Uppgangurinn í íslenskri ferðaþjónustu á síðustu árum hefur vart farið fram hjá nokkrum manni. Allir mælikvarðar á umfang greinarinnar hafa síðan árið 2010 sýnt ótrúlegan vöxt allt fram til þessa árs. Sem dæmi má nefna að ferðaþjónustan er nú langstærsta útflutningsatvinnugrein Íslendinga og frá árinu 2011 hefur helmingur allra nýrra starfa í samfélaginu orðið til í ferðaþjónustu og afleiddum greinum. Þetta ótrúlega vaxtarskeið hófst í kjölfar efnahagshrunsins – einmitt þegar við þurftum mest á því að halda – og má rekja til falls íslensku krónunnar og ómetanlegrar ókeypis auglýsingaherferðar sem gosið í Eyjafjallajökli sá okkur fyrir. Ekki má svo gleyma þeim mikilvæga þætti og frumforsendu að atvinnugreinin reyndist vel í stakk búin til að takast á við þennan mikla vöxt. Við áttum til hugvit, þekkingu, mannafla og vannýtt framleiðslutæki. Síðan kom til frumkvæði, geta og sveigjanleiki til að bæta hratt við framboð þjónustu við ferðamenn, í takt við síaukna eftirspurn. Svo virðist sem okkur hafi tekist vel upp, því meðan á öllu þessu hefur staðið hefur ánægja ferðamanna aldrei mælst undir 90% og hlýtur það að teljast frábær árangur.

Breytt landslag

Hápunkti ferðaþjónustuhagsveiflunnar var náð árið 2016 – löngu áður en það varð sýnilegt. Þessu mikla vaxtarskeiði lauk þegar krónan hóf styrkingarferil sinn það vor. Ferðaþjónusta er mannaflsfrek atvinnugrein og því hefur síhækkandi launakostnaður undanfarin ár einnig lagt sín lóð á vogarskálarnar. Á milli áranna 2010 og 2017 hækkuðu laun á Íslandi um rúmlega 100% í evrum talið, á meðan laun í okkar helstu samkeppnislöndum hækkuðu um 10-15%. Þetta tvennt – sterkt gengi krónu og hár launakostnaður – hefur dregið hratt úr samkeppnishæfni landsins á erlendum ferðamörkuðum. Samkvæmt sumum mælikvörðum nýtur landið þess vafasama heiðurs að vera dýrasta ferðamannaland í heimi. Árið 2018 varð þessi staða greinileg. Mikið hefur dregið úr vexti og samsetning ferðamanna og hegðun þeirra breyst töluvert. Þannig hefur orðið mikill samdráttur frá okkar gömlu, góðu og tryggu – en mjög verðnæmu kjarnamörkuðum í Mið-Evrópu. Þaðan koma ferðamenn, sem uppfylla flestar óskir ferðaþjónustunnar – þeir dvelja hér lengi, fara víða og kaupa mikla þjónustu. Á meðan hefur ferðamönnum frá Bandaríkjunum fjölgað mikið. Þeir hafa verið 1 af hverjum 4 ferðamönnum á landinu á þessu ári. Þeir dvelja hér mun styttra og eru ólíklegri til að ferðast langt út á landsbyggðina. Þessar staðreyndir hafa að sjálfsögðu haft töluverð áhrif á rekstur margra fyrirtækja um land allt.

Byggt upp til framtíðar

Það er skoðun margra að það sé ferðaþjónustu á Íslandi hollt að staldra nú aðeins við, horfa inn á við, meta stöðuna og nota tímann til að taka til og gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að byggja vel undir þá gæðaþjónustu sem við viljum að landið standi fyrir. Hér er ekki aðeins átt við fyrirtækin, heldur einnig hið opinbera sem er órjúfanlegur hluti af ferðaþjónustu. Það eru ótal margir hlutir sem eingöngu hið opinbera getur sinnt, en því miður hefur viðbragð þess ekki verið það sama og hjá einkageiranum. Sem betur fer eru þó merki þess að þar horfi til betri vegar og að ferðaþjónusta sé nú loks að fá þann sess sem henni ber á stjórnarheimilinu.

Stígum varlega til jarðar

Til skamms tíma eru horfur í ferðaþjónustu nokkuð óvissar. Það fer mikið eftir ýmsum ytri þáttum í rekstrarumhverfinu hvernig þróunin verður á næstu árum. Þar má nefna flugsamgöngur við landið, þróun kjarasamninga, en samkvæmt könnun Samtaka atvinnulífsins meðal ferðaþjónustufyrirtækja er svigrúm til launahækkana innan greinarinnar nánast ekkert, ekki síst hvernig gengi íslensku krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum mun þróast á næstu árum. Veiking íslensku krónunnar á síðustu misseri dregur hins vegar úr þeirri óvissu sem hefur farið vaxandi gagnvart útflutningsatvinnugreinum. Aðgerðir og aðgerðaleysi stjórnvalda hafa einnig mikil áhrif. Enn eigum við langt í land með innviðauppbyggingu og almenna stefnu í málum greinarinnar. Það þarf að skerpa á regluverki og fylgja lögum og reglum eftir. Nærtækast er að nefna ólöglega útgerð erlendra fyrirtækja í ferðaþjónustu hér á landi, sem fær að stunda sín myrkraverk óáreitt í samkeppni við íslensk fyrirtæki. Ríkisstjórnin er einnig nokkuð virk í að finna nýjar leiðir til að leggja frekari skatta og aukin gjöld á ferðamenn. Í þeim aðstæðum sem nú eru uppi er ekki rétti tíminn til að leggja auknar álögur á jafn mikilvæga atvinnugrein og ferðaþjónusta á Íslandi er.

Horfur til framtíðar góðar

Til langs tíma litið eru horfur í ferðaþjónustu mjög góðar. Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein í heiminum sem er í hvað örustum vexti og sér ekki fyrir endann á því. Allir vilja ferðast og ferðalög færast æ ofar á forgangslista fólks um allan heim. Nýir markaðir opnast stöðugt. Þeir sem tala um að ferðaþjónusta sé bóla eru því algjörum villigötum. Við Íslendingar eigum með landinu okkar stórkostlega „vöru“, sem mun bara verða eftirsóttari eftir því sem árin líða. Reyndar að þeim forsendum gefnum að við setjum það í forgang að vernda náttúruna og umhverfið, sem eru stærstu auðlindir Íslands.

Höfundur er formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Greinin birtist í tímariti Frjálsrar verslunar en í því var ítarleg umfjöllun um ferðaþjónustuna. Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst [email protected] .