*

föstudagur, 19. júlí 2019
Huginn og muninn
27. mars 2014 16:12

Úlfurinn í Borgartúni

Vel tengdir hrafnar hafa skipt Auroracoin rafeyri sínum fyrir dollara með aðstoð gjaldeyrismiðlara.

Huginn og Muninn hafa fylgst með framvindu nýmiðilsins Auroracoin að undanförnu og skemmt sér vel. Þeir hafa þó ekki haft áhuga né nennu á að kynna sér hvernig hægt sé að koma sýndarfénu, sem þeir eins og aðrir Íslendingar geta náð sér í á netinu, í verð. Skemmtilegt nokk komust þeir þó í samband við rafeyrismiðlara sem sér um málið fyrir þóknun. Svo því sé haldið til haga þá er viðkomandi dýrasti gjaldeyrismiðlari landsins því hann tekur 20% hlut af braskinu, sem þykir helst til mikið í samanburði við aðra. Væntanlega er það vegna þess að um glænýja starfsgrein er að ræða hér á landi og samkeppnin ekki mikil.

Skrefin sem þarf að taka til að umbreyta þessum rafeyri, sem byggður er á engu, yfir í eigin neyslu eru nokkur en þó ekki óyfirstíganleg. Fyrst þarf að ná í rafeyrinn á heimasíðu Aurora og færa yfir á myntveski, í þessu tilfelli myntveski rafeyrisbraskarans. Rafeyrismiðlarinn mikli, sem hér eftir mun bera nafnið Úlfurinn í Borgartúni, breytir svo Auroracoin yfir í Bitcoin á þar til gerðum rafeyrismarkaði. Bitcoin er þekktari rafeyrir en engu að síður byggður á sama sandi og Auroracoin. Því næst heldur rafeyrismiðlarinn áfram og færir Bitcoin yfir í dollara á Paypal reikningi. Eftir þessa hringavitleysu alla er komið handbært fé, sem nota má til neyslu á vörum sem hægt er að panta á netinu eða jafnvel millifæra hingað heim.

Þegar þetta er skrifað þá er gengi Auroracoin á móti Bitcoin 0,0138. Þannig fást 0,44 Bitcoin fyrir þær 31,8 Auroracoin sem hver Íslendingur fær. Fyrir það fást rúmlega 250 dollarar. Fari allir sjálfráða Íslendingar sömu leið væri hægt að flytja hingað inn um fjóra milljarða króna í gjaldeyri. 

Með þessu hefur stofnanda Auroracoin tekist að búa til verðmæti úr engu, þótt hugsunin á bak við myntina sé eflaust ekki sú að henni sé einfaldlega skipt í Bandaríkjadali og notuð til að kaupa vörur á Amazon. Þetta eru þó verðmæti sem fleiri geta nýtt sér og flutt hingað heim, reyndar í óþökk Seðlabankans og yfirvalda sem hafa varað við notkun rafeyris.

Þessi rafeyrisframleiðsla er að mörgu leyti mögnuð og má að sönnu líkja við töfrabrögð. Útgáfa gjaldmiðils sem byggir eingöngu á því að einhver er tilbúin að skipta öðrum gjaldmiðlum fyrir þann nýja. Það læðist að manni sá grunur að rót Auroracoin megi finna í röðum Framsóknarflokksins, því þar má finna marga snillinga sem hafa talað digurbarkalega um að finna svigrúm til að greiða sem flestum út ókeypis peninga. Má því segja að aðstandandi Auroracoin, Baldur Friggjar Óðinsson, hafi staðið sig betur en ríkisstjórnin í peningalegri galdramennsku. Þá er bara spurning um að Seðlabankinn setjist á kauphliðina á gjaldeyrismarkaðnum á meðan dollararnir streyma inn.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.