*

laugardagur, 30. maí 2020
Huginn og muninn
16. febrúar 2019 10:02

Togstreita á milli bankanna

Það fór ekki vel í æðstu stjórnendur Íslandsbanka þegar Landsbankinn fullyrti að viðskiptavinir hans væru þeir ánægðustu.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Haraldur Guðjónsson

Þegar fréttir bárust af launahækkun Lilju B. Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, stigu margir fram og gagnrýndu ráðahaginn. Á meðal þeirra sem það gerðu var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra enda hækkunin eins og olía á kjaradeilubálið sem nú geysar. Bankaráð Landsbankans sendi frá sér fréttatilkynningu síðdegis á mánudaginn þar sem hækkunin var réttlætt.

Athygli vakti að skömmu síðar þann dag sendi Íslandsbanki frá sér tilkynningu þar sem bent var á að Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, hefði sjálf óskað eftir því í nóvember síðastliðnum að laun hennar yrðu lækkuð um 14,1%.

Tímasetningin vakti óneitanlega athygli en í tilkynningu Íslandsbanka sagði orðrétt: „Ákvörðunin var tekin í ljósi stöðunnar í íslensku atvinnulífi og kjaraviðræðna sem standa yfir. Jafnframt skal tekið fram að laun bankastjóra og framkvæmdastjóra munu ekki hækka árið 2019 né taka samningsbundnum hækkunum ef til þeirra kemur.“

Svo virðist því sem bankastjóri Íslandsbanka hafi verið að leggja sitt af mörkum til að lægja þær öldur sem nú eru í kjaraviðræðunum. Hrafnarnir vita aftur á móti að nokkur togstreita hefur verið á milli Íslandsbanka og Landsbankans enda eru bankarnir í samkeppni um viðskiptavini í hinu agnarsmáa hagkerfi sem Ísland er.

Það fór, vægt til orða tekið, ekki vel í æðstu stjórnendur Íslandsbanka þegar Landsbankinn birti í ársskýrslu sinni fullyrðingar um að viðskiptavinir hans væru þeir ánægðustu á bankamarkaði. Í skýrslunni vísar Landsbankinn í skoðanakönnun Gallup frá því í desember. Fyrir rúmum tveimur vikum birti Stjórnvísi niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar, sem nú er unnin í samstarfi við Zenter rannsóknir en ekki Gallup eins og áður. Þar trónir Íslandsbanki á toppnum eins og hann hefur gert síðustu ár. Líka þau ár sem ánægjuvonin var unnin í samstarfi Stjórnvísi og Gallup.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.