*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Leiðari
29. janúar 2021 14:03

Tylli­daga­gagn­sæið

Verði afstaðan að allt sé í himnalagi er ljóst að blaðinu verður sá kostugur nauðugur að íhuga alvarlega að stefna forsætisnefnd fyrir dóm.

Haraldur Guðjónsson

Hvað skal gera þegar þeim sem setur lögin gengur í besta falli laklega að fylgja lögum og grundvallarreglum hins opinbera? Þetta er spurning sem Viðskiptablaðið hefur staðið frammi fyrir síðustu vikur.

Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Á fjögurra ára fresti hið minnsta, stundum oftar, hafa landsmenn kost á því að velja einstaklinga sem þeir bera traust til að boða eitt og banna annað og verja sameiginlegum sjóðum með skynsamlegum hætti. Þaðan taka stjórnvöld við boltanum og hrinda samþykktum málum í framkvæmd. Svo er mælt í æðstu lögum landsins.

Það er þó ekki þannig að við þau verk hafi þessir tveir armar ríkisvaldsins frítt spil. Þeim, líkt og borgurunum, ber að fara eftir lögum í einu og öllu í störfum sínum. Þótt dómendur hafi lokaorðið um það hvort lögum hafi verið fylgt hefur fjölmiðlum í gegnum tíðina verið ætlað hlutverk litlu stúlkunnar sem bendir á að keisarinn sé ekki í neinum fötum.

Það verkefni hljómar sennilega létt og löðurmannlegt en reynist oftar en ekki erfiðara í verki en orði. Ein helsta ástæða þess er að kjörnir fulltrúar og starfsfólk stjórnvalda eru misviljug að ræða við fjölmiðla eða afhenda þeim gögn. Jú, vissulega brosir fólk í myndavélina þegar klippa þarf á borða eða taka skóflustungur en spurningar um óskilvirkni og óráðsíu báknsins eru ekki jafn vinsælar.

Dæmisögur af upplýsingatregðu stjórnvalda urðu meðal annars til þess að hér á landi voru sett upplýsingalög. Er þeim meðal annars ætlað að „styrkja aðhald fjölmiðla og almennings að opinberum aðilum“ og „traust almennings á stjórnsýslunni“. Í þeim tilfellum sem stjórnvöld þverskallast við að afhenda gögn og skjöl getur almenningur leitað til sjálfstæðrar og óvilhallrar úrskurðarnefndar sem heggur á Gordíonshnútinn.

Fyrir rúmum átján mánuðum ákvað þingið að það skyldi nú fara á undan með góðu fordæmi. Stjórnsýsla þingsins, sem áður var utan ógnarvalds upplýsingalaganna, er nú aðeins tölvupósti frá almenningi. Ekki þótti heppilegt að sjálfstætt framkvæmdarvald sæi um að tryggja að leikreglum væri fylgt. Þess í stað var ákveðið að þingmenn yrðu dómarar um störf skrifstofu þingsins.

Undanfarin misseri hefur Viðskiptablaðið reynt að fá afrit af greinargerð um starfsemi Lindarhvols ehf. sem send var þinginu sumarið 2018. Innanhúss hefur félagið staðið undir uppnefni sínu, það er „Leyndarhvoll“, því þingmenn fá ekki að sjá umrætt skjal. Ekki einu sinni þegar þeim er ætlað það hlutverk að vega og meta hvort heimilt sé að afhenda öðrum það.

Viðskiptablaðið, líkt og aðrir, verður stundum að bíta í það súra epli að einhverjar upplýsingar í skjölum stjórnvalda séu þess eðlis að rétt sé að þær komi ekki fyrir augu almennings. Sú niðurstaða verður þó að styðjast við lög, bæði hvað varðar efni og málsmeðferð í aðdraganda hennar. Það tíðkast til að mynda að hinir ýmsu nefndarmenn víki af fundi þegar til meðferðar eru mál sem varða þá sjálfa. Hjá forsætisnefnd Alþingis er lagaskrifstofa þingsins boðuð á fund nefndarinnar þegar til meðferðar er kæra sem beinist að lagaskrifstofunni.

Í hvert sinn sem handhöfum framkvæmdarvalds verður á í messunni hefur alþjóð mátt treysta því að kjörinn fulltrúi láti vanþóknun sína í ljós. Frösum um mikilvægi lýðræðis og opinberrar umræðu er þá fleygt fram meðan ógagnsæi og óvönduðum stjórnsýsluháttum er bölvað. Spurning er hvort slík orðræða á upp á pallborðið þegar það er þingið sjálft sem gerir obbossí. Í það minnsta tók langa stund að fá þingið til að upplýsa um hvaða þingmenn fengu mestan bensínpening frá skattgreiðendum.

„Vont er þeirra ránglæti, verra er þeirra réttlæti,“ sagði Jón Hreggviðsson um herraþjóðina í Íslandsklukku skáldsins. Í huga ritstjórnar er hér á ferðinni prinsippmál. Sá sem setur reglurnar ætti að sjá sóma sinn í að fylgja þeim. Sökum þess hefur blaðið sent forsætisnefnd beiðni um endurupptöku málsins, þótt efnisleg niðurstaða kunni að vera óbreytt, í stað þess að höfða ógildingarmál þegar í stað. Verði afstaðan að allt sé í himnalagi er ljóst að blaðinu verður sá kostugur nauðugur að íhuga alvarlega að stefna forsætisnefnd fyrir dóm.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.