*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Heiðrún Lind Marteinsdót
13. júlí 2017 17:01

Tvær hliðar

Hafi stjórnendur peningamála langtímahagsmuni þjóðar í fararbroddi, er frekari lækkun vaxta skynsamlegt skref til að vinna gegn innflæði gjaldeyris og styrkingu krónunnar.

Haraldur Guðjónsson

Tvær athyglisverðar fréttir voru áberandi í vikunni. Önnur þeirra var um hótelstjóra í Keflavík sem sagði að erlendur ferðaheildsali hefði afbókað 40 hópa í vetur, en þeir höfðu boðað komu sína til Keflavíkur. Hann bætti því við að þessi ferðaheildsali væri hættur að selja ferðir til Íslands og beindi ferðamönnum annað, eins og til dæmis til Noregs og Írlands. Hótelstjórinn kenndi krónunni um.

Hin fréttin var um uppsafnaða ferðaþörf Íslendinga. Fyrstu sex mánuði þessa árs flugu tæplega 290 þúsund Íslendingar frá Keflavíkurflugvelli. Það er tæplega 15% aukning frá fyrra ári og aldrei hafa jafnmargir Íslendingar farið til útlanda samkvæmt fréttinni. Íslendingar þakka krónunni.

Þessar fréttir eru náskyldar. Útlendingur, sem þarf að kaupa íslenskar krónur til að greiða fyrir neyslu á Íslandi, greiðir hana dýru verði; fær fáar krónur fyrir sinn gjaldeyri. Íslenska fjölskyldan fær hins vegar ríflega í sinn hlut þegar hún kaupir þennan sama gjaldeyri til að nota á ferðum sínum erlendis.

Að sjálfsögðu er sterkt gengi alltaf gott fyrir einhvern, en það er skammgóður vermir. Hátt gengi krónunnar hjálpar sannarlega til við að halda vöruverði niðri á Íslandi. En ef öflugasti drifkrafturinn í efnahagssveiflunni núna, ferðaþjónustan, er farinn að líða fyrir sterkt gengi; eins og reyndar allar útflutningsgreinar, erum við þá á réttri leið þegar til lengri tíma er litið?

Væntanlega mælir því enginn í mót að sú hagfræðikenning sem segir að gengið muni að lokum ná jafnvægi, stenst. Jafnvægi þetta felst í blómlegum útflutningi og skynsamlegum innflutningi. En ef ekkert verður að gert verða dagarnir þangað til langir og dýrkeyptir. Hafi stjórnendur peningamála langtímahagsmuni þjóðar í fararbroddi, er frekari lækkun vaxta skynsamlegt skref til að vinna gegn innflæði gjaldeyris og styrkingu krónunnar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is