Sértrúarsöfnuðir hafa verið nokkuð á milli tannanna á fólki á undanförnum misserum en einhverra hluta vegna hefur stærsti sértrúarsöfnuður landsins ekki verið tekinn fyrir, fyrr en nú. Það er sennilega hvergi meiri költ stemning en í íslenskum bergmálshelli sjálfskipaðra réttlætisriddara á Twitter. Á þeim vettvangi er skipst á réttum skoðunum og lélegum bröndurum auk þess sem þar er gjarnan barist gegn ofbeldi með ofbeldi. Á degi hverjum fer fram pissukeppni í heilagleika með hógværu sjálfshóli þar sem hellisbúarnir klappa hver öðrum á bakið fyrir góðmennsku og réttsýni. Á forritinu má smána, áreita og dæma fólk til útskúfunar sem stendur utan safnaðarins. Réttarríkið er látið víkja fyrir réttlæti, eins og söfnuðurinn skilgreinir það á hverjum tíma.

Ef einhver misstígur sig eða opinberar óæskilegar skoðanir, hvort heldur sem er á forritinu eða á öðrum vettvangi, mætir allt gengið og sameinast í þórðargleði sinni á meðan hinn seki er hýddur á stafrænu torgi. Eina undantekningin á refsistefnunni eru safnaðarleiðtogarnir, en þeim fyrirgefst allt vegna þess hve óraunhæft það væri að gera kröfu um að þeir fylgdu eigin boðskap. Syndir þeirra mega ekki varpa skugga á æðri tilgang þeirra og hina heilögu baráttu vinstrisins. Leiðtogarnir eru þeir einu í íslensku samfélagi sem mega vera ófullkomnir.

Mikið uppnám varð í bergmálshellinum í vikunni eftir að fregnir bárust af því að bílasali nokkur vestanhafs hefði fest kaup á forritinu og ætlaði sér meðal annars að liðka fyrir tjáningarfrelsi notenda forritsins. Óæskilegt fólk með rangar skoðanir mun nú geta látið allt vaða á súðum og blómin í bergmálshellinum sjá fram á myrka tíma, þar sem óhreinu börnunum hennar Evu verður hleypt inn í stafrænu paradísina. Í öngum sínum veltir góða fólkið fyrir sér hvert það geti flúið með upphrópanir sínar í öruggt skjól.

* * *

Hreinu sálirnar þurfa þó vart að örvænta. Þegar Trump og aðrir af sama sauðahúsi snúa aftur á Twitter verður Parler að líkindum í leit að nýjum kúnnahóp. Góða fólkið getur ef til vill fundið sér samastað þar sem áður var athvarf hinna óæskilegu.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .