*

miðvikudagur, 8. júlí 2020
Óðinn
28. janúar 2019 13:30

Tunglferðir Kristjáns Í hvalnum og VG

Undarleg umræða í kjölfar skýrsla Hagfræðistofnunar um hvalveiðar.

Hvalur gæðir sér á spriklandi síld
Aðsend mynd

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gaf á dögunum út skýrsluna Þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Umræðan um meginefni skýrslunnar, hvalveiðar við Íslandsstrendur, varð að algjöru aukaatriði þökk sé Ríkisútvarpinu, Guðmundi Inga Guðbrandssyni (taka verður fram að Guðmundur er umhverfisráðherra en ekki lengur framkvæmdastjóri Landverndar) og Katrínu Jakobsdóttir forsætisráðherra.

                                                                     ***

Það sem er hvað markverðast í niðurstöðu skýrslunnar, er hversu ótrúlega miklu af fiski hvalirnir torga á ári hverju og ósennilegt er að margir hafi áttað sig á magninu. Að mati Hagfræðistofnunnar (sem þó segir matið varfærnislegt) éta hvalir um sjöfalt meira af fiski en gervallur íslenski fiskiskipaflotinn nær að veiða og er hann þó sá fullkomnasti í heimi. Blessaðir hvalirnir éta samkvæmt þessu 2,9 milljónir tonna af fiski við Íslandsstrendur á ári, en að auki graðka þeir í sig 4,7 milljónum tonna af smokkfiski og ljósátu. Hagfræðistofnun telur afar líklegt að afránið hafi áhrif á fiskistofna við Ísland. Áhrifin megi bæði rekja til áts hvala á fiski og samkeppni hvala og fisks um fæðu, en rannsóknir benda til þess að hvalir hafi veruleg áhrif á aðra nytjastofna við Ísland. 

                                                                     ***

Margir hafa bent á að vegna friðunarstefnu á hvölum og ást almennings víða um heim (ekki síst í Bandaríkjunum þökk stórleik íslenska háhyrnings Keiko heitins í kvikmyndunum um hvalinn Willy), geti það skaðað viðskiptalega hagsmuni Íslendinga að veiða hvali.

                                                                     ***

Í skýrslunni er vitnað í eitt af meistaraverkum sjónvarpssögunnar, Kastljósþátt frá árinu 2009, þar sem Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., og Sigursteinn Másson, talsmaður Alþjóðadýraverndunarsjóðsins, voru viðmælendur Sigmars Guðmundssonar. Í viðtalinu sagði Sigursteinn að hvalveiðar myndu leiða til „verulegra vandræða fyrir efnahagslífið, ferðaþjónustuna og ímynd Íslands“. Kristján taldi hins vegar þvert á móti að veiðarnar yrðu til þess að fleiri erlendir ferðamenn legðu leið sína til Íslands.

                                                                     ***

Allir vita hvor þeirra félaganna reyndist sannspár um ferðamannafjölda í landinu, hvað sem orsakasamhenginu líður. Eftir sem áður bendir fátt, ef nokkuð, til þess að hvalveiðar frá 2009 hafi haft neikvæð áhrif á ferðamannastrauminn, svo nokkru nemi. Veikt gengi íslensku krónunnar, víðtæk umfjöllun um Ísland í erlendum fjölmiðlum, stóraukið flugsætaframboð og gosið í Eyjafjallajökli voru helstu áhrifavaldarnir.

                                                                     ***

Kristján sagði einnig í þættinum að samkvæmt tölum hvalaskoðunarfyrirtækjanna væri farþegafjöldinn á leið til tunglsins. Samkvæmt skýrslunni hefur aðsókn í hvalaskoðun aukist jafnt og þétt í takt við fjölgun ferðamanna, en hlutfallið hafi verið svipað 2017 og 2006. Það hafi hins vegar lækkað talsvert árið 2018 vegna vetrarveðurs allt árið.

                                                                     ***

Sigmar þáttastjórnandi spurði Kristján þá hvers vegna Íslendingar ættu að standa í deilum við flest ríki í kringum okkar vegna mjög óverulega fjárhagslegra hagsmuna. Þar var auðvitað litið hjá þjóðréttarlegum þætti málsins, lífsnauðsynlegum rétti Íslendinga til þess að nýta náttúruauðlindir sínar með ábyrgum hætti, heldur beindist spurningin að tekjum af hvalveiðum og Kristján svaraði því með sínum hætti. Skýrsla Hagfræðistofnunar tekur hins vegar af allan vafa um að hagsmunirnir eru gríðarlegir. Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 197 milljörðum króna árið 2017. Við blasir að þær tekjur gætu stóraukist ef hvalirnir ætu ekki fiskinn og æti hans í sama mæli.

