Í lok janúarmánaðar rak Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, forstjóra hagstofu landsins. Ástæðan fyrir brottvikningunni var sú að forsetinn var ekki sáttur við verðbólgumælingar hagstofuyfirvalda. Samkvæmt opinberum mælingum mælist verðbólga nú um 40% í Tyrklandi. Fæstir taka þó mark á þeirri tölu og mat sérfræðinga sem fylgjast með gangi efnahagsmála í landinu er að verðbólgan sé í raun margfalt hærri.

Óðaverðbólgan í Tyrklandi er bein afleiðing þeirrar efnahagsstefnu sem Erdogan hefur rekið. Erdogan aðhyllist ekki viðteknar kenningar um stjórn peningamála. Hann telur að stýrivaxtahækkanir gagnist ekki í baráttunni fyrir verðstöðugleika. Þvert á móti er hann sannfærður um lágir vextir leiði til verðstöðugleika. Hann hefur beitt sér fyrir þessari peningastefnu á undanförnum árum. Afleiðingarnar voru fyrirsjáanlegar: Gengi tyrkneska gjaldmiðilsins hefur hríðfallið samhliða kröftugum vaxtalækkunum á undanförnum misserum og verðbólga er í hæstu hæðum.

Á þetta er minnst hér til að minna á þörfina á ábyrgri umræðu um efnahagsmál. Dæmin sýna að óábyrgt tal sem ekki er mætt með gagnrökum getur á endanum orðið að stefnu stjórnvalda. Þau spor sem Erdogan hefur markað á tyrkneska peningamálastefnu hræða í þeim efnum.

Rétt er að minna á að áherslur Erdogans við stjórn peningamála eiga sér fylgjendur hér á landi. Þannig hafa sumir fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar fullyrt að vaxtahækkanir valdi verðbólgu í stað þess að koma böndum á hana. Ýmsir álitsgjafar hafa tekið undir þessi sjónarmið í umræðu um efnahagsmál.

Undanfarnar vikur hafa svo tveir ráðherrar í ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna stigið fram og talað fyrir undarlegum hugmyndum. Á dögunum lagði Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra til að viðskiptabankarnir yrðu skattlagðir sérstaklega og með kröftugum hætti til að styðja við heimilin. Eins og fjallað var um á þessum vettvangi fyrir viku þá gefur arðsemi af rekstri bankanna í fyrra og árin þar á undan hvorki tilefni til umræðu um „ofurhagnað" né sérstaka skattlagningu í þeim efnum. Í raun er ábyrgðarleysi að leggja til slíka skattlagningu til þess að reyna á vega á móti áhrifum vaxtahækkana Seðlabankans til að spyrna gegn vaxandi verðbólgu.

Í vikunni steig svo Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra fram og óskaði eftir að Hagstofan tæki húsnæðisliðinn úr vísitölu neysluverðs. Þetta ákall er með það miklum ólíkindum að stjórnendur Hagstofunnar fundu sig knúna að senda frá sér fréttatilkynningu:

„Mikilvægt er að hafa í huga, þegar rætt er um vísitölu neysluverðs, að hún er einfaldlega mælikvarði á verðbreytingar útgjalda heimilanna í landinu sem Hagstofa Íslands reiknar út í samræmi við lög um vísitölu neysluverðs. Hins vegar er fyrirkomulag verðtryggingar ekki á borði Hagstofunnar.

Hagstofa Íslands telur mikilvægt að tryggja gegnsæi varðandi þær aðferðir sem notaðar eru við útreikning á vísitölu neysluverðs og styðst við alþjóðlega viðurkenndar aðferðir í þeim efnum. Meginmarkmið við mælingu vísitölunnar er að tryggja vandaða og ábyggilega mælingu á þeim breytingum sem verða á verðlagi einkaneyslu í landinu. Vísitölu neysluverðs er fyrst og fremst ætlað að sýna breytingar á neyslukostnaði heimilanna og er hún meðal annars notuð til þess að reikna kaupmátt launa og er mikilvægur mælikvarði á þróun lykilstærða í efnahagslífinu.

Fyrirkomulag verðtryggingar er ákveðið í lögum um vexti og verðtryggingu sem stjórnmálamenn taka ákvörðun um. Hagstofa Íslands reiknar margar vísitölur og þar á meðal vísitölu neysluverðs, bæði með og án húsnæðis. Sé vilji til þess að breyta verðtryggingu fjárskuldbindinga er Alþingi í lófa lagið að breyta lögum um vexti og verðtryggingu óháð þeirri aðferðarfræði sem beitt er við að reikna vísitölu neysluverðs."

Innviðaráðherra hefði alveg eins og getað lagt til að Veðurstofan hætti að telja vindhviður þar sem þær magni upp veðurmælingar. Það efast fáir um verðbólgumælingar Hagstofunnar ólíkt því sem þekkist í Tyrklandi. Og fáir efast um að þróunin á fasteignamarkaði undanfarin ár hafi áhrif á verðlagsþróunina. Vafalaust geta fræðimenn rætt um með hvaða hætti reikna á húsnæðisliðinn inni í vísitölunni en rétt er að taka fram að á meginlandi Evrópu hefur orðið vart við vaxandi sannfæringu sérfræðinga að kostnaður vegna eigin húsnæðis eigi heima í slíkum vísitöluútreikningum.

Framsóknarflokkurinn hefur í gegnum árin boðað ýmsar lausnir í húsnæðismálum í kringum kosningar að fyrirmynd erlendra ríkja á borð við skosku og svissnesku leiðina. Samhljómur á milli málflutnings Framsóknarráðherranna og tyrknesku leiðar Erdogan hefur verið óþægilega mikill að undanförnu.

Verðbólguþróunin um þessar mundir kallar á ábyrga umræðu um efnahagsmál og vitræna stefnumótun. Slík umræða á ekki að byggja á hugmyndum um hvernig sé hægt að láta verðbólguna hverfa með skapandi útreikningum eða þá hvernig eigi að koma í veg fyrir að peningamálastefna Seðlabankans virki sem skyldi.