Þegar einkaaðilar hasla sér völl á tilteknu sviði, sérstaklega sviði þar sem alþjóðleg samkeppni ríkir, er ágætis viðmið að hið opinbera blási ekki í lúðra og sæki inn á markaðinn í samkeppni við einkaaðila. Samkeppni við alþjóðleg risafyrirtæki nægir og gott betur. Nærtækara er að ríkið hlúi að fyrirtækjum sem keppa á alþjóðavettvangi og styðji í samkeppni við erlend fyrirtæki, landi og þjóð til heilla. Á landinu þar sem við leggjum okkur fram um að vera ósammála um sem mest og sem oftast um sem flest virðist ríkja nokkuð almenn sátt um þessa nálgun. Nema á Veðurstofunni.

Þegar fulltrúar dönsku systurstofnunar Veðurstofunnar sóttu Ísland heim árið 2013 var umfram annað ætlunin að skoða einkareknu íslensku gagnaverin til að finna hér hentugan hýsingarkost fyrir ofurtölvu. Milt veðurfar og ódýrt, umhverfisvænt rafmagn lokkuðu. Ári síðar komst á samningur milli veðurstofa Íslands og Danmerkur um stóraukið samstarf stofnananna á þessu sviði. Þar heyrðist jafnvel sú hugmynd að Norðurlöndin sameinuðust um ofurveðurtölvu. Vonir stóðu til að sú tölva yrði á Íslandi og að hún yrði rekin af einkaaðilum. Í frétt á vef RÚV af því tilefni var nefnilega haft eftir þáverandi staðgengli Veðurstofustjóra í umræðu um Norrænu ofurveðurtölvuna: „Við erum ekki að fara í hýsingarþjónustu.“

„Ekkið“ sem hvarf

Þetta hefði verið kjörið tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki að sýna erlendum aðilum hvers megnug þau eru þegar gagnaver og ofurtölvur eru annars vegar. Tækifærið hvarf þó eins og dögg fyrir sólu því einhvers staðar virðist „ekki“ í „við erum ekki að fara í hýsingarþjónustu“ hafa fallið brott. Í góumánuði árið 2016 lauk prufukeyrslu á nýrri ofurtölvu íslensku og dönsku veðurstofanna, Cray XC30, sem er enn að sækja í sig veðrið. Tölvan er í eigu dönsku veðurstofunnar en með samning við Veðurstofuna um hýsingu. Þannig er ríkisstofnun komin í beina samkeppni við einkaaðila um rekstur ofurtölvu og hýsingarþjónustu.

Í árskýrslu Veðurstofunnar fyrir árið 2015 segir að við kostnaðargreiningu hafi niðurstaðan verið sú að hagkvæmara væri að stofna nýtt svið á Veðurstofunni utan um rekstur ofurtölvu en að leita til einkaaðila. En var örugglega allt tekið með í reikninginn? Var tekið tillit til launa-, stjórnunar- og rekstrarkostnaðar? Innihélt kostnaðargreiningin mat á kostnaði við leigu á lóð og húsnæði?

Athygli vekur að ofurtölva Veðurstofunnar er við Bústaðaveg. Til þess að hægt væri að breyta kjallara Veðurstofu Íslands í gagnaver þurfti að ráðast í mjög kostnaðarsamar breytingar til að koma fyrir kælingu, raflögnum og nettengingum. Allt er þetta þegar til staðar hjá þeim fyrirtækjum sem sérhæfa sig í rekstri ofurtölva.

Á sama tíma og hið opinbera holar sínum vélbúnaði niður á verðmætu byggingarlandi brjóta einkaaðilar nýtt land undir sína vélasali, með tilheyrandi sparnaði en jafnframt jákvæðum áhrifum á byggðarlög sem hafa búið við kyrrstöðu. Allt þetta setur stórt spurningamerki við notkun almannafjár. Önnur og jafnvel veigameiri spurning er hvort ríkið eigi á annað borð að sinna hýsingarþjónustu eða rekstri ofurtölvu og þannig keppa við íslensk fyrirtæki um alþjóðlega samninga.

Ríkisflugfélagið OpinbAir

Ef fjármálaráðuneytið reiknaði sig niður á þá niðurstöðu að það væri hagkvæmara fyrir ríkið að reka eigið flugfélag, ætti ríkið þá að stofna flugfélag? Það held ég ekki. Ef ríkið hins vegar myndi stofna RíkizAir gætu Reykjavík, Kópavogur, Reykjanesbær og Akureyri slegist með í för svo að fyrr en varir væri orðið til ríkisflugfélagið OpinbAir, í grjótharðri samkeppni við einkaaðila. Þetta dæmi, sem virðist fjarstæðukennt, er raunin í rekstri gagnavera.

Nú er nefnilega svo komið að ofurtölva Veðurstofunnar er líka orðin gagnaver Tryggingastofnunar. Í ársbyrjun sömdu Veðurstofan og Tryggingastofnun um samnýtingu á „rekstri miðlægs tölvubúnaðar Veðurstofunnar sem gerir miklar kröfur til upplýsinga- og rekstraröryggis“.

Með því að ryðjast inn á samkeppnismarkað þar sem íslensk fyrirtæki eiga í harðri samkeppni við alþjóðleg fyrirtæki dregur ríkið tilfinnanlega úr möguleikum þeirra á að vaxa og dafna á heimamarkaði. Það dregur í kjölfarið úr getu þeirra til að vaxa á alþjóðavísu. Þessi nálgun gæti auk þess orðið dýrari fyrir ríkið og samfélagið í heild þegar upp er staðið. Allt kostar þetta fyrirtækin ekki bara tapaðar tekjur, heldur líka tapaðar tengingar, tengsl og sambönd sem eru órjúfanlegur hluti velgengni í samkeppni á alþjóðavísu.

Höfundur er lögfræðingur Viðskiptaráðs.