*

laugardagur, 25. september 2021
Týr
12. september 2021 14:04

Tussufínt hjá Helga Magnúsi

Týr getur tekur undir það að hegðun Helga Magnúsar er óviðeigandi og ekki til þess fallin að auka tiltrú á réttarkerfinu.

Helga Magnús má sjá hér hægra megin á myndinni.
Haraldur Guðjónsson

Í byrjun apríl 2010 voru Sigríður Friðjónsdóttir og Helgi Magnús Gunnarsson skipuð í embætti ríkissaksóknara og vararíkissaksóknara. Þau höfðu þá mánuðina á undan árangurslaust reynt að koma fyrrverandi forsætisráðherra landsins í fangelsi. Helgi Magnús hafði frá árinu 2007 veitt efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra forstöðu en þegar hann tók að sér saksókn í Landsdómsmálinu haustið 2010 tók Alda Hrönn Jóhannsdóttir við deildinni og hófst handa við nauðsynleg hreinsunarstörf.

* * *

Það líkaði Helga Magnúsi illa og á fundi ári síðar kallaði hann Öldu Hrönn „kerlingartussu“ á fundi með starfsmönnum efnahagsbrotadeildar. Alda Hrönn kvartaði vegna þessara ummæla til Sigríðar Friðjónsdóttur ríkissaksóknara, sem taldi að þau vörðuðu ekki við lög en vísaði málinu til Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, hvar fyrir var Jón H.B. Snorrason, góður vinur Helga Magnúsar, sem taldi ekki ástæðu til að aðhafast og vísaði málinu frá.

* * *

Í byrjun árs 2012 átti sér stað atvik í Héraðsdómi Reykjaness, þar sem þekktur brotamaður var sakaður um að hafa hrækt á dómara og kallað hana „tussu“. Fyrir þetta fékk maðurinn sex mánaða dóm, enda mat dómur það sem svo að slíkt orðfæri fæli í sér móðgun og væri til þess fallið að meiða æru dómarans. Niðurstaðan er sú að hátt settir embættismenn mega kalla kvenkyns kollega sínar „tussur“ en aðrir ekki.

* * *

Nú, tæpum áratug síðar, krefjast Stígamót og aðrir baráttuhópar þess að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra vísi Helga Magnúsi úr embætti fyrir hegðun sína á samfélagsmiðlum í kjölfar umræðu um kynferðisbrot. Týr getur tekur undir það að hegðun Helga Magnúsar er óviðeigandi og ekki til þess fallin að auka tiltrú almennings á því hvernig réttarkerfið tekur á kynferðisbrotum. Aftur á móti væri það afturför í réttarfari ef ráðherra tæki upp á því að tugta saksóknara til. Í stað þess að herja á dómsmálaráðherra ættu Stígamót að beina kvörtun sinni til yfirmanns Helga Magnúsar, Sigríðar Friðjónsdóttur. Það er þó afar ósennilegt að hún aðhafist í málinu.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.