*

laugardagur, 4. desember 2021
Huginn og muninn
30. október 2021 08:55

U-beygja í Húsi verslunarinnar

Kannski hefur skynsemin borið Ragnar Þór ofurliði þennan þriðjudagsmorgun því nú er tónninn aldeilis annar.

Ragnar Þór Ingólfsson og Vilhjálmur Birgisson.
Haraldur Guðjónsson

Félagarnir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, blésu í herlúðra í fyrradag. „Það er mikilvægt að Seðlabankinn sé upplýstur um það að við munum sækja hverja einustu krónu sem þeir leggja á heimilin, í formi hærri vaxta, í næstu kjarasamningum,“ segir í grein sem þeir birtu á Vísi.

Skjótt skipast veður í lofti því einungis tveimur vikum áður, eða þriðjudaginn 12. október, sagði Ragnar Þór í viðtali á Bylgjunni að horfa þyrfti á aðra þætti en launaliðinn í komandi kjaraviðræðum. Var þar að finna óvæntan samhljóm með honum og Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra. Kannski hefur skynsemin borið Ragnar Þór ofurliði þennan þriðjudagsmorgun því nú er tónninn aldeilis annar.

Þeir félagar, Ragnar Þór og Vilhjálmur, benda á að nú í þrígang hafi Seðlabankinn hækkað stýrivexti og að samkvæmt spá Landsbankans verði þeir komnir í 4,25% árið 2023 „eða á sama stað og þeir voru við gerð Lífskjarasamningsins vorið 2019“. Þetta er ekki rétt. Stýrivextir voru 4,5% þegar samningarnir voru undirritaðir þann 3. apríl árið 2019.

Þessi hótun Ragnars Þórs og Vilhjálms gæti komið í bakið á þeim. Þeir tala um spá Landsbankans um 4,25% stýrivexti árið 2023 en samningarnir verða lausir eftir ár, haustið 2022. Hvaða máli skiptir þá spá sem nær til ársins 2023?

Þetta er allt frekar ruglingslegt svo ekki sé nú talað um það hvernig þeir félagar ætla að reikna þessa kröfugerð út. Í næstu kjarasamningum ætla þeir sem sagt að sækja hverja einustu krónu sem Seðlabankinn leggur á heimilin í formi hærri vaxta. Þeir hljóta því að ætla að miða við 4,5% stýrivexti í þeim útreikningum, sem var staðan þegar Lífskjarasamningarnir voru gerðir. Hvað ef stýrivextir verða lægri en það þegar samið verður eftir ár? Verða taxtar þá lækkaðir sem nemur ábatanum sem heimilin hafa haft vegna lægri stýrivaxta á samningstímanum? Kannski Samtök atvinnulífsins geri þá kröfu.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.