*

mánudagur, 25. október 2021
Leiðari
24. september 2021 11:02

Trumpismi og sósíalista-elítan

Það er ekki „lágkúra" að spyrja frambjóðanda út í kauprétti eða rifja upp kapítalíska fortíð sósíalistaforingja.

Heilt yfir má segja að helstu gildi blaðamennsku séu sanngirni og nákvæmni. Sé farið eftir þessum gildum eru yfirgnæfandi líkur á að fréttaflutningur verði óhlutdrægur og sem næst sannleikanum.

Eðli skoðanagreina er, eins og nafnið gefur til kynna, allt annað. Það væri til dæmis mjög furðulegt að gera kröfu um hlutlægni í skoðanapistlum. Sumir og þá sérstaklega pólitíkusar dæma fjölmiðla út frá leiðurum og skoðanagreinum. Vafalaust er ástæðan sú að í þeim greinum verða þeir eða þeirra sjónarmið fyrir mestu gagnrýninni. Það er í góðu lagi að stjórnmálamenn séu ósáttir við skoðanagreinar enda hafa þeir undantekningalaust tækifæri til að svara fyrir sig, hvort sem það er í ræðu eða riti. Eitt meginhlutverk skoðanasíðna blaðanna er einmitt að þar sé skipst á skoðunum. Sé einhver ósáttur við leiðara eða önnur skrif á skoðanasíðum dagblaðs getur sá hinn sami svarað fyrir sig með greinaskrifum í sama blaði. Svo því sé haldið til haga þá er á öllum ritstjórnum gerður skýr greinarmunur á skoðanaefni og fréttaefni. Þetta geta allir blaða- og fréttamenn vitnað um.

Alþingiskosningar fara fram á laugardaginn. Eðlilega gætir taugatitrings á meðal frambjóðenda enda mikið í húfi. Það hefur samt verið hryggilegt að fylgjast með framgöngu sumra frambjóðenda.

Nýlegt dæmi er þegar Kristrún Frostadóttir, frambjóðandi Samfylkingarinnar, svaraði ekki ítrekuðum fyrirspurnum Viðskiptablaðsins vegna fréttar um kauprétti. Þegar frambjóðandinn var búinn að fá símtöl eða skilaboð í fimm daga í röð var ákveðið að birta fréttina á sunnudaginn var enda litið svo að búið væri að sýna viðkomandi nægjanlega sanngirni – tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Mýmörg fordæmi eru fyrir þessu í fréttamennsku á Íslandi og um víða veröld. Það að svara ekki fjölmiðli þýðir nefnilega ekki að frétt deyi drottni sínum. Það er ekki hægt að þagga mál með þessum hætti.

Daginn eftir að fréttin birtist ákvað Kristrún að birta einhliða yfirlýsingu á Twitter, þar sem hún stillti sér upp sem fórnarlambi samsæris Viðskiptablaðsins og Morgunblaðsins í hennar garð. Orðrétt skrifaði hún: „Samantekin ráð virðast nú vera hjá MBL og Viðskiptablaðinu að gefast upp á að ræða um mína pólitík á efnislegum grunni og reyna nú bara að keyra konuna niður með smjörklípum, óhróðri, gera lítið úr jafnaðarmannaskoðunum mínum […] Þetta er algjör lágkúra í fjölmiðlun og ástæðan fyrir því að margt ungt fólk veigrar sér við pólitískri þátttöku. Svona fréttamennska er bara til þess fallin að kúga fólk frá lýðræðislegri þátttöku. Ég ætla ekki að leggjast flöt fyrir þessu, þið getið gleymt því.“

Þetta er taktík, sem fyrrverandi forseti Bandaríkjanna notaði ítrekað. Kristrún gleymdi því reyndar að Fréttablaðið hafði einnig endursagt fréttina. Ef einhver er þeirrar skoðunar að þrír fjölmiðlar standi í persónulegu stríði gagnvart sér þá þarf sá hinn sami að líta í spegil og spyrja sjálfan sig gagnrýninna spurninga.

Annað dæmi er orðræða Gunnars Smára Egilssonar, fyrrverandi forstjóra og ritstjóra og núverandi forystumanns Sósíalistaflokks Íslands. Hann dregur fjölmiðla landsins í dilka eftir því hvar eignarhaldið liggur svona eins og blaðamenn viðkomandi miðla séu tilbúnir að fórna ærunni fyrir eigendurna. Hann ætti að vita betur en óhjákvæmilega rifjast upp orðasambandið „margur telur mig sig“. Það furðulega er samt barlómurinn um að sífellt sé verið að rifja upp og spyrja hann út í hans fortíð eins og til dæmis „lítið“ gjaldþrot Fréttatímans. eins og hann orðaði það. Viðskiptablaðið dregur í efa að þeim blaðamönnum, sem misstu vinnuna vegna gjaldþrotsins hafi þótt það „lítið“.

Alveg eins og með hinn nýliðann í pólitíkinni, sem fjallað hefur verið um, þá er ekkert óeðlilegt að Gunnar Smári sé spurður út í hans fortíð. Blaðamenn væru raunar ekki að sinna starfi sínu ef þeir myndu ekki spyrja mann, sem stýrði stærsta fjölmiðlaveldi Íslands, ferðaðist um á einkaþotum og var með milljónir króna í mánaðarlaun, hvort hann væri trúverðugur í sínu hlutverki sem forystumaður sósíalista. Það er fullkomlega eðlilegt að spyrja mann, sem hefur tekið 180 gráðu beygju í sínum lífsskoðunum, nánar út í ástæðuna. Ritstjórinn Gunnar Smári hefði hugsað sér gott til glóðarinnar og skrifað breiðsíður um þennan mann.

Ástæða er til að hafa áhyggjur af viðhorfi þessara væntanlegu fulltrúa þjóðarinnar á Alþingi til fjölmiðla. Svo ekki sé nú talað um viðhorf Katrínar Baldursdóttur, oddvita Sósíalistaflokksins í Reykjavík, til fjölmiðla. Í viðtali við Stundina sagðist hún vilja leggja ríkisstyrki til fjölmiðla niður. Gott og vel, það er gilt sjónarmið en það sem á eftir kom vekur ugg. Hún vill setja á fót styrktarsjóð fyrir blaðamenn en orðrétt sagði hún: „Segjum að þú sért blaðamaður og mundir vilja fá styrk hjá okkur, þá verður þú að gefa upp til hvers styrkurinn er. Hvað þú ætlar að rannsaka og hvað ekki.“ Því næst yrði metið hvort þetta væri þess virði að styrkja eða ekki. Ergo, einungis þeir sem eru þóknanlegir sósíalista-elítunni fá styrk.

Að lokum. Viðskiptablaðið hefur aldrei farið í felur með skoðanir sínar. Meginstefið í skoðanagreinum blaðsins er að frelsi í viðskiptum, og á sem flestum sviðum samfélagsins, sé hyrningarsteinn framfara.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.