*

mánudagur, 17. júní 2019
Huginn og muninn
2. febrúar 2019 10:02

Týndu tölvupóstarnir

Það eru ekki ætluð sakarefni sem eru alvarlegust, heldur ætluð yfirhylming og ónákvæmni í svörum.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Haraldur Guðjónsson

Það er hart sótt að Degi B. Eggertssyni borgarstjóra þessa dagana, enda eru hann og hirð hans í Ráðhúsinu nánast ein um að finnast Braggamálinu lokið. Þar hafa menn auðvitað horft til þess að innri endurskoðun borgarinnar tók enga afstöðu til útborgaðra reikninga vegna braggans góða, hvort þeir væru vel grundvallaðir og þjónustan eðlilega verðlögð eða tilhæfulausir og vel smurðir.

Það er þó ekki síður vegna hinna týndu tölvupósta, sem málið ætlar að reynast borgarstjóra erfitt. Bæði vegna þess að þeim (og aðeins þeim sem lutu að bragganum) skyldi hafa verið eytt á hentugasta tíma, en auðvitað ekki síður vegna þess að borgarstjóri og forseti borgarstjórnar voru ekki fullkomlega hreinskilin um þá. Það er eins og í velflestum pólitískum skandölum, að það eru ekki ætluð sakarefni sem eru alvarlegust, heldur ætluð yfirhylming og ónákvæmni í svörum að ekki sé meira sagt.

Óróleika Dags vegna þessa vandræðamáls má vel merkja af því að hann vill engin viðtöl veita um málið líkt og DV hefur upplýst og raunar bannað hinni fjölmennu upplýsingadeild Ráðhússins að veita nokkur svör þar að lútandi í síma. Í gær ræskti bróðir borgarstjórans, hagfræðingurinn Gauti B. Eggertsson, sig svo á Facebook og taldi gagnrýnendur bróður síns þjást af Dagsheilkenninu, sem sagt bilaða.

Sálfræðiaðstoð

Það er þó víðar í stjórnmálunum sem menn telja sálgæslu þörf. Píratinn Björn Leví Gunnarsson treystir sér þannig vart til þess að sækja þingnefndarfundi þar sem kjaftforu munkarnir af Klaustri sitja, en hann kveðst upplifa það sem svo að þar séu ofbeldismenn á ferð og þykir eðlilegra að gerendur víki en þolendur og fór við svo búið af nefndarfundi umhverfis- og samgöngunefndar, sem Bergþór Ólason veitir forstöðu.

Í framhaldi af því velti hann fyrir sér hvort sálfræðiaðstoðar þyrfti með til þess að nefndarfundir gætu gengið eðlilega fyrir sig. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Píratar telja sig þurfa á aðstoð sálfræðings að halda til þess að geta sinnt þingstörfum, sem vekur ýmsar spurningar um erindi þeirra.

 Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is