*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Leiðari
11. maí 2018 08:01

Tveggja blokka tal

Þrátt fyrir að sextán flokkar séu framboði í borginni þá stendur val kjósenda í raun á milli tveggja blokka.

Haraldur Guðjónsson

Reykvíkingar hafa val. Kannski of mikið val því í sveitarstjórnarkosningunum eftir rúmar tvær vikur geta kjósendur í Reykjavík valið milli sextán framboða, tvöfalt fleiri en í kosningunum 2014. Þrátt fyrir þetta mikla val er ýmislegt sem bendir til þess að valið standi í rauninni aðeins milli tveggja blokka: Samfylkingarinnar og núverandi meirihluta undir forystu Dags B. Eggertssonar og minnihlutans undir forystu Sjálfstæðisflokksins og Eyþórs Arnalds.

Blokkirnar mynduðust í grunninn í kosningunum 2010 þegar Jón Gnarr og Besti flokkurinn settu pólitíska landslagið í borginni á hliðina. „Á sama tíma og ótal Evrópulönd og fleiri lönd kjósa hægri-þjóðernissinna eftir umrótið sem verður eftir fjármálahrunið þá kjósum við Jón Gnarr, sem kemur á ró og festu í stjórn borgarinnar,“ sagði borgarstjórinn kíminn í Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Síðan þá hefur núverandi meirihluti, sem samanstendur af þrotabúi Besta flokksins, Pírötum, VG og Samfylkingu verið við stjórnvölinn. Slitum á þrotabúinu er reyndar lokið því Björt framtíð býður ekki fram. En þrátt fyrir það benda kannanir til að það sem eftir stendur af meirihlutanum haldi.

Hinum megin við Tjarnargötuna er svo minnihlutinn: brotakenndur Sjálfstæðisflokkur sem hefur leitað að leiðtoga í borginni allt frá því að Halldór Halldórsson sigraði í prófkjöri í Reykjavík fyrir síðustu kosningar – og sennilega lengur. Oddvitinn Eyþór Arnalds hentist fram á sjónarsviðið, rótburstaði leiðtogaprófkjör í Valhöll og vísaði sitjandi borgarfulltrúum flokksins á dyr, öllum nema einum. Sjálfstæðisflokkurinn fer fyrir fylkingu sem samanstendur af honum sjálfum og að minnsta kosti tveimur af þremur Framsóknarflokkunum í framboði – frumgerðinni og Miðflokknum. Meirihlutinn býður Reykvíkingum upp á meira af því sama – þéttingu byggðar, almenningssamgöngur á kostnað einkabílsins og andstöðu við útþenslu borgarinnar. Minnihlutinn virðist stefna í gagnstæða átt.

Hann hefur auðvitað af nógu að taka í gagnrýni sinni á meirihlutann. Húsnæðisuppbygging hefur gengið hægt með tilheyrandi verðhækkunum, erfiðlega gengur að halda leikskólum opnum sökum manneklu og allir aðrir en Vesturbæingar eru lengur í og úr vinnu en áður.

Könnun eftir könnun bendir hins vegar til að meirihlutinn haldi. Svona rétt svo. Í nýlegri könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið mátti sjá áhugaverðar tölur um hvernig kjósendur greiddu atkvæði fyrir fjórum árum og hvernig fólk hyggst kasta atkvæði sínu nú. Í stuttu máli ætla þeir sem kusu meirihlutablokkina síðast að kjósa einhvern flokk meirihlutans aftur, þótt hlutföllin breytist. Sömu sögu er að segja af minnihlutanum. Fylgið sem Framsókn missir fer þannig að mestu til eftirmyndarinnar og Sjálfstæðisflokks og fylgið sem Sjálfstæðisflokkurinn missir fer til Miðflokksins.

Viðreisn virðist í fljótu bragði vera einn flokka sem ekki er með góðu móti hægt að stilla upp í kosningablokk. Af mönnum og málefnum að dæma virðist þó mega gera ráð fyrir að hugur þeirra standi frekar til þess að kítta meirihlutann frekar en að sitja í fjögur ár í því sem hlýtur að vera leiðinlegasta starf í heimi: í minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.

Staðan í borginni virðist því vera í járnum og valið því í raun ekki standa um nema tvo flokka og fylgitungl þeirra.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.