Í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar töldu sumir að aldrei aftur kæmist nokkur upp með það sem Adolf Hitler komst upp með. Þegar grimmdarverk Jóseps Stalín opinberuðust töldu sumir að aldrei myndi nokkur maður geta komið eins fram við þjóð sína. En sagan endurtekur sig aftur og aftur.

En það virðist einnig vera töluvert framboð af trúgjörnum flónum sem komast til valda. Neville Chamberlain var eitt þeirra og það er afar sennilegt að heimsmyndin hefði verið önnur ef Bretland, og heimurinn allur, hefði ekki fengið Winston Churchill í hans stað.

* * *

Á fimmta degi innrásarinnar í Úkraínu áttuðu forystumenn Evrópusambandsins sig loksins á því að hugsanlega gæti Úkraínumönnum gagnast að hafa svolítið af vopnum. Það er eins og allir ráðamenn Evrópu hafi fengið hraðnámskeið hjá Chamberlain – hvernig eigi ekki að bregðast við þegar Pútín var búinn að safna 200 þúsund hermönnum við landamæri Úkraínu og árás vofði yfir.

En forystumenn Evrópu voru ekki bara sofandi. Mörg Evrópuríkin eru búin að koma sjálfum sér í algjöra sjálfheldu í orkumálum og neyðast til að kaupa olíu og gas frá Rússlandi.

Evrópusambandið segir að 41% af því gasi sem er brennt í aðildarlöndunum sé frá Rússlandi. Sem er auðvitað gasalegt. Fjórðungur af olíu Evrópusambandsins kemur einnig frá Rússlandi.

Í nafni umhverfisverndar hafa mörg Evrópuríkin takmarkað eigin vinnslu og notkun mengandi orkugjafa. Þetta hefur valdið því að forystumennirnir, sem er rangnefni, hafa verið mjög linir við Pútín vegna þess hve háðir þeir eru orkunni frá honum. Þýskaland er líklega allra verst statt því að auki ákvað Angela Merkel að loka kjarnorkuverum í kjölfar hörmunganna í Fukushima.

Ríkissjónvarp á vígvelli

Óðinn undraðist nokkuð þegar Ríkisútvarpið fór að flytja fréttir frá Úkraínu í sama mund og innrás Rússa hófst. Það var eins og Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður hefði villst á vettvang. Sem kom síðar í ljós að var rétt.

Nýráðinn fréttastjórinn Heiðar útskýrði þetta í yfirlýsingu í byrjun vikunnar:

„Það var mikill léttir að frétta af því seint í gærkvöld að Ingólfur Bjarni og Ingvar væri komnir yfir landamærin til Póllands. Ferðalagið þeirra tók svo sannarlega aðra stefnu en var áætlað þegar þeir lentu á miðvikudagskvöld. Rússneskar hersveitir hófu innrás nokkrum klukkustundum síðar, og ólíkt því sem flestir bjuggust við létu þeir ekki duga að ráðast inn í austurhéruðin heldur hófst allsherjarinnrás með árásum á höfuðborgina. Fæstir gerðu ráð fyrir að Pútín léti verða af því.“

Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, útskýrði þetta einnig á Facebook í byrjun vikunnar. Tekið skal fram að samkvæmt heimasíðu Kveiks er þátturinn fréttaskýringaþáttur frá Ríkisútvarpinu með áherslu á rannsóknarblaðamennsku:

„ENGINN bjóst við innrás af fullum þunga úr öllum áttum án fyrirvara. Þegar innrásin hófst og reyndist jafn víðtæk og raun bar vitni varð strax ljóst að þeir yrðu að fara, enda engar forsendur fyrir því að dvelja í Kænugarði áfram.“

Fréttastjórinn og þáttastjórinn eru ekki alveg sammála um hvort enginn eða fæstir hafi talið að von væri á allsherjarinnrás, eða árás af fullum þunga, inn í höfuðborgina.