                                                                     ***

Athygli vekur í þessu sambandi samtal Ríkisútvarpsins í gær við Grétar Rögnvarsson, skipstjóra á Jóni Kjartanssyni SU 111, sem gerður er út frá Eskifirði. „Þegar ég byrjaði loðnuveiðar fyrir 31 ári síðan þá var hending ef maður sá hval. Menn hópuðust saman til að horfa á þennan eina hval sem sást, eða tvo eða þrjá eða eitthvað. En núna sjáum við hval með allri ströndinni bara. Oft fyrir Norðurlandinu er þetta bara vandræðaástand að kasta nót. Það eru eiginlega svona meiri líkur en minni að þú lokir hval inni í nótinni þar sem hann er að gramsa í sig loðnu úr torfunum,“ segir Grétar. Sá vitnisburður segir ekki alla sögu, en hann segir sína sögu.

                                                                     ***

Óðinn telur skýrslu Hagfræðistofnunar mikilvægt málefnalegt innlegg í umræðu um hvalveiðar. Hins vegar voru mikil vonbrigði hvernig tveir ráðherra Vinstri grænna fjölluðu um skýrsluna og sýnir hvað stjórnmálaumræða á Íslandi er oft á tíðum grunnhyggnisleg og gagnslaus.

                                                                     ***

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í samtali við Ríkisútvarpið: „Það er auðvitað ákveðin gagnrýni, sem er þegar komin fram á hana, og þá sérstaklega á ýmsar ályktanir, sem eru dregnar um líffræðilegar og vistfræðilegar staðreyndir.“

                                                                     ***

Förum aðeins yfir gagnrýnina. Hagfræðistofnun fullyrðir að haft hafi verið gott og náið samband við Hafrannsóknastofnun og sérstaklega byggt á rannsóknum Gísla Víkingssonar. Gagnrýni Gísla gengur út að að Hagfræðistofnun gangi lengra við mat á áhrifum hvala á afrán (át) hvala á fiskistofnunum en hann teldi varlegt. Það eru eðlileg skoðanaskipti fræðimanna og nauðsynleg.

                                                                     ***

En eins og oft áður fjallar forsætisráðherra ekki um efnið – segir sína skoðun og stendur eða fellur með henni – heldur talar eins og íbygginn ráðuneytisstjóri, lætur ýmislegt í veðri vaka, en slær engu föstu.

                                                                     ***

Umhverfisráðherra tókst hins vegar að fara enn fjær aðalatriðum skýrslunnar og sakaði skýrsluhöfunda um að líkja náttúruverndarsamtökum almennt við hryðjuverkasamtök. Það er einfaldlega rangt og óskiljanlegt að fréttamaður Ríkisútvarpsins skuli ekki hafa rekið þvæluna ofan í ráðherrann, en af orðaskiptunum er ekki ljóst hvort aðeins annar eða hvorugur þeirra hefur lesið skýrsluna. Forsætisráðherrann tók síðar undir þessar rangfærslur.

                                                                     ***

Í skýrslunni var einfaldlega farið yfir sögulegar staðreyndir um samtökin Sea Shepherd og hryðjuverk þeirra á Íslandi, þegar meðlimir samtakanna sökktu tveimur bátum Hvals hf., og vísað til starfsemi þeirra síðan. Ekki er minnst á önnur náttúruverndarsamtök hvað þá að talað sé almennt um náttúruverndarsamtök í því samhengi, heldur aðeins bent á að mörgum ríkjum stæði ógn af samtökum sem fremdu hryðjuverk í nafni náttúruverndar. Sem er svolítið annað. En ef ráðherrarnir telja verknað Sea Shepherd í Reykjavíkurhöfn ekki hafa verið hryðjuverk væri gagnlegt að fá skilgreiningu þeirra á bæði hryðjuverkum og því sem þar átti sér stað.

                                                                     ***

Ríkisútvarpið hefur fengið nokkuð bágt fyrir nýju þáttaröðina Ófærð. Fyrri þáttaröðin kostaði skattgreiðendur um 400 m.kr. Óðinn leggur til að Ríkisútvarpið geri sérstaka þáttaröð með Kristján Loftsson í aðalhlutverki. Hún myndi kosta brota brot af kostnaði Ófærðar, ekki vera síðra skemmtiefni og áhorfendur myndu skilja hvert orð Kristjáns. Með eða án staurfóts.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.