*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Sigríður Mogensen
31. desember 2018 16:02

Treystum ekki á tilfallandi búhnykki

Eftir umbrotatíma í stjórnmálum á árunum 2008-2017 er nú við völd ríkisstjórn sem hefur breiða skírskotun.

Haraldur Guðjónsson

Eftir umbrotatíma í stjórnmálum á árunum 2008-2017 er nú við völd ríkisstjórn sem hefur breiða skírskotun. Við þær aðstæður ætti langtímastefnumótun að eiga sér stað. Önnur rök kalla á þetta. Tímarnir eru breyttir, tækniframfarir eru að eiga sér stað á meiri hraða í dag en áður hefur þekkst og á sama tíma eru kröfur meiri, og spila loftslagsbreytingar og áhersla á umhverfisvernd þar lykilhlutverk. Þá er öldrun þjóða áskorun sem verður ekki litið fram hjá í þessu samhengi. Ef Ísland á að verða þátttakandi í þeim breytingum sem framundan eru og njóta góðs af þeim þarf að virkja tækifærin sem eru fólgin í vexti iðnaðar sem byggir á hugviti. Til þess þurfa íslensk stjórnvöld að marka skýra stefnu fram á við í lykilmálaflokkum og fylgja henni eftir í gegnum löggjöf og verklag í stjórnsýslu og hjá opinberum stofnunum. Skattkerfið og ráðstöfun opinbers fjármagns eru öflugustu tólin í verkfærakassa ríkisins. Ríkið og löggjafinn hafa með stefnu sinni í ýmsum málaflokkum ýmist hvetjandi eða letjandi áhrif á fyrirtæki og atvinnuuppbyggingu og stýra þannig óbeint hegðun á frjálsum markaði. Ríkið getur líka þvælst fyrir í atvinnuuppbyggingu og það ætti ávallt að hafa í huga við stefnumótun hins opinbera.

Stýrihópur skipaður af ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar vinnur nú að mótun nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Stefnan á að liggja fyrir í maí 2019. Um mitt árið sem nú er að líða féll Ísland um 10 sæti í alþjóðlegri mælingu á getu til nýsköpunar. Þetta ættum við að taka alvarlega, sérstaklega í ljósi þess að nýsköpun er lykillinn að verðmætasköpun í framtíðinni, fjölgun starfa og lífskjarasókn. Nýsköpunarstefna fyrir Ísland þarf að byggja á metnaðarfullum langtímamarkmiðum. Hún þarf að vera skýr og einföld og miða að því að ráðast að veikleikum í umhverfinu og efla hvata til rannsókna og þróunar heilt yfir. Hún á ekki að vera stefna um allt, fyrir alla. Pólitískan dug og forystu þarf til að koma henni til framkvæmda, ef hún á að skila árangri. Árangurinn yrði mældur í aukinni fjárfestingu í rannsóknum og þróun, fjölgun og vexti fyrirtækja í hugvits- og hátæknigreinum og aukningu útflutningstekna á því sviði.

En það þarf að huga að fleiru. Opinber stefnumótun á sviði nýsköpunar þarf að ganga í takt við stefnu í öðrum málaflokkum, svo sem menntamálum og orkumálum. Í þessu samhengi þurfa stjórnvöld til að mynda að taka afstöðu til hugmynda um raforkusæstreng til Bretlands og hvort þau áform samræmist markmiðum um að efla nýsköpun og byggja undir vöxt hugverkaiðnaðar hér á landi. Raforkan væri betur nýtt heima við, til að styðja við stækkunaráform fyrirtækja í hugverkaiðnaði og byggja þar með undir útflutningstekjur.

„Síldin var ekki bara silfur hafsins áður, heldur var ástandið líkast gullæði þegar hún var hvað mest [...]“. Þetta var haft eftir Finnboga Jónssyni, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar, í Morgunblaðinu í október 1995. Atvinnusaga Íslands hefur til dagsins í dag að miklu leyti ráðist af náttúrulegum þáttum, svo sem staðsetningu landsins, fiskmiðum og öðrum náttúruauðlindum, ytri áhrifum og efnahagssveiflum. Nýlegt dæmi um þetta er uppgangur ferðaþjónustunnar, en gríðarleg fjölgun ferðamanna hefur verið hvalreki fyrir efnahag Íslands. Önnur ríki í hinum vestræna heimi hafa mörg hver þurft að stóla á skipulagningu til að byggja undir verðmætasköpun. Koma auga á mögulega sérstöðu á einhverju sviði og fylgja því eftir með stefnumótun og löggjöf sem hvetur til atvinnusköpunar, með öðrum orðum skapa tækifæri með pólitískum aðgerðum. Dæmi um þetta má finna í uppbyggingu bílaiðnaðarins í Þýskalandi.

Þrátt fyrir uppgang ferðaþjónustunnar hefur stjórnvöldum ekki tekist að leysa úr ýmsum álitamálum sem snúa að greininni, svo sem innviðauppbyggingu. Við höfum verið góð í að bregðast við, og grípa þau tækifæri sem við höfum fengið í hendur, en ekki að skipuleggja okkur fram í tímann og búa til tækifæri. Breytum því núna, virkjum tækifæri til nýsköpunar á öllum sviðum með skýrri og einfaldri stefnu sem miðar að því að auka fjárfestingu í nýsköpun þvert á atvinnugreinar. Þannig mun okkur takast að efla lífskjör til framtíðar og treysta stoðir og fjölbreytileika útflutnings. Hugvits- og hátækniiðnaðurinn hefur verið í sókn á Íslandi undanfarin ár. Þá eru tækniframfarir og nýsköpun að umbreyta fyrirtækjum í rótgrónum iðnaði. Gríðarleg tækifæri eru til staðar í tengslum við nýjan iðnað og nýsköpun í rótgrónum iðngreinum en mikilvægt er að fyrirtækjum sé skapað stöðugt og hvetjandi rekstrarumhverfi. Nýr og öflugur útflutningsiðnaður, sem byggir á hugviti og hátækni, gæti þýtt að við þyrftum ekki að treysta á síldarvertíð og tilfallandi búhnykki til framtíðar.

Höfundur er sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins.

Greinin birtist í tímaritinu Áramót, sem gefið er út af Viðskiptablaðinu og Frjálsri verslun. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is