*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Huginn og muninn
25. janúar 2020 10:01

„Tralalalala“ í boltanum og borgarstjórn

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari skóf ekki utan af hlutunum eftir dapra frammistöðu landsliðsins.

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari.
Haraldur Guðjónsson

Mörg ummæli sem fallið hafa í tengslum við íslenska handboltalandsliðið hafa fest sig í málinu. Landsliðið kemst vart í gegnum leik án þess að “slæmi kaflinn“ og „íslenska geðveikin“ sé nefnd.

Dorrit Moussaieff sagði Ísland „stórasta land í heimi“ eftir árangur silfurliðsins á Ólympíuleikunum árið 2008. Lýsing Adolfs Inga Erlingssonar á Alexander Pettersson með orðunum „Hvaðan kom hann? Hvert er hann að fara? Hvað er hann?“ er ógleymanleg. Ólafur Stefánsson dældi frá sér gullkornum sem og stoðsendingum í gegnum árin. Með eftirlegri viðtölum við Ólaf var þegar hann ritskoðaði sjálfan sig og sagði „bíp“ ítrekað.

Nú hafa bæst við ný ummæli, en í þetta skiptið koma þau frá landsliðsþjálfaranum Guðmundi Guðmundssyni sem sagði landsliðinu að hætta að spila „tralalalala“ handbolta eftir að landsliðið var komið 4-0 undir eftir tvær og háfa mínútu gegn Noregi. Spurning hvort „tralalalala“ festist í málinu til að lýsa þeim sem eru alveg úti á túni.

Borgarstjórn var að mestu í „tralalalala“ gírnum þegar áformuð stytting opnunartíma leikskóla var tekin til afgreiðslu á þriðjudag. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og oddviti Viðreisnar, sagði treggáfu hafa hlaupið í Eyþór Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins. Hún bætti þó við síðar í umræðunni að hann væri alla jafna ekki treggáfaður. Vigdís Hauksdóttir sagði að framferði meirihlutans í málinu væri lúalegt. Líklega hefði borgarstjórninni ekki veitt af leikhléi með Guðmundi.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.