*

laugardagur, 28. nóvember 2020
Óðinn
21. október 2020 08:15

Tryggingagjaldið og atvinnuleysið

Ef sá sem lagði fram frumvarpið um tryggingagjald fyrst var kallaður Skattmann hvað köllum við þá sem ráða nú?

Hvar er lækkun tryggingagjaldsins?

Veturinn sem brátt mun ganga í garð verður mörgum afar erfiður. Atvinnuleysi, og þá er tekið tillit til minnkaðs starfshlutfalls, var 19,6% í september, er spáð að fari í 19,8% í október og fari yfir 20% fyrir áramót. Verst er ástandið á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysið er nær 25% en slíkar tölur hafa ekki áður sést á íslenskum vinnumarkaði.

Atvinnuleysi er eitt mesta áfall sem nokkur maður getur orðið fyrir auk þess sem kostnaður hins opinbera af atvinnuleysi er gríðarlegur. Það er því mikilvægt að allt sé gert til að koma hjólum atvinnulífsins eins hratt af stað og mögulegt er.

Vaxandi deilur eru í samfélaginu um hvort sóttvarnaaðgerðir ríkisstjórnar Kára Stefánssonar séu skynsamlegar og hvort vandinn af þeim sé jafnvel stærri en lausnin. Það í hvorn hópinn menn skipa sér í þeirri deilu breytir engu um umfjöllunarefni Óðins í þessum pistli.

                                                                ***

Launaskattur frá 1965

Árið 1965 var lagt sérstakt gjald á launagreiðslur, svokallaður launaskattur. Launaskatturinn var 1% og lagðist ofan á launagreiðslur allra launþega í landinu, nema þeirra sem störfuðu í landbúnaði. Skatturinn rann til Byggingarsjóðs ríkisins sem síðar nefndist Húsnæðisstofnun ríkisins og enn seinna Íbúðalánasjóður.

Árið 1990 voru samþykkt lög um tryggingagjald. Tryggingagjaldið kom í stað launaskatts, lífeyristryggingagjalds, slysatryggingagjalds, vinnueftirlitsgjalds og iðgjalds í atvinnuleysistryggingasjóð. Hið nýja gjald var í upphafi 4,25% og tók til allra launa í landinu. Samkvæmt lögunum, sem tóku gildi í ársbyrjun 1991, var mótframlag atvinnurekanda ekki inni í álagningarstofni gjaldsins. Því var gjaldið í raun um 10% lægra þá en það er í dag, eða um 3,8%.

Tryggingagjaldið hækkar og hækkar

Í ár er tryggingagjaldið 6,35%. Þrátt fyrir að álagningarprósentan hafi lækkað nokkuð síðustu ár, en gjaldið fór hæst í 8,65% árin 2010 og 2011, þá hafa tekjur ríkissjóðs af gjaldinu haldið áfram að hækka og hækka. Tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldi voru tvöfalt hærri árið 2019 en árið 2000 á föstu verðlagi, en íbúum landsins fjölgaði um 28% á tímabilinu.

Augljóst er að þeir sem hafa farið með fjármál ríkisins undanfarin ár hafa komið þarna auga á vannýttan skattstofn, eins og þeir kalla svo oft tekjur eða eignir almennings í landinu, og gengið freklega fram í skattheimtunni. Það er auðvitað gömul og ný saga. En einmitt við þær aðstæður sem eru í dag þá er þessi tegund skattheimtu stórhættuleg velferð íbúa þessa lands, efnahagslífinu í heild og afkomu ríkissjóðs.

                                                                ***

Launahækkanir tekjulind ríkisins

Ástæða hækkunar tekna af tryggingagjaldinu, þrátt fyrir lækkandi álagningarprósentu eru stórhækkuð laun í landinu á síðustu árum. Þessi hærri laun, hærri lífeyrisframlög vegna Salek samkomulagsins og hærra tryggingagjald munu draga verulega úr vilja fyrirtækjanna í landinu til að ráða fólk til sín þegar sér fyrir endann á þessari mestu efnahagskreppu í yfir eitthundrað ár.

Einnig munu fjárfestar og frumkvöðlar halda að sér höndum að stofna ný fyrirtæki. Við erum því komin í vítahring sem mun valda því að atvinnuleysi verður lengur hátt en ella með tilheyrandi ógæfu fyrir hinn venjulega launþega í landinu.

Þegar rauntölur úr ríkisreikningi eru skoðaðar frá 2000-2019 þá vekur athygli hversu lítill hluti tryggingagjaldsins rennur í atvinnuleysistryggingasjóð. Árin eftir hrun skera sig úr en framan af er atvinnuleysi mjög lágt.

                                                                ***

Kostnaður vegna fæðingarorlofs hefur hækkað mikið og samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að fæðingarorlof verði lengt í 12 mánuði og hámarksgreiðsla á mánuði fari í 600 þúsund krónur á mánuði. Heildarkostnaður á að verða 19,1 milljarður króna, sem er tæplega fimm milljörðum meira en árið 2019.

Stærsti hluti tryggingagjaldsins á þessu 20 ára tímabili rann í lífeyris- og slysatryggingar almannatryggingakerfisins. Tryggingagjaldið stendur undir stórum hluta þessara greiðslna. Það munu líklega líða ein 20 ár þar til hlutverk ríkisins verður orðið lítið við lífeyrisgreiðslur til ellilífeyrisþega og lífeyrissjóðirnir munu nær alfarið sinna því.

En á þessum tíma mun þjóðin eldast hratt og útgjöldin að öllu óbreyttu aukast. Á næsta ári er gert ráð fyrir 3% fjölgun ellilífeyrisþega samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2021, sem er svipað og síðustu ár. En útgjöldin aukast hraðar. Til að mynda hækkuðu lífeyris- og slysatryggingar um tæp 11% frá 2018 til 2019.

Aukin útgjöld til þessara málaflokka, fæðingarorlofs og lífeyris- og slysatrygginga, munu halda aftur af lækkun tryggingagjaldsins. Þessi útgjöld munu valda hærra tryggingagjaldi en ella og auka launakostnað fyrirtækjanna. Þau munu því síður ráða fólk til vinnu. Ríkið fær ekki tekjur af þessu fólki heldur hefur kostnað af því í formi atvinnuleysisbóta og ýmiss konar kostnaðar í velferðarkerfinu.

                                                                ***

Pólitíkusar missa tökin

Stjórnmálamenn hafa algjörlega misst tökin á útgjöldunum. Þessi vandi er heimatilbúinn. Um aldamótin voru allt aðrar hugmyndir ráðandi um skattheimtu og samneyslu en í dag, mun heilbrigðari og skynsamlegri. Átti þetta ekki við um einhvern einn sérstakan flokk heldur alla flokka.

                                                                ***

Höfum það í huga að sá sem lagði fram frumvarp til laga um tryggingagjald árið 1990 var Ólafur Ragnar Grímsson. Í dag er gjaldið 70-80% hærra en það var þegar Ólafur lagði frumvarpið fram. Eins og einhverjir muna fékk Ólafur viðurnefnið Skattman. Hvað eigum við að kalla þá sem nú ráða?

 

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.