Talsverð umræða hefur átt sér stað um mikinn hagnað stóru viðskiptabankanna þriggja á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Hagnaðurinn, sem nam um 20,3 milljörðum króna, segir þó aðeins hálfa söguna. Það er nefnilega nauðsynlegt að setja umræddar hagnaðartölur í samhengi. Mikið eigið fé er bundið í rekstri banka vegna lögbundinna eiginfjárkrafna, ólíkt því sem gengur og gerist í öðrum atvinnugreinum. Engin önnur atvinnugrein hefur álíka mikið eigið fé bundið í rekstri. Í lok marsmánaðar nam eigið fé bankanna þriggja um 669 milljörðum króna en sú fjárhæð samsvarar tvöföldum útgjöldum hins opinbera til bæði heilbrigðismála og háskólanna í fyrra. Hér er bersýnilega ekki um að ræða neinar smáar fjárhæðir og því eðlilegt að skoða hagnaðinn í hlutfalli við það eigið fé, fremur en afkomutölurnar einar saman.

Arðsemi eiginfjár bankanna þriggja á fyrsta fjórðungi ársins nam að meðaltali um 12,1% en að teknu tilliti til verðlagsþróunar var raunávöxtunin aðeins um 1,9%. Slíkt getur vart talist ofurhagnaður. Raunávöxtun bankanna þriggja hefur verið umtalsvert meiri síðustu ár og nam til að mynda að meðaltali um 3,7% á síðustu sex árum. Arðsemi íslensku bankanna er auk þess í engu ósamræmi við arðsemi banka í nágrannalöndum okkar, eins og gjarnan er haldið fram. Arðsemi eiginfjár stærstu banka Norðurlandanna var að jafnaði töluvert meiri en hér á landi á fyrsta fjórðungi ársins, eða um 16,2% að nafnvirði að meðaltali. Í þessu samhengi er þó vert að taka fram að eiginfjárkröfur íslensku bankanna eru tæplega tvöfalt hærri en almennt tíðkast í Evrópu, sem leiðir til dýrari fjármálaþjónustu en ella.

Það er ekki nýtt undir sólinni að samhliða umræðunni um hagnað bankanna heyrist einnig raddir þess efnis að hækka eigi sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, hinn svokallaða bankaskatt. Skatturinn, sem er 0,145% af heildarskuldum banka umfram 50 milljarða króna, er nú þegar mun hærri en í samanburðarlöndum og heyrir hann t.a.m. sögunni til í Noregi, Danmörku, Finnlandi og Ítalíu svo fáein ríki séu nefnd. Auk þess eru hér á landi alls þrenns konar sérstakir skattar lagðir á fjármálafyrirtæki en slíkt tíðkast ekki meðal annarra vestrænna ríkja. Það gefur augaleið að frekari hækkun á bankaskattinum er til þess fallin að draga enn frekar úr samkeppnishæfni íslensku bankanna á alþjóðavettvangi. Það ætti að vera kappsmál bæði stjórnvalda og landsmanna að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, þ.m.t. bankanna, sem er ein af grundvallarforsendum hagsældar.

Þá er ekki úr vegi að velta fyrir sér tilvist bankaskattsins en skattinum var ætlað að afla ríkinu tekna til að mæta þeim mikla kostnaði sem hlaust af hruni íslenska fjármálakerfisins. Um var að ræða „tímabundna“ skattheimtu en það verður að teljast ólíklegt að nú, þrettán árum eftir lagasetninguna, eigi enn eftir að bæta ríkinu þennan kostnað. Í öllu falli sannast hér hið fornkveðna, að fátt er jafn varanlegt og tímabundnar aðgerðir hins opinbera. Þar af leiðandi vaknar jafnframt upp sú spurning hvort almennt sé farsælt að hækka skatta á sérstakar atvinnugreinar, þyki þær vel aflögufærar á þeim tíma. Hvaða aðgerðir skal þá boða þegar harðnar á dalnum hjá viðkomandi atvinnugreinum? Sagan hefur í það minnsta sýnt að annars vegar hefur reynst torvelt að kveða tímabundnar aðgerðir hins opinbera í kútinn og hins vegar að skattalækkanir eru alltaf töluvert fátíðari en skattahækkanir.

Að undanförnu hafa ráðherrar og aðrir þingmenn hvatt bankana til sýna samfélagslega ábyrgð í því árferði sem nú ríkir. Flest, ef ekki öll, taka undir þá hvatningu en umræðan þarf að byggjast á málefnalegum staðreyndum, líkt og þeim sem fjallað var um hér að framan. Þá skal því auk þess haldið til haga að hækkun bankaskattsins er hvorki liður í viðureigninni við verðbólguna né búbót fyrir heimili og fyrirtæki í landinu. Hærri bankaskattur leiðir almennt af sér hærri útlánavexti og rýrir ávöxtun sparnaðar. Skatturinn rekur þar með fleyg milli útlánavaxta og innlánsvaxta sem eykur vaxtamun og skilar sér í verri kjörum til heimila og fyrirtækja, þvert á markmið ríkisstjórnarinnar og andstætt því sem haldið hefur verið fram.

Skýrasta tækifærið til að bæta kjör landsmanna er að lækka bankaskattinn enn frekar eða afnema hann að fullu. Slík þróun hefur áður reynst heilladrjúg fyrir landsmenn en þegar skatturinn var lækkaður árið 2020 lækkuðu vextir flestra bankanna í kjölfarið þar sem ákvörðunin var sögð einkum taka mið af lækkun bankaskattsins. Að endingu, til að setja 20 milljarða króna hagnað bankanna í samhengi, þá hækkuðu fjárlög stjórnvalda um 30 milljarða króna milli umræðna á Alþingi síðastliðið haust. Það liggur því beinast við að stjórnvöld, sem gjarnan tala um ábyrgð bankanna, leiti leiða til að auka eigið aðhald, draga úr þenslu og þannig ná niður verðbólgunni. Það væri stór hluti af lausninni. Eða er ekki annars rétt að taka til í eigin vösum áður en farið er að teygja sig í vasa annarra?

Höfundur er hagfræðingur Viðskiptaráðs.