Á þriðjudagskvöld birtist þáttur Kveiks, fréttaskýringarþáttur með áherslu á rannsóknarblaðamennsku, um ferðalag Ingólfs Bjarna. Þar segir Ingólfur í byrjun þáttarins:

„Þótt Rússlandsher hafi safnað nærri 200 þúsund hermönnum við landamærin reiknaði enginn í alvörunni með eins skærum í austurhéruðunum þar sem Rússar gerðu innrás árið 2014 og hernumdu þau að hluta. En á fimmtudagsmorgun klukka fimm vöknuð borgarbúar í Kænugarði við þetta.“ [Loftvarnarflautur fara í gang]

* * *

Fimm dögum áður en innrásin hófst og Ingólfur Bjarni birtist á skjáum skattgreiðenda hélt Joe Biden fréttamannafund í Hvíta húsinu. Nánar tiltekið að kvöldi 18. febrúar. Þar sagði Biden:

„Við höfum ástæðu til að ætla að rússneski herinn sé að skipuleggja og ætli sér að ráðast á Úkraínu á komandi viku — á komandi dögum. Við teljum að þeir muni ráðast á höfuðborgina Kænugarð, borg með 2,8 milljónir saklausra íbúa.“

Frá þessum fundi var sagt frá í öllum helstu fjölmiðlum í heiminum. Öllum.

* * *

En það sem er hvað vandræðalegast fyrir fréttamennina þrjá, fréttastjórann og ritstjóra Kveiks, sem leggur áherslu á rannsóknarblaðamennsku, er að frétt af blaðamannafundinum var flutt í Ríkissjónvarpinu að kvöldi 18. febrúar.

„Joe Biden, Bandaríkjaforseti, segist sannfærður um að Vladimir Putin, forseti Rússlands, sé búinn að skipuleggja innrás í Úkraínu. Hún verði líklega að veruleika á næstu dögum. Þetta tilkynnti Biden á blaðamannafundi í kvöld, eftir fund með leiðtogum fjölda vestrænna ríkja um Úkraínudeiluna.

Biden segir ljóst að spennan á landamærunum fari vaxandi og oftar sé greint frá brotum gegn vopnahléi. Þá telji hann að Rússar reyni að ögra herliði Úkraínumanna, koma þannig á átökum svo þeir geti réttlætt innrás í landið sem varnaraðgerðir. Þetta segir forsetinn ríma við aðferðir sem Rússar hafi áður beitt. Hann sagði það jafnframt algerlega órökrætt að ætla að Úkraníuher myndi ráðast á herlið Rússa, sem nú telur yfir 150 þúsund manns.“

Á þessum tímapunkti eru bandarísk stjórnvöld sannfærð um að Rússar muni ráðast inn í Úkraínu. Allan febrúarmánuð voru vangaveltur um innrás fluttar stöðugt í fjölmiðlum. Þann 12. febrúar voru til dæmis fluttar fréttir af orðum Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafa forsetans, að Rússar gætu hafið innrás í Úkraínu hvenær sem er. Þann 10. febrúar var sagt frá því á NBC að Rússar gætu farið inn í Úkraínu á níu mismunandi stöðum í allsherjarinnrás.

* * *

Óðinn er þeirrar skoðunar að peningum skattgreiðenda sé ákaflega illa varið í rekstur ríkisfréttastofunnar. Það má alveg deila um hvort Ingólfur Bjarni hafi átt eitthvert erindi til Úkraínu, ekki Úkraníu eins og segir tvívegis í fréttinni, og hvort þannig sé annarra manna peningum vel varið.

En það er ekki boðlegt af fréttastjórum og ritstjórum ríkisfjölmiðilsins þegar gagnrýni kemur fram að bera það á borð að „ENGINN, eða „fæstir“ hafi talið líklegt að forseti Rússlands hafi talið líklegt ráðist yrði inn í Úkraínu.  Er slíku fólki treystandi til að segja fréttir?

Það færi vel á því að Ríkisútvarpið yrði nú selt, eða lagt niður, og þeir fimm milljarðar sem skattgreiðendur greiða til Ríkisútvarpsins rynnu heldur til Úkraínu næstu árin.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .