*

mánudagur, 13. júlí 2020
Bjarni Ólafsson
24. júlí 2016 10:44

Tyrkland úr NATO?

Ef vesturlandabúar eru ekki tilbúnir að verja ríkisstjórn Erdogans má spyrja hvort Tyrkland eigi heima í NATO.

Tyrkland hefur lengi verið bandamönnum sínum erfiður ljár í þúfu, en óhætt er að segja að nánast reglubundin valdarán hersins þar í landi hafi gert öðrum Nató- ríkjum erfiðara fyrir en ella að verja tilverurétt Tyrklands í hernaðarbandalagi vestrænna lýðræðisþjóða. Vegna nálægðarinnar við Sovétríkin og síðar Rússland umbáru Vesturlönd hegðun í Tyrklandi sem ekki hefði verið umborin annars staðar, en nefna má sem dæmi að stærsta kjarnorkuvopnabúr Nató er í Incirlik í Tyrklandi.

Það hlýtur hins vegar að segja sig sjálft að það eru takmörk fyrir því hversu langt er hægt að teygja fullyrðinguna „fjandmaður fjandmanns míns er vinur minn“. Vissulega þurfa lýðræðislega kjörin stjórnvöld í hvaða ríki sem er að bregðast við því þegar hermenn gera tilraun til valdaráns, en harkaleg viðbrögð Tayyips Erdogan Tyrklandsforseta hljóta að valda áhorfendum áhyggjum.

Vesturlönd hafa verið tilbúin að horfa í gegnum fingur sér varðandi Tyrkland. Óttinn hefur verið sá að ef ekki væri fyrir veruna í Nató þá gæti Tyrkland flúið í arma Sovétsins eða jafnvel orðið róttækri útgáfu íslams að bráð. Nú er hins vegar svo komið að Erdogan hefur sópað í burtu tugum þúsunda opinberra starfsmanna, dómara, saksóknara, lögreglumanna og kennara og þarf enginn að velkjast í vafa um að fleira ráði þessu en valdaránstilraunin ein. Listar yfir óæskilega einstaklinga hafa greinilega legið í skúffum Erdogans um nokkurt skeið.

Spurningin sem alltaf þarf að svara þegar varnarbandalög eru metin er það hvort líklegt sé að þegnar viðkomandi landa séu tilbúnir að heyja stríð til varnar bandamanninum. Efast má um að margur Vesturlandabúinn sé tilbúinn að samþykkja hernaðarátök til að verja ríkisstjórn Erdogans. Þá er komið að því að spyrja hvort Tyrkland eigi nokkuð heima í Nató.

Stikkorð: NATO Tyrkland Valdarán Erdogan.
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.