*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Týr
26. ágúst 2018 17:02

Ullabjakk

Tungan er til margs nýt, Líf, en í stjórnmálum á fólk að láta sér nægja að tala með henni.

Aðsend mynd

Ullið í borgarstjórn var uppspretta mikillar kátínu í þjóðfélaginu, en um leið og aulahrollurinn hríslaðist um kjósendur bærðust margvíslegar tilfinningar aðrar vafalaust í brjóstum þeirra. Vonleysi og uppgjöf, jafnvel fyrirlitning. Mega stjórnmálin við minna trausti? – Vandinn við fíflagang eins og þann sem Líf Magneudóttir viðhafði þar er hins vegar sá, að með honum gera hún ekki aðeins sjálfa sig að fífli, heldur borgarstjórn líka. Það að Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar, skuli ekki hafa gripið í taumana, ávítt Líf eða vikið henni af fundi, sýnir svo að hún er ekki starfi sínu vaxin og vill vera í fíflaflokknum.

                      ***

Í lýðræðisþjóðfélagi kjósum við fulltrúa almennings til þess að fara með stjórn sameiginlegra mála fyrir okkar hönd, með yfirveguðum hætti, hafi tíma til þess að rísa yfir dægurþrasið og enginn efist um umboðið. Þannig er það að vísu ekki alveg í Reykjavík, þar sem meirihlutinn situr í skjóli minnihluta atkvæða og enginn er umboðslausari en einmitt Líf Magneudóttir, sem kjósendur gerðu sitt besta til þess að hafna og hékk aðeins inni vegna helmingsfjölgunar borgarfulltrúa. En kannski hagar hún sér svona einmitt vegna þess að hún veit að hún er búin að vera í pólitík.

                      ***

Sumir hneykslast á því að stjórnmálamenn kýti svona mikið, af hverju þeir geti ekki verið til friðs og stundað samræðustjórnmál. Það er misskilningur. Þvert á móti borgum við þeim laun fyrir að rífast fyrir okkar hönd. Minnihlutinn á alls ekki að vinna með meirihlutanum, því hans göfuga hlutverk er beinlínis að halda valdhöfunum við efnið. Láti þeir það vera, eiga önnur sjónarmið enga málssvara, ákvarðanirnar fara gagnrýnislaust í gegn og óstjórnin eykst.

                      ***

Góð stjórnsýsla þarf þess vegna bæði öflugan meirihluta og öflugan minnihluta. En þá þurfa leikreglurnar að vera í lagi. Embættismenn borgarinnar eiga þannig að þjóna öllum borgarfulltrúum og ekki ganga í lið með meirihlutanum. Eins er afar mikilvægt að formskilyrðum sé fullnægt, andmæli virt og að umræðan sé bæði skipuleg og helgist af háttvísi gagnvart andstæðingum og virðingu fyrir þeim embættum, sem almenningur hefur kjörið fulltrúa sína til.

                      ***

Tungan er til margs nýt, Líf, en í stjórnmálum á fólk að láta sér nægja að tala með henni. 

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is