi og sá strax að ég kæmi með mjög góða punkta í næsta gáfumannapartíi sem ég færi í ef mér tækist bara að rúlla yfir hana alla. Djöfull væri samt feitt ef hún væri bara sett upp í ein­faldan lista – „10 ástæður fyrir því að Isis eru vondir“. Áður en ég get komið mér að því verð ég samt að lesa viðtal á Smartlandinu við þátt­takanda í næstu þáttaröð af Biggest Loser Ísland. Hann er sko 206 kíló en fjölskyldan, vinir hans, fótbolti og KR (með sex upphrópunar­merkjum) er það sem veitir honum mesta lífsfyllingu.

Það styttist í að þessi pistill verði of langur til þess að einhver nenni að lesa hann, eða „tl;dr“ (too long; didn’t read (e. of langur; las ekki)) eins og sumir myndu segja. Næst þegar ég skrifa pistil skal ég lofa að hann verði ekki lengri en 140 stafir – helst að hafa hann allan í skammstöfunum svo les­endur geti haft tíma til að lesa afganginn af því sem internetið hefur upp á að bjóða.