*

mánudagur, 27. janúar 2020
Týr
25. október 2015 10:29

Týr: Skráðu og óskráðu reglurnar

Eru það einungis starfsmenn einkarekinna bankastofnana sem þurfa að fylgja óskráðum reglum í sínum störfum?

Haraldur Guðjónsson

Á dögunum voru þau Sigurjón Árnason og Sigríður Elín Sigfúsdóttir dæmd sek af Hæstarétti fyrir umboðssvik í tengslum við lán til einkahlutafélagsins Imon í október 2008, en Sigurjón var þá annar bankastjóra bankans og Sigríður Elín framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs. Segir í dómnum orð- rétt: „… fóru ákærðu ekki út fyrir heimild sína eftir reglum bankans þegar þau ákváðu að veita félaginu lánið, en á hinn bóginn bar þeim að líta til annarra reglna, jafnt skráðra sem óskráðra, er þau tóku þessa ákvörðun.“ Á öðrum stað segir svo að „… hvorugt þeirra var með brotunum að hygla sér eða öðrum sem þeim tengdust“.

* * *

Með öðrum orðum voru þau dæmd fyrir brot á auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga, nánar tiltekið fyrir umboðssvik, þrátt fyrir að hafa ekki farið út fyrir heimild sína eftir reglum bankans og að hafa ekki haft auðgunarásetning í huga þegar meint brot var framið. Týr ætlar ekki að gerast svo djarfur að halda því fram að þarna hafi Hæstiréttur farið fram úr sér, en þessi dómur er engu að síður áhugaverð lesning.

* * *

Hann verður ekki síður áhugaverð- ari þegar haft er í huga hvernig farið var með mann sem braut af sér í öðrum banka, þótt fjárhæðir í því broti væru vissulega lægri. Starfsmaður Seðlabanka Íslands stundaði umfangsmikil verðbréfaviðskipti í eigin þágu, sem brýtur gegn öllum skráðum reglum um innherjaviðskipti, eins og Arnar Sigurðsson bendir á í pistli sínum á Eyjunni. Starfsmaðurinn var ekki kærður til lögreglu af Seðlabanka, sem ekki hefur verið hræddur við að gefa slíkar kærur út, ekki gaf og sérstakur saksóknari út ákæru í málinu. Honum var hins vegar vikið úr starfi – en vægari viðurlög er vart hægt að hugsa sér.

* * *

Ekki stóð Seðlabankinn hins vegar betur en svo að uppsögninni að starfsmanninum voru dæmdar bætur í Hæstarétti fyrir ólöglega uppsögn. Þrátt fyrir að Hæstiréttur hefði talið að hann hefði gerst brotlegur við tvær greinar í lögum um opinbera starfsmenn hefði ekki mátt víkja honum úr starfi nema að undangenginni áminningu. Engar óskráðar reglur eða viðmið þvældust fyrir Hæstarétti í það skiptið, eða eru það einungis starfsmenn einkarekinna bankastofnana sem þurfa að fylgja óskráðum reglum í sínum störfum?

Stikkorð: Seðlabanki Íslands
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.