Nú þegar heimsfaraldurinn er í rénun kemur skýrt í ljós hve lánsöm við erum sem búum á Íslandi. Hagsæld er meiri og almennari en víða og skv. áliti OECD frá síðustu viku er góður bati fram undan. Í uppbyggingunni þarf að fjárfesta myndarlega í innviðum landsins, til að mynda svo að næsti kafli ferðaþjónustunnar í landinu verði arðbærari en fyrr, fremur byggður á gæðum en magni.

Í slíku verkefni þurfa margir að leggja hönd á plóg og ekki bara við Íslendingar einir. Við eigum vissulega gilda sjóði sjálf. Það er til dæmis mikil blessun að íslenska lífeyriskerfið er með því sterkasta í heimi, byggt á að hver kynslóð fjármagni eigið ævikvöld fyrir fram með því að safna í sjóði áratugum saman. Mörg önnur lönd hafa sýnt minni forsjálni og fela vinnandi fólki á hverjum tíma að miklu leyti að sjá eldri borgurum sínum farborða gegnum skattkerfið. Eftir því sem þjóðir heims eldast verður slíkt fyrirkomulag sífellt þyngra fyrir hinn vinnandi mann og lítið má út af bregða til að kerfið verði ósjálfbært.

Fjárfesting okkar í útlöndum

Ávaxta þarf hina sterku sjóði okkar, eins og gefur að skilja. Hefur því markmiði að talsverðum hluta verið mætt með fjárfestingum í íslensku atvinnulífi. Það er gott og blessað og styrkir hlutabréfamarkað okkar. Sjóðirnir hafa hins vegar markvisst verið að reyna að auka þátt erlendrar fjárfestingar sinnar, svo að eggin séu ekki öll í sömu körfu. Berlega kom í ljós í kjölfar fjármálakreppunnar 2008 hve miklu skipti að eiga erlendar eignir í bland. Sem dæmi má nefna að í Hollandi er álíka sterkt uppsöfnunarkerfi lífeyris og hér, en munurinn er sá að um 80% eigna þessara sjóða liggja utan Hollands. Markmiðið er skýrt; að dreifa áhættu, skapa fjarlægð og hlutlægni í fjárfestingum, minnka líkur á bólumyndun í Hollandi og draga úr einsleitni í eignarhaldi hollenskra fyrirtækja. Svipuð stefna er við lýði hjá olíusjóði Norðmanna.

Að mínu mati er því heilbrigt stefnumið að okkar eigin sjóðir eignist hlutfallslega sífellt meira utan landsteinanna. Að sjálfsögðu þarf slík þróun að vera byggð á góðum greiningum, svo sem á áhættuveginni von um ávöxtun hverju sinni, samsetningu eignasafns hvers sjóðs og samanburði við aðra kosti í boði. Vextir í heiminum og á Íslandi þar með talið eru í sögulegu lágmarki, sem flækir fjárfestingarstefnu sjóðanna frá því sem var og eykur mikilvægi skarprar endurstillingar.

Erlend fjárfesting á Íslandi

Á móti því að hlutfallslega dregur úr þunga innlendra eigna hefði það ýmsa kosti fyrir okkar eigin hagkerfi ef bein erlend fjárfesting ykist hér á landi. Slík inntaka fjár dreifir áhættu og dempar sveiflur í atvinnulífinu. Oft fylgir sérþekking með í tilteknum fjárfestingum yfir landamæri og jafnvel bættur agi í verkefnum. Þá eru sérhæfðir erlendir sjóðir oft svo risavaxnir á okkar mælikvarða að þeir leitast við að koma miklu fé hratt í vinnu í hverri aðgerð. Uppbygging getur því orðið hraðari með þátttöku þeirra, í samanburði við taktinn sem innlendir fjárfestar einir kysu.

Innviðir liggja mjög vel við erlendri fjárfestingu. Fyrir fjármálakreppuna var hér talsvert um vakurt erlent fé í vaxtamunarviðskiptum (e. carry trade) og öðrum fjármálagerningum, sem auðvelt var að leysa snögglega upp. Vextir voru helsta útflutningsvara okkar um hríð. Slíkt kunni ekki góðri lukku að stýra, enda hvarf féð hraðar en það kom, með tilheyrandi raski fyrir gjaldeyrismarkað okkar og hagkerfið í heild. Þessu er öfugt farið með innviði. Brýr, jarðgöng, hús, flugvellir, lagnir, virkjanir og verksmiðjur hverfa ekki úr landi þótt sá sem fjármagnar slík verkefni kunni skyndilega að hafa áhuga á að fá fé sitt til baka.

Fjarskiptafyrirtækin Nova og Sýn tilkynntu nýlega að þau hefðu samið um sölu hluta innviða sinna til erlendra aðila. HS Orka er að hluta í erlendri eigu, í félagi við íslenska lífeyrissjóði. Iðnaður víða um land sem byggir á hreinni innlendri orku er að stórum hluta í erlendri eigu. Í Danmörku keypti sérhæfður ástralskur innviðasjóður ásamt dönskum lífeyrissjóðum stærsta fjarskiptafélag landsins, TDC. Yfirlýst markmið kaupendanna var að eiga til langs tíma nethluta fyrirtækisins, innviðina sjálfa, en selja frá sér þjónustuþátt samstæðunnar.

Sókn í erlenda fjárfestingu þarf ekki að vera annaðhvort eða. Sum verkefni eru rakin fyrir blandaðan hóp innlendra og erlendra fjárfesta. Víða er samvinna um uppbyggingu innviðanna sjálfra, en kröftug samkeppni margra keppinauta um þjónustuna sem veitt er þar ofan á. Nú þegar við höldum upp úr öldudalnum er erlend langtímafjárfesting vænlegur hluti af lausninni landsmönnum til handa.

Höfundur er forstjóri Símans